Örskýring: LÖKE-málið

Um hvað snýst málið?

Ríkissaksóknari hefur fallið frá veigamesta ákæruliðnum í LÖKE-málinu. Málið varðar meint brot Gunnars Scheving Thorsteinssonar lögreglumanns vegna uppflettingar og meðferðar á upplýsingum úr upplýsingakerfi lögreglunnar, sem kallast LÖKE.

Hvað er búið að gerast?

Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, sagði í samtali við RÚV að í ljós hafi komið að gögn sem ákæran byggði á hafi ekki reynst alls kostar rétt. Ekki var hægt að útiloka að í meirihluta tilvika hafi uppflettingarnar tengst starfi Gunnars.

Verjandi lögreglumannsins sakar Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóra á Suðurnesjum, um rangar sakargiftir í málinu. Hún vísar þeim ásökunum á bug.

Þá vísar Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, á bug gagnrýni á rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum. Sigríður Björk var yfir lögreglunni á Suðurnesjum þegar málið var rannsakað þar.

Eftir stendur ákæruliður þar sem Gunnar er sakaður um að hafa sent tölvuskeyti á Facebook til annars manns með nafni og lýsingu á 13 ára gömlum dreng sem hann hafði haft afskipti af í starfi sínu.

Embætti ríkissaksóknara fer fram á sakfellingu í málinu vegna ákæruliðarins sem stendur eftir en að Gunnari verði ekki gerð refsing. Verjandi hans fer fram á sýknu.

Hvað gerist næst? 

Í viðtali við Fréttablaðið segist Gunnar ætla að sækja rétt sinn. Verjandi Gunnars segir hann hljóta að biðja um skaðabætur.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram