„Ætli þetta kallist ekki Win-Win“—Bjarki Ómars og hin franska Kinnie Lane gefa út myndband saman

Fréttir

SKE: Á meðan hann lifði átti rithöfundurinn Mark Twain að hafa látið eftirfarandi ummæli falla: „Aldrei á ævinni hef ég upplifað jafn kaldan vetur og sumarið sem ég varði í San Francisco.“ Hvað sem veðurfari borgarinnar víðfrægu líður þá hafa mörg góð lög verið samin um San Francisco í gegnum árin. Á meðal þeirra sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá SKE eru samnefnd lög eftir Scott McKenzie, Foxygen, Jesse Fuller, og að ógleymdum Sturlu Atlas („Heading out, to San Francisco, to buy me a pistol“). Í gær (24. ágúst) bættist hins vegar nýtt lag á listann, en um ræðir lag, og myndband (sjá hér að ofan), sem tónlistarmaðurinn Bomarzsem heitir réttu nafni Bjarki Ómarsson og er meðlimur hljómsveitarinnar The Retro Mutantssamdi í samstarfi við hina frönsku Kinnie Lane. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Bomarz og spurði hann út í tónlistina, samstarfið og framtíðina.

Viðtal: RTH

Viðmælandi: Bjarki Ómarsson

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segirðu gott?

Bomarz: Góðan Daginn. Ég er kátur.

SKE: Segðu okkur frá verkefninu Bomarz—og er einhver saga á bak við nafnið. Eða er þetta bara Bjarki Ómars á ensku?

Bomarz: Ég fékk hugmyndina, að ég held, þegar ég horfði á  heimildarmyndina um Avicii, þrátt fyrir að tónlistin sé gjörólík. Það heillaði mig bara eitthvað svo mikið að framleiða tónlist algjörlega eftir mínu höfði og vera svo með það svigrúm að vera hvorki háður öðrum né minni eigin rödd. Hvert lag er nýtt samstarf einhvern veginn. 

Nafnið Bomarz: Þetta byrjaði upprunalega sem Soya Bómars þar sem ég var eina grænmetisætan í vinahópnum að þá þurfti auðvitað að undirstrika það einhvern veginn.

SKE: Þú varst að gefa út myndband við lagið San Francisco. Hvernig kom samstarf þitt og Kinnie Lane til?

Bomarz: Heyrðu, það er eins og með allt gott í lífinu: Það kemur þegar maður býst ekki við því. Ég fékk skilaboð frá samstarfsmanni Kinnie Lane sem hafði þá fundið mig á Instagram í gegnum hljómsveitina mína, The Retro Mutants. Skilaboðið var þess eðlis að hana vantaði pródúser fyrir plötu sem hún væri að vinna að. Ég hafði þá einmitt verið að hefja leit að gestasöngvurum („features“) fyrir mitt solo verkefni, þar sem ég syng ekki mikið sjálfur. Þannig að ég fékk hana með mér í þetta lag og er síðan að semja fyrir plötuna hennar einmitt líka. Ætli þetta kallist ekki “win-win” … 

Svo heppnaðist lagið svona fjandi vel þannig að það lá beinast við að gera myndband.

SKE: Hver var pælingin á bak við myndbandið?

Bomarz: Hljóð og mynd haldast alltaf vel í hendur þannig að okkur langaði að styðja við lagið með því að búa til gott myndefni. Pælingin var í raun ekki dýpri en svo. Myndbandið var tekið upp í San Francisco og í Frakklandi og klippt hérna heima. Þetta kostaði svo mikið sem 0 kr. Við erum mjög ánægð með útkomuna.

SKE: Ef þú gætir starfað með  hvaða listakonu/manni sem er, lífs eða liðinn, hver yrði fyrir valinu?

Bomarz: Hver sem er … góð spurning. Eflaust Climie Fisher eða Phil Collins—en það hefði þurft að gerast áður en ég fæddist, á meðan raddböndin voru fersk. Ef ég gæti dregið einhvern upp úr gröfinni þá væri það að sjálfsögðu Michael Jackson.

SKE: Hvað er framundan fyrir Bomarz?

Bomarz: Heyrðu það er hellingur. Í september gef ég út lag sem ég er búinn að vera að vinna með Svölu Björgvins og það er einmitt verið að teikna svona animation myndband eða litla teiknimynd sem hann Pétur Eggerz er að vinna. Ég er mjög spenntur fyrir því. Svo er ég bara að vinna að EP plötu sem kemur út í byrjun næsta árs.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra—og hvers vegna?

Bomarz: Þetta lag auðvitað, eða má ég segja það? Hahah, ég vona alla vega að sem flestir hlýði á lagið þar sem við erum bæði afar stolt af þessu. Svo er röddin hennar líka bara svo æðisleg!

Annars væri það Lost Boy með The Midnight. Það er á repeat í mínum eyrum alla vega. Kveikir í einhverjum góðum fíling.

SKE: Eitthvað að lokum?

Bomarz: Fylgist endilega með mér á samfélagsmiðlum og takk kærlega fyrir mig.

(SKE þakkar Bomarz kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að fylgjast vel með verkefninu í framtíðinni).

Auglýsing

læk

Instagram