Örskýring: Skattaævintýri Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar útskýrt á mannamáli

Um hvað snýst málið?

Wintris greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir létu leiðrétta skattframtöl sín eftir að Wintris-málið kom upp.

Hvað er búið að gerast?

Wintris-málið sem hófst þegar Kastljós sýndi þátt um Panama-skjölin í apríl í fyrra en í kjölfarið var eftirfarandi meðal annars upplýst:

  • Sigmundur Davíð var helmingseigandi aflandsfélagsins Wintris frá því í nóvember árið 2007 til ársloka 2009.
  • Sigmundur seldi eiginkonu sinni hlut sinn í Wintris á gamlársdag árið 2009. Söluverð var einn dalur. Daginn eftir tóku í gildi lög til höfuðs aflandsfélögum sem kveða meðal annars á um að tekjur erlendra fyrirtækja í lágskattaríkjum beri að skattleggja hjá eigendum þeirra.
  • Hann skráði aldrei Wintris í hagsmunaskrá þingmanna, þrátt fyrir að vera skráður fyrir helmingshlut í félaginu til 31. desember 2009.
  • Wintris lýsti samtals kröfum upp á 523 milljónir króna í þrotabú Landsbanka Íslands, Glitnis og Kaupþings.

Sigmundur Davíð sagði í viðtali í Fréttablaðinu 24. mars í fyrra fráleitt að nota orðið skattaskjól í þessu máli. „Þetta er ekki skattaskjól ef skattarnir eru greiddir hér,“ sagði hann. Nú liggur fyrir, samkvæmt opinberum úrskurði yfirskattanefndar, að Wintris greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur um árabil.

Sigmundur og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona hans, sóttust eftir því að fá að breyta skattframtölum sínum mánuði eftir að Wintris-málið kom upp í apríl í fyrra. Það gerðu þau í bréfi til ríkisskattstjóra þar sem óskað var eftir að skattframtöl þeirra frá 2011 til og með 2016 yrðu leiðrétt og opinber gjöld sem þau áttu að greiða á tímabilinu yrðu endurákvörðuð. Athugið að ekki er um refsiverða háttsemi að ræða en þetta varð til þess að þau greiddu viðbótargreiðslur eftir að framtölin voru leiðrétt.

Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins greiddi Anna Sigurlaug of mikla skatta vegna Wintris. Ekki er um að ræða skattgreiðslur áður en Wintris-málið hófst, heldur greiðslur sem áttu sér stað eftir að hjónin óskuðu eftir að skattframtöl sín yrðu leiðrétt.

Greiðslurnar eru tilkomnar vegna þess að Wintris var gert upp í íslenskum krónum, sem gerði félaginu kleift að telja fram gengistap vegna sveiflna á gengi krónunnar. Ríkisskattstjóri taldi þetta ekki standast lög og rukkaði Önnu um viðbótarskattgreiðslur sem hún greiddi. Hún sætti sig ekki við þá niðurstöðu, kærði hana til yfirskattanefndar sem komst að því í 22. september síðastliðinn að hún máttu gera Wintris upp í íslenskum krónum. Hún fékk því endurgreitt.

Hvað gerist næst?

Sigmundur Davíð íhugar málsókn gegn þremur fjölmiðlum vegna umfjöllunar um fjármál hans og eiginkonu hans. Á mbl.is er gefið í skyn að umræddir fjölmiðlar séu RÚV, Kjarninn og Stundin en sjálfur neitar Sigmundur að nafngreina þá.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram