Að standa upp á stól bætir lífsgæðin

Það breytist margt með aldrinum og mikilvægt að hafa farið vel með sig, borðað fjölbreytta fæðu, hreyft sig reglulega, ekki notað tóbak og takmarkað áfengineyslu. Þannig má búa í haginn fyrir líf og lífsgæði á efri árum.

Orkuþörfin minnkar með aldrinum, aðallega vegna vöðvarýrnunar og minni hreyfingar. Þörfin fyrir vítamín og steinefni minnkar hins vegar ekki með aldrinum og þörfin fyrir prótín eykst.

Fyrir eldra fólk, sem hefur minni matarlyst, er sérstaklega mikilvægt að minni fæðuskammtur gefi meira magn af prótíni en um leið sama magn af vítamínum og steinefnum.

Heilkornavörur (t.d. hafragrautur og heilkornabrauð) ásamt grænmeti og ávöxtum eru góð uppspretta trefja og næringarefna. Soðið grænmeti er jafngóður trefjagjafi og hrátt grænmeti. Þetta er hins vegar orkusnauður matur og má ekki taka pláss frá öðrum næringar- og prótínríkum mat.

Hreyfing hjálpar við athafnir daglegs lífs

Roskið fólk er margbreytilegur hópur, bæði að aldri og ekki síst færni. Sumir þurfa aðstoð við að standa upp úr stól en aðrir stunda jafnvel langhlaup. Þegar komið er á efri ár er eðlilegt að smám saman dragi úr líkamlegri og andlegri getu. Þó ber að varast að kenna öldrun um skerta færni sem stafar af hreyfingarleysi. Regluleg hreyfing hægir á áhrifum og einkennum öldrunar, veitir andlegan og líkamlegan styrk til að takast á við dagleg verkefni og hjálpar fólki að viðhalda getunni til að vera sjálfbjarga í daglegu lífi. Mikilvægt er að eldra fólk takmarki kyrrsetu og hreyfi sig reglulega. Meginráðleggingin er að eldra fólk stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.

Hár blóðþrýstingur

Tíðni langvinnra sjúkdóma, svo sem háþrýstings, eykst með hækkandi aldri, en fæðuvenjur og aðrir lífsstílsþættir geta haft áhrif á þessa þróun. Þar sem háþrýstingur er einn helsti áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma meðal eldra fólks eru tengsl mataræðis og blóðþrýstings mikilvæg.

Blóðþrýstingur er í raun þrýstingur í slagæðakerfi líkamans og er nauðsynlegur til að viðhalda blóðrás til líffæranna. Þegar blóðþrýstingur er mældur koma upp tvö tölugildi og er talað um að það séu efri og neðri mörk blóðþrýstings. Efri mörkin eru þegar hjartað er að vinna og dælir blóði út í slagæðar líkamans, neðri mörkin er þegar hjartað er í hvíld.

Hár blóðþrýstingur eða háþrýstingur er ástand sem eykur líkur á hjartaáfalli, heilablóðfalli og nýrnasjúkdómum.

Háþrýstingur er oft einkennalaus og getur fólk haft háþrýsting árum saman án þess að taka eftir því. Ástandið getur samt verið alvarlegt og koma einkenni jafnvel ekki fram fyrr en háþrýstingurinn er farinn að skaða önnur líffæri. Helstu einkenni geta þá verið: Sjóntruflanir, höfuðverkur, einkum á morgnana og mæði. Eðlilegur blóðþrýstingur miðast við að vera undir 135 í efri mörkum og undir 85 í neðri. Ef blóðþrýstingur fer yfir 140 í efri mörkum og yfir 90 í neðri er farið að tala um háan blóðþrýsting.

„Mikilvægt er að eldra fólk takmarki kyrrsetu og hreyfi sig reglulega. Meginráðleggingin er að eldra fólk stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.“
Svefn er mikilvægur eðlilegri líkamsstarfsemi og góðri heilsu

Svefnþörf manna er ólík eftir einstaklingum. Það hvort fólk vaknar úthvílt að morgni er besti mælikvarðinn á það hvort það hefur sofið nóg. Margir gefa sér ekki tíma til að sofa nóg en það kemur niður á heilsu fólks fyrr eða síðar. Algengt er að svefntruflanir komi fram með aldrinum, þannig að fólk sefur minna á næturnar. Svefnþörfin breytist þó ekki og eldra fólk bætir sér oft upp lítinn nætursvefn með því að leggja sig á daginn sem getur truflað nætursvefninn. Eldra fólk þjáist oft af svefntruflunum. Þetta getur stafað af mörgum þáttum; verkjum, lyfjum eða almennt af skertri heilsu.

Auglýsing

læk

Instagram