Hættulegasta fólk landsins

Hættulegasta fólk landsins reynir nú að koma í veg fyrir að flokkar á Alþingi geti starfað saman. Umræðan er pólariseruð og fólki er stillt upp í fylkingar, hægri og vinstri, þó það sé reyndar erfitt að festa þessar skilgreiningar á nokkurn flokk sem kom fólki á Alþingi í kosningunum um síðustu helgi.

Staðan lítur svona út fyrir utanaðkomandi:

Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur í kosningunum en er ekki í neitt sérstaklega góðri stöðu. Björt framtíð og Viðreisn hafa myndað bandalag og reyna að byggja brú á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Síðarnefndi flokkurinn er einnig einn af sigurvegurum kosninganna.

Nú takast semasgt á pólitík og þjóðarhagur.

Pólitíkin bannar Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum að hefja samstarf. Það væri samt hagur allra ef þessir stóru flokkar gætu unnið saman, þrátt fyrir að vera ólíkir innbyrðis. Daglegt líf fólks snýst nefnilega ekki um pólitík. Flestum er drullusama um hægri og vinstri.

Þessir fjórir flokkar eiga alveg að geta komið sér saman um einfalda málefnaskrá sem hámarkar árangurinn sem hægt er að ná á næstu árum. Þeir gætu sett heilbrigðis- og menntamál í forgang, hækkað veiðigjöld, búið til sérstakt ráðuneyti undir málefni ferðamanna og hafið einhvers konar gjaldtöku ásamt því að koma fleiri málum sem setið hafa á hakanum í varanlegan farveg.

Katrín Jakobsdóttir gæti tekið við forsætisráðuneytinu og Bjarni haldið áfram með fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þetta myndi reynast Bjarna erfið pólitík en margir líta svo á að hann hafi „gefið eftir“ forsætisráðuneytið í síðustu ríkisstjórn. Næstu ár snúast hins vegar ekki um pólitískan frama Bjarna Benediktssonar. Ef Bjarni og Katrín grafa stríðsöxina yrðu þau raunverulegir sigurvegarar þessara kosninga — og myndu sýna með óyggjandi hætti að þau setja þjóðarhag í forgang, ekki pólitíska hagsmuni.

En þessar hugmyndir eru algjört eitur í hugum margra sem rembast við að stimpla fólk og flokka. Áróðurinn virkar og ég held að Katrín Jakobsdóttir óttist miklu meira hvað félögum hennar finnst um samstarf VG og Sjálfstæðisflokksins en að þurfa að sitja ríkisstjórnarfundi með Bjarna Benediktssyni.

Auglýsing

læk

Instagram