Hollywood

Auglýsing

Ég held að margir hafi mjög einfaldaða mynd af Los Angeles; sem borg draumanna þar sem fólk kemur til að „meikaða“. Sú ímynd er almennt byggð á Hollywood, en þar búa einungis um 34.000 manns af þeim fjórum milljónum sem búa í LA. Hollywood er því bara lítið svæði innan borgarinnar en það er samt alveg sér fyrirbæri útaf fyrir sig. Hingað kemur fólk til að vinna í skemmtanaiðnaðinum á einn eða annan hátt. Margir vinna á börum og kaffihúsum á milli þess sem þeir fara í áheyrnarprufur eða upptökur.

Í Hollywood er aldur og tími afstæður. Á förnum vegi sér maður yfirleitt fólk úti að skokka með hundana sína. Í þau fáu skipti sem maður sér börn eru þau yfirleitt í fylgd barnfóstru og það er líklegra að lenda í röð á eftir manni í Súpermanbúningi úti í búð heldur en eldri borgara. Maður getur rekist á Justin Bieber í 7/11 eða lent við hliðina á uppáhaldsleikaranum sínum í næsta bíl á rauðu ljósi, enda búa þeir líklega í nágrenninu.

Hér í Hollywood halda allir að þeir séu merkilegir og þekkja einhvern merkilegan sem gerir eitthvað merkilegt. Fólk er yfir höfuð opinskárra en við erum vön á Íslandi og maður getur stofnað til samræðna við nánast hvern sem er. Let’s do lunch er oft sagt eftir nokkurra mínútna spjall en að öllum líkindum skiptist maður á símanúmerum og heyrist svo aldrei aftur. Hér leyfir fólk sér að segja hvað sem því sýnist jafnvel þótt að það eigi engar stoðir í raunveruleikanum. Maður lærir því að taka öllu með fyrirvara en á sama tíma að halda opnum huga því ég hef líka séð tækifærin koma úr ótrúlegustu áttum. Það lærist eingöngu með tímanum að sigta úr hverjum maður getur treyst.

Í LA eru ótal svæði og hverfi sem ég mun aldrei komast yfir að skoða. Fjölbreytileikinn er gríðarlegur, fólk af öllum kynþáttum, stærðum og gerðum kemur allsstaðar að úr heiminum og í heildina eru hér töluð 135 mismunandi tungumál. Það væri því mikil einföldun ef ég myndaði mér skoðun á LA í heild sinni útfrá upplifun minni af Hollywood. Það væri svolítið eins og að dæma Reykjavík útfrá Laugardalslauginni. Hollywood er eins og leikvöllur fyrir fullorðið fólk og maður lærir bara að njóta þess fyrir það sem það er og spila með.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Sænsk möndlukaka

Sænsk möndlukaka

Instagram