Ást, tími og agi

Dóttir mín sem er þriggja ára sagði við mig í gær: „Pabbi þú lofaðir að fara í Toysarus,“ (sem ég var ekki búinn að lofa), og „ef þú kaupir Barbie þá elska ég þig.“ Um leið og ég hafði lúmskt gaman af þessum gorgeir í dóttur minni þá var mér einnig eðlilega nokkuð brugðið. Nú fær dóttir mín mjög mikla ást og hlýju frá pabba sínum og er með mig nánast alveg í vasanum en það að hún skildi bara segjast elska mig ef ég keypti Barbie fannst mér nokkuð ósanngjarnt og fékk mig til að hugsa aðeins um á hvaða leið ég væri almennt í barnauppeldinu.

Nú er barnauppeldi ævarandi verkefni og margslungið. Miðað við reynslu mína af uppeldi þriggja barna, uppeldi foreldra minna á sjálfum mér (fékk mjög ástríkt uppeldi og átti yndislega foreldra) og uppeldi barna almennt sem maður sér allt í kring þá myndi ég segja að það væru þrír þættir sem skiptu mestu máli í öllu þessa flókna ferli sem barnauppeldi er: Ást, tími og agi.

Eðlilegt er að áætla að foreldrar almennt elski börnin sín og vilji gefa þeim mikla ást. Því miður er þessi ást oft veitt í flýti og með skyndilausnum. Sjálfur lendi ég oft í því að halda að ég sé að veita börnunum mínum ást með því að gefa þeim eitthvað. Oft og iðulega eitthvað drasl úr út búð, meðal annars úr Toysarus. Oft líka með því að segja þú mátt horfa, þú mátt fara í tölvuna (en um sjónvarpsgláp og tölvunotkun gilda reglur á heimilinu) eða með því að kaupa nammi (þó það séu nammidagar á laugardögum) eða jafnvel með því að segja: „Ég ætla að gefa þér 500 kall eða 1.000 kall sem þú getur sett í baukinn.“ Allt er þetta innihaldslaus ást í verki og ranghugmyndir mínar að halda að ég sé voðalega góður með þessum gjöfum sem eru ekkert nema umbúðirnar.

Best er að gefa börnum sínum aldrei neitt. Bara eina afmælisgjöf og eina jólagjöf. Punktur. Börn sem stöðugt fá gjafir og drasl í tíma og ótíma verða heimtufrek, vanþakklát, leiðinleg og kunna ekki að meta til dæmis þegar þau eiga afmæli.

Ást er meðal annars best veitt því að gefa barninu sínu tíma. Velferðarsamfélagið svokallaða á Íslandi (streitusamfélagið) ýtir hins vegar undir að tími foreldra með börnum sínum er mjög af skornum skammti. Börn eru vakin klukkan 7, dröslað í skólann klukkan 8, sótt klukkan 17. Svo er brunað á einhverjar æfingar með börnin eða þau tekin með út í búð og þeim síðan hent fyrir fram sjónvarpið á meðan það er eldað, og þá er kvöldmatur og svo í rúmið. Þarna einhvers staðar er kannski hálftími eða klukkutími en þá er ekki óalgengt að foreldrar séu í símanum eða í tölvunni, t.d. samhliða því að elda.

Á Íslandi er of mikið af foreldrum sem hafa ekki aðstæður til að gefa börnunum sínum tíma. Þá á ég við t.d. bara klukkutíma. Klukkutíma á dag þar sem ég sest niður með barninu mínu, spila Ólsen Ólsen eða veiðimann, fer í skák, baka, kubba, fer í bíló eða dúkkó eða bara út að hjóla eða í sund. Klukkutíma á dag þar sem ég geri ekkert annað en að vera með barninu mínu. (án þess að vera í símanum eða tölvunni).

Heima hjá okkur gildir sú ágæta regla að lesa á hverju kvöldi fyrir börnin þegar þau fara í rúmið svona um átta, hálf níu. Hins vegar er ég oft orðinn svo þreyttur eftir prógram dagsins (frá klukkan 7 til 20.30) að ég sofna yfirleitt sjálfur þegar ég er búinn að lesa eina eða tvær blaðsíður. Þess væri óskandi að foreldrar ættu raunverulega möguleika á að gefa börnum sínum meiri tíma.

Um leið og maður gefur börnum sínum ást og tíma er mikilvægt að þau alist upp við aga og reglur. (þar er ég t.d. frekar slakur ). Það er ótrúlega algengt að maður sjái tveggja, þriggja, fjögurra ára börn stjórna foreldrum sínum og heilu fjölskyldunum. Gjemmmér gjemmmér, suða og suða annars bara öskra ég og æpi. Þetta er áunnin frekja og agaleysi. Börnin valta yfir foreldrana sem skilja ekki neitt í neinu en eru kannski ef betur er að gáð búin að koma sér sjálf í þessa stöðu með því að dæla í börnin allskonar drasli (sem börnin voru jafnvel ekkert búin að biðja um).

Um leið og maður setur reglur þarf maður að fylgja þeim. Betra að er eyða þremur búðarferðum í það að segja nei við öllu, frekar en gugna og sitja uppi með frekt barn það sem eftir er sem veit að það getur stjórnað öllu með öskri og grenjum.

Nú á ég þrjú yndisleg börn og nýt hverrar stundar með þeim. Um leið er það hlutverk mitt sem pabba eins og allra annara foreldra að undirbúa þau fyrir lífið og gera þau að góðum og heilbrigðum einstaklingum. Og það er gríðarlega mikilvægt verkefni, kannski það merkilegasta af öllu, og eins gott að standa sig og vanda sig.

Næst þegar dóttir mín biður mig um pakka úr Toysarus segi ég henni að næsti pakki sem hún fái sé á afmælinu hennar, síðan fái hún jólagjöf, en hún megi óska sér þangað til. En um leið býð ég henni að koma lita, leira eða baka, eða bara í dúkkó.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu en er birtur á Nútímanum með góðfúslegu leyfi höfundar.

Auglýsing

læk

Instagram