Að hata barnið sitt

Auglýsing

Fyrir tæpu ári síðan byrjaði ég að pára þennan pistil í tölvuna. Oft á þeim tíma ákvað ég að hann væri tilbúinn og blessunarlega skipti ég jafn oft um skoðun. Útgáfurnar af honum eru jafn misjafnar og þær eru margar. Sú fyrsta var samhengislaus reiðilestur sem taldi tugi síðna en þær sem fylgdu í kjölfarið urðu ávallt styttri en forveri sinn. Því miður uppgötvaði ég á leiðinni, mér til mikillar skelfingar, að ég er alls enginn Þórbergur en ég er eins sáttur með hann og ég get orðið.

Er skriftir hófust var ég nýkominn út af geðdeild. Í um sjö ár, fram að þeim atburði, hafði depurð þjakað mig. Síðari hluta unglingsáranna tapaði lífið einhverjum sjarma. Ég veit ekki hvað varð til þess en smám saman minnkaði ánægjan af öllu sem ég tók mér fyrir hendur.

Líttu á tilfinningar sem skala frá núll til tíu. Núll er versta mögulega líðan sem til er, tíu sú besta og fimm er normið. Síðastu sjö ár var ég stabíll í þristi. Ekkert vakti hjá mér gleði, fátt náði að gera mig fýldan, ekkert skipti mig máli. Viðbrögð við öllu voru lærð. Í þessum aðstæðum bar mér að brosa, í öðrum hélt ég faðmlaginu nógu lengi, í enn öðrum þóttist ég samhryggjast eða reyndi jafnvel að gera mér upp reiði. Staðreyndin er sú að ég fann ekki fyrir neinu af þessu.

Til lengdar fannst mér þetta ömurlegt. Ég gerði aldrei hluti sem mig langaði að gera aðallega af því mig langaði ekki neitt. Allt sem ég gerði var leiksýning til að fela það hvernig mér leið í raun og veru. Rökrétt framhald myndi ég kalla sýninguna ef Grísalappalísa væri ekki búin að taka það nafn.

Auglýsing

Framan af var ótrúlega auðvelt að halda þessu batteríi gangandi. Ganga menntaveginn. Æfa íþrótt. Vera virkur í félagsstarfi skólans. Hitta vini. Eignast kærustu. Væra væminn. Senda sætt SMS. Faðma og hughreysta á erfiðum stundum. Segjast elska og vilja verja ævinni saman. Allt saman lygi.

Sannleikurinn var að ég fann fyrir engu nema leiða. Við áttum ekkert sameiginlegt og áhugi minn á frekara sambandi var takmarkaður. En þar sem ég taldi mig hvort eð er ófæran um að finna fyrir gleði þá fannst mér hún gæti alveg gert sama gagn og hver önnur stelpa til að þykjast vera ástfanginn af.

Þegar ég horfi um öxl þá finnst mér ótrúlegt að enginn hafi séð í gegnum þetta gervi mitt. Flesta morgna staulaðist ég á fætur og skakklappaðist í gegnum daginn. Á nærri hverju einasta kvöldi lagði ég höfuðið á koddann og hugsaði alls konar. Eru allir svona? Hvað á ég að gera? Hvað ef ég myndi fyrirfara mér? Myndi það einhverju breyta? Djöfull nenni ég þessu ekki áfram. Af hverju ætti ég að halda áfram að lifa? Niðurstaðan var sú að allt er tilgangslaust drasl sem engu máli skiptir og úr því það skipti engu gat ég allt eins látið mig hafa það aðeins lengur.

Lífið var ómerkilegt en það ómerkilegasta af öllu var ég. Ég var einskis nýtt úrhrak sem ekkert gat rétt gert og að auki ótrúlega meðvitaður um að ég var að ljúga að öllum í kringum mig. Ég hataði mig fyrir það en sagði engum frá því. Ég var sannfærður um að þetta myndi allt reddast. Ef það gerðist ekki þá yrði það bara svo að vera enda skipti það ekki máli þegar allt kæmi til alls, ekki satt?

Allt hið slæma holdgerðist í barninu
Fyrir um tveimur og hálfu ári síðan bættist enn eitt hlutverkið við leikritið mitt. Ég fékk þær fregnir að ég væri að verða faðir. Áhugalaus og gagnslaus beit ég það í mig að gera mitt besta. Skítt með mína líðan. Ég var hvort sem er ófær um að finna nokkurn skapaðan hlut. Kærastan mín gat fundið hluti, ég gat allt eins gert mitt besta til að gera hana glaða (mitt besta var langt frá því að vera mikið).

Í mínum allra stærstu bjartsýnisköstum hugsaði ég með mér að með föðurhlutverkinu hyrfi vanlíðan mín líkt og fylgi Framsóknarflokksins eftir kosningar. Að þegar ég fengi barnið í hendurnar myndi andinn koma yfir mig, ég myndi finna fyrir hlutum á ný og sigla þessu skipi í örugga höfn. Oft hefur mér skjátlast en aldrei jafn hrapalega og þarna. Það kom á daginn að fleyið mitt var ryðgaður dallur sem var fjarri því að vera sjófær sökum leka.

Tilfinningin þegar ég sá son minn í fyrsta skipti var ömurleg. Ég fann fyrir viðbjóði. Allar lygarnar og allt sem ég hataði í fari mínu hafði skyndilega holdgerst. Slímugar bak við eyrun, inn í hitakassa á vökudeild Landspítalans og grenjuðu.

Mig langaði að þykja vænt um hann, mig virkilega langaði það, en ég var ófær um það. Ég reyndi sem frekast ég gat en ég kunni það ekki. Hvernig þykir manni vænt um einhvern? Hvernig er maður glaður? Ég kunni að feika þessa hluti en ég kunni ekki að finna fyrir þeim og það var að éta mig lifandi. Ég óska ekki nokkrum manni að líða á þennan veg. Engum.

Matarlystin hvarf. Svefninn varð í besta falli óreglulegur. Líðan mín hætti að vera þristi og fleiri og fleiri dagar urðu að ásum. En áfram hélt sýningin. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég hafi gert margt en ég gerði sumt, stundum. Bleyjuskipti. Svæfa. Þurrka upp gubb. Láta hann hlæja. Hugga hann. Ganga um með hann þegar hann var órólegur.

Allt í einu leit ég hnífa og púða ekki sömu augum og áður. Eitt sinn endaði ég á að hringja í móður hans og biðja hana um að koma heim hið snarasta. Ekki man ég hvaða ástæðu ég gaf henni en raunverulega ástæðan var að ég var kominn á fremsta hlunn með að kanna sundhæfileika drengsins.

Verri líðan skilaði sér í verri frammistöðu (vonlaus frammistaða er nær lagi) og ég fór að detta úr karakter. Fyrst til að sjá í gegnum mig var barnsmóðir mín. Reglulega minnti hún mig á eigin vankanta þó hún hafi ekki gert það jafn oft og ég sjálfur. Að endingu tók hún þá afar skynsömu ákvörðun að slíta sambandi okkar. Klárlega það besta sem gat komið fyrir alla hlutaðeigandi aðila þó ágæti aðferðarinnar sem varð fyrir valinu sé umdeilanleg.

Hellisbúinn sem skaðbrenndi sig
Skömmu síðar gerðist upp úr þurru eitthvað sem ég skil ekki enn. Stífla brast og um mig flæddu allar þær tilfinningar sem höfðu verið heftar þriðjung ævi minnar. Þær hreinlega kaffærðu mig. Skyndilega fann ég á eigin skinni hvað fólk átti við með orðum á borð við angist, reiði, afbrýðissemi, gleði og svo mætti lengi telja.

Ég var eins og hellisbúi að uppgötva eldinn. Tilfinningarnar voru eitthvað nýtt, eitthvað spennandi. Ég efast um að hellisbúinn sem fangaði eldinn hafi gert það án þess að brenna sig og ég var ekkert öðruvísi. Líkt og í leiðslu fóru allar mínar vökustundir í að reyna að skilja og læra á þessa óvæntu en langþráðu gesti og í svefni sótti verkefnið að mér. Hver einasti dagur var undirlagður verkefninu og öll mín orka því eyrnamerkt.

Á meðan gleymdust hlutir sem fræðimenn eru sammála um að séu nauðsynlegir. Ég sleppti úr máltíðum og andvökunóttum fjölgaði (og þær höfðu verið of margar fyrir). Þegar ég var sem verstur svaf ég ekki í þrjá daga og borðaði ekki jafn lengi. Að lokum kastaði ég handklæðinu inn í hringinn.

Ég skrifaði bréf sem átti að vera það síðasta sem ég myndi rita á ævi minni. Á löngum andvökunóttum hafði ég oft velt fyrir mér hvernig slíkt bréf liti út. Hvernig liði mér? Alltaf hafði ég séð mig fyrir mér með penna í hönd, grátbólgin augu, tárvott blað fyrir framan mig og skíthræddan um það sem væntanlegt væri. Raunin var að ég lá líkt og beinlaust fiskflak uppi í rúmi, með tölvuna á maganum og leið betur en mér hafði liðið í fjölda ára.

Tilraunirnar urðu alls þrjár. Allar jafn heimskulegar og vanhugsaðar. Lykilorðið er að þær voru tilraunir. Maður sem sannarlega vill sálga sér gerir það. Ég var í besta falli „til í það.“ Að endingu fór ég inn á geðdeild Landspítalans en auðvitað þurfti ég að byrja á því að láta þá sem næst mér standa leita að mér um borgina.

Ég var útskrifaður eftir viku og kom að mörgu leiti verri út. Að vísu langaði mig ekki lengur að skaða mig en þess í stað einsetti ég mér að draga sem flesta niður á mitt plan. Ef ég ætti tímavél myndi ég fara aftur í tímann og gera verri hluti við fortíðar-mig en þáverandi sambýlismaður Hildar Lilliendahl myndi þora að láta frá sér á bland.is.

Því miður myndi það ekki breyta því að ég var ömurlegur við alla í kringum mig og mér tókst að gera það án þess að vera í nokkurskonar neyslu. Síðasta ári sturtaði ég einfaldlega niður. Mér tókst að gera allt það sem skilgreinir skíthæl að því undanskildu að hóta eða beita ofbeldi. Frábært Jóhann, takk fyrir Jóhann. Já, ég var í alvörunni að hampa sjálfum mér fyrir það að hafa ekki gert tilraun til að ganga í skrokk á einhverjum. Þvílíkur árangur.

Mér dettur ekki í hug að nota veiluna sem afsökun fyrir því sem ég gerði, enda finnst mér ég alls, alls, alls ekki eiga skilið að vera afsakaður, en staðreyndin er að hún var ástæðan fyrir mörgu sem gerðist. Og ég dauðsé eftir því öllu saman.

Ég dauðsé eftir því að hafa látið mig hverfa og ekki hafa samband við sálu svo dögum skipti. Ég dauðsé eftir um það bil hverju einasta orði sem ég hef sagt síðasta árið. Það væri hægt að halda lengi áfram. Mest sé ég eftir því að hafa afneitað syni mínum. Í stað þess að segja „Sorrí, ég er ekki í standi til að umgangast hann núna, gemmér séns á að jafna mig,“ þá hlóð ég í eitt nautheimskt „Ég vil aldrei nokkurntíman sjá þetta barn framar.“ Í meira en hálft ár hélt ég því til streitu.

Leitaðu aðstoðar fagfólks
Mögulega hefði ég átt að byrja á þessum parti því hann er það sem einhverju máli skiptir. Fáir útvaldir hafa fengið að berja þessa langloku augum og viðbrögðin hafa yfirleitt verið svipuð. „Þetta er sæmilegur texti á köflum, Jóhann, en hugsaðu þig tvisvar um áður en þú setur hann í loftið. Netið gleymir ekki.“ Ef þú hefur lesið alla leið hingað þá hef ég greinilega ýtt á publish. Það var maske ekki skynsamlegt. Það gæti haft áhrif á atvinnuviðtöl í framtíðinni og það mun vafalaust breyta viðhorfi samferðafólks míns til mín. Hræddastur er ég viðbrögð sonar míns er hann grefur þetta upp á vefnum.

Ég er búinn að hugsa mig um. Lengi. Mig langar að láta þessa romsu gossa og ég ætla ekki að réttlæta það fyrir neinum. Ég tek bara einn dag í einu. Í fyrsta skipti á ævinni er ég að gera hluti sem mig langar að gera og ég er að njóta þess. Það er klassískt að deila reynslu sinni til að hjálpa öðrum en ég er laus við það. Það er enginn æðri tilgangur með þessu. Ef orð mín hjálpa  einhverjum, stuðla að breytingum á kerfinu eða opna á umræðu þá er það frábært en alger bónus.

Yfir sjö milljarðar manna búa í heiminum. Engir tveir eru eins en flest erum við svipuð. Ég vona innilega að ekki ein einasta sála hafi eða muni finna fyrir sömu tilfinningum og ég en ég útiloka ekki þann möguleika. Ég veit ekki hvort karlar geti þjáðst af fæðingarþunglyndi (#6dagsleikinn) en líðan mín tók duglega dýfu eftir að sonur minn fæddist. Í ungbarnaeftirliti og heimsóknum á heilsugæslustöðvar var barnsmóðir mín spurð um líðan sína og fékk að taka svokallað Edinborgar-próf. Slíkt, eða eitthvað áþekkt, er ekki í boði fyrir karla.

Það hvarflaði aldrei að mér að segja neinum frá raunverulegri líðan minni gagnvart syni mínum einfaldlega því ég var hræddur um hvað fólk myndi halda. Hvað yrði gert? Yrði ég lokaður inni? Ég var búinn að vera meira en hálft ár hjá sálfræðingi þegar ég sagði loksins frá þessu og eingöngu af því ég var hvort sem er svo sannfærður um að ég myndi aldrei fá að hitta son minn aftur.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að samband móður og barns spilar í upphafi langstærsta rullu í og að líffræðilega geta karlmenn látið sig hverfa um leið og þeir hafa losað sig við sína vessa. Fæstir gera það og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að flesta langi að taka þátt í uppeldinu. Væri ekki þjóðráð að eiga til bækling eða einblöðung þar sem þunglyndi feðra eftir fæðingu er nefnt? Ef það er of mikið þá hlýtur að vera í lagi að lauma eins og málsgrein í þá bæklinga sem ætlaðir eru konum? Og ef þeir eru þegar til þá mætti gauka þeim oftar að fólki.

Ég veit það best sjálfur að þegar mér leið eins og kúk hefði ég ekki tekið rassgats mark á bæklingi frá Hippókratesareiðssvörnum fræðimanni. Mögulega hefði ég tekið mark á einhverjum sem gengið hefði í gegnum áþekkan pakka. Mögulega get ég verið sá maður fyrir einhvern annan. Sama hver ástæðan bak við vanlíðan þína er þá er sálfræðingur alltaf staðurinn til að byrja á. Ef þú telur þig ekki geta beðið eftir tíma hjá sálfræðingi þá er bráðamóttaka geðdeildar næsti kostur. Þar lendirðu á framúrskarandi fagfólki sem vill gera allt fyrir þig.

Líttu á dæmið svona. Ef vatnslögn springur hjá þér þá hringirðu í pípara. Sé lekinn smávægilegur gæti þér dottið í hug að þú gætir fiffað þetta með smá WD-40, baggabandi og límbandi en á endanum verðurðu að heyra í fagmanni. Það er ef þú vilt ekki enda með fúkka og ógeð út um allt.

Þú og þinn sjúkdómur er ekki öðruvísi. Það er eitthvað í þér sem er ekki rétt vírað og það er vissara að láta líta á það áður en það verður skammhlaup. Það mun enginn loka þig inni fyrir hugsanir þínar. Það er öllu líklegra að þú lendir í brasi leyfirðu þeim að marinera áður en þú gerir þær að veruleika.

Það að einhver annar gæti haft það verr en þú og þú sért að stela verðmætum tíma frá einhverjum öðrum er heldur ekki afsökun. Ég meina, myndirðu sleppa því að fara með puttabrot upp á slysadeild því að mögulega er einhver annars með opið brot á sköflungi og margbrotna mjaðmagrind? Ég kannast við um það bil allar afsakanirnar og þær eru allar jafn vitlausar og allar hátíðarræður forsætisráðherra, núverandi og fyrrverandi, sem ég hef heyrt.

Úr því að ég nefndi nú ráðamann þá grunar mig að það sé hægt að bæta núverandi kerfi eitthvað. Það tók mig til að mynda sex mánuði að komast að hjá geðlækni. Það verður að taka með í reikninginn að á þeim tíma voru verkföll og alls konar bras í gangi en þegar ég fékk tíma, eftir fimm mánaða bið, var það vegna þess að annar í röðinni á undan mér hafði forfallast.

Eftir allt mitt klúður þurfti ég að læra að gera allt upp á nýtt. Ég tók nokkrar vikur í það að læra að sofa og borða upp á nýtt og í kjölfarið áttaði ég mig á því hvað rútína, hreyfing og örlítið hollara matarræði getur gert fyrir mann. Fortíðar-ég lofaði sjálfum sér að verða aldrei sú týpa sem veltir slíkum hlutum fyrir sér en nútíðar-ég er nokkuð sáttur með að hafa svikið það loforð. Fortíðar-ég vonaðist nefnilega eftir því að andast í svefni meðan nútíðar-ég hlakkar til að vakna. Það er tilfinning sem venst ágætlega.

Sú tilfinning sem venst best af öllum er að hafa gaman af því að umgangast barnið sitt. Allt það sem áður braut mig niður og var það versta við hvern einasta dag hefur snúist í andhverfu sína. Það skiptir ekki máli hvað það er, allt sem honum viðkemur gerir daginn minn. Það þarf ekki nema lítið snapp, mynd eða myndband, af honum, það dugir.

Það sem af er ári hef ég fengið að vera með hann samtals í tæpa viku. Fyrir ykkur sem tókuð andköf fyrir hönd barnsins, hafið ekki áhyggjur. Í öll skiptin var ég undir eftirliti svo það yrði engin hætta á því að óútreiknanleg og ofsafengin ofbeldishneigð kæmi niður á drengnum. Skiljanlega er fjöldi umgengnisdaga takmarkaður en það er ótrúlega gott að vita til þess að þú ert að gera allt sem þú getur gert til að laga stöðuna. Meira geturðu ekki gert.

Einhverntíman mun ég mögulega skrifa nánar hvernig mér leið og hvað ég gerði til að ná mér en þessi langloka rúmar varla meir. Það var alls ekki auðveld ferð að ná sér á ný (eða í fyrsta skipti). Leiðin að bata er þyrnum stráð en úr því að ég, sem eitt sinn var lægsti samnefnari mannlegrar tilveru (ég á erfiðara með að kvitta undir það núna), gat fetað hana þá er ekkert sem stoppar þig í því.

Pistillinn birtist fyrst á bloggsíðu Jóhanns Óla en er endurbirtur á Nútímanum með leyfi höfundar. Jóhann Óli er á Twitter.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram