Örskýring: Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð (reyna að) mynda stjórn

Um hvað snýst málið?

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ákvað síðdegis á föstudag að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Bjarni tilkynnti forseta Íslands um þessa ákvörðun en hann fékk stjórnarmyndunarumboðið á Bessastöðum í byrjun nóvember.

Hvað er búið að gerast?

Viðræðurnar hófust í morgun í húsnæði fjármálaráðuneytisins í Arnarhváli.

Búið er að velja fólk úr flokkunum þremur til þess að taka þátt í málefnavinnunni eða vinnuhópunum við undirbúning stjórnarsáttmálans.

Auk Bjarna úr Sjálfstæðisflokki eru það Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari flokksins, Teitur Björn Einarsson þingmaður og Svanhildur Hólm, aðstoðarmaður Bjarna.

Fyrir Viðreisn auk Benedikts eru Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður og varaformaður Viðreisnar, og þingmennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Viglundsson.

Fyrir Bjarta framtíð auk Óttars eru í vinnuhópnum, þingmennirnir Björt Ólafsdóttir og Theódóra S. Þorsteinsdóttir og G. Valdimar Valdemarsson, sem er í framkvæmdastjórn flokksins.

Hvað gerist næst?

Flokkarnir reyna nú að mynda ríkisstjórn. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær að stjórnarmyndunarviðræður gætu tekið viku til tíu daga.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram