„Annasamt ár að baki.“—hátíðartónleikar Árstíða á sínum stað á morgun (Viðtal)

Viðtöl

SKE: Það er mikilvægt að halda í góðar hefðir, sérstaklega á jólunum. Sumir reglufastir einstaklingar hafa það fyrir sið að horfa á kvikmyndina „Die Hard“ á aðventunni. Aðrir, minna gefnir fyrir ráðsnjalla bandaríska lögregluþjóna, matbúa „þjóðlegasta rétt“ Íslendinga: laufabrauð (sælgæti Íslendinga, samkvæmt orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík). Svo eru það þeir sem ganga skrefinu lengra; sem leitast við að gleðja sjálfa sig og aðra—og þá með því að blása til samkvæmis, með tilhlýðilegri tónlist og skemmtun. Meðlimir hljómsveitarinnar Árstíða tilheyra síðastnefndum hópi. Á morgun, sunnudaginn 30. desember, stígur hljómsveitin á svið í Fríkirkjunni í Reykjavík. Um ræðir sérstaka hátíðartónleika þar sem hljómsveitin hyggst flytja bæði gömul lög og ný, í bland við annað efni. Í tilefni tónleikanna hafði SKE samband við Árstíðir og forvitnaðist um þessa merku hátíðarhefð. 

Viðtal: RTH
Viðmælendur: Árstíðir

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segið þið þá?

Árstíðir: Mjög gott. Við erum spenntir fyrir lokasprettinum á einu litríkasta ári okkar ferils. 

SKE: Hljómsveitin Árstíðir spilar á sínum árlegu hátíðartónleikum í Fríkirkjunni á morgun. Við hverju mega áhorfendur búast?

Áhorfendur mega búast við að heyra lögin okkar, bæði gömul og ný, í bland við hefðbundin hátíðarlög sem við veljum og útsetjum sjálfir. Og svo má fólk að sjálfsögðu búast við að heyra nokkrar góðar sögur. Þessi árlegi viðburður hjá okkur er tækifæri til að líta um öxl og segja sögur af árinu sem er að líða—enda annasamt ár að baki og frá nægu að segja.

Hér geta áhugasamir keypt miða á tónleikana: https://tix.is/en/event/7224/h…

Sagan segir að þetta séu 11. tónleikarnir í röð sem Árstíðir heldur—er það rétt? 

Það passar. Árstíðir fagna tíu ára starfsafmæli í ár. Við stofnuðum hljómsveitina um það leyti sem allir bankarnir voru að hrynja allt í kringum okkur árið 2008. Við vorum stórhuga frá byrjun og efndum til okkar fyrstu hátíðartónleika í Fríkirkjunni milli jóla og nýars sama ár—þó svo að hljómsveitin hafi einungis verið nokkurra mánaða gömul. Það tókst svo vel til að við höfum haldið tónleika á hverju ári síðan.

Hvað hefur breyst frá fyrstu og síðustu tónleikunum?

Undanfarin tíu ár hafa þessir tónleikar verið haldnir á Þorláksmessu. Í ár ákváðum við að færa dagsetninguna aftur til 30. desember, líkt og við gerðum í upphafi. Desember er oft annasamur mánuður hjá okkur í tónleikaferðalögum erlendis og af gefinni reynslu er hreinlega of strembið að koma beint af löngu tónleikaferðalagi og halda tónleika í Fríkirkjunni án þess að ná nokkurra daga hvíld inn á milli.

Hvað er það versta sem þið hafið lent í, á tónleikum?

Við höfum lent í ýmsu skrautlegu á ferðalagi okkar, í þeim ríflega 30 löndum sem við höfum spilað í. Það er kannski ekkert eitt atvik sem stendur upp úr, enda höfum við oftast verið heppnir með þá tónleika sem við höfum haldið. Einu sinni mættum við seint á fyrsta gigg tónleikaferðar í Þýskalandi, eftir að hafa setið í umferðarteppu í marga klukkutíma. Franskur sellóleikari sem átti að spila í fyrsta skiptið með okkur það kvöldið fékk því enga æfingu fyrir gigg. Hann þurfti því að halda andliti í gegnum eina og hálfa klukkustund af lögum sem hann kunni ekki. Hins vegar fer allt það sem drífur á okkar daga á tónleikum í reynslubankann og verður að góðri sögu næsta dag; við höfum það fyrir hefð að segja nokkrar af þessum sögum á tónleikunum í Fríkirkjunni þegar við gerum upp árið.

Árstíðir snéru nýverið heim eftir fimm vikna tónleikaferðalag um Evrópu. Hvernig var og hvað stóð upp úr?

Það má segja að þessi tónleikaferð hafi verið okkar „Fríkirkjan on the Road,“ þ.e.a.s. við fluttum hátíðardagskrána okkar fyrir áhorfendur erlendis. Síðustu ár höfum við nefnilega tekið eftir miklum áhuga að utan á þessum tónleikum okkar í Fríkirkjunni. Fólk hefur iðulega streymt tónleikunum á netinu og var almennt orðið spennt fyrir því að upplifa þessa hefð af eigin raun. Í ár fannst okkur því kominn tími til að fara í tónleikaferðalag með þessa dagskrá. 

Hljómsveitin gerði sér einnig lítið fyrir og gaf út tvær plötur í ár. Hvers konar yfirdrifinn metnaður er það?

Við skrifuðum undir plötusamning hjá fransk-bandaríska plötufyrirtækinu Season of Mist síðla árs 2017. Platan Nivalis sem við gáfum út í júní í ár var fyrsta platan sem gefin var út hjá þeim. 

Svo höfðum við líka verið að vinna í plötu með vini okkar Magnúsi Þór Sigmundssyni í hartnær tvö ár. Þegar Magnús varð sjötugur í ár fannst okkur tilvalið að tefla þeirri plötu fram. Hún heitir Garðurinn minn.

Og það er nú annað—þegar við stofnuðum Árstíðir fyrir tíu árum þá hlustuðum við grimmt á gömlu vínýlplöturnar með Magnúsi og Jóhanni. Þeir voru okkur miklar fyrirmyndir þegar það kom að því að semja lög og útsetja spennandi raddanir. Þannig það er svona ákveðinn „full circle“ fílíngur í því, að hafa gefið út plötu með átrúnaðargoðinu tíu árum síðar.

Uppáhalds lagið þitt á þessum tveimur plötum—og hvers vegna?

Af plötunni Nivalis er það lagið While this Way, sem er einnig fyrsta lagið á plötunni. Við Árstíðir höfum núna gefið út sex plötur og við pössum okkur alltaf á því að gera aldrei tvær plötur sem eru eins. Við gerð Nivalis vorum við að prufa okkur áfram með alls konar gamla hljóðgervla og trommuslátt. Lagið While this Way var eitt af þessum lögum sem small saman mjög snemma í ferlinu og varð svolítið eins og vegvísir á meðan við vorum að klára að útsetja og taka upp hin lögin.

Af samstarfsplötunni okkar Magnúsar Þórs kemur titillagið til greina. Garðurinn minn fjallar um okkar innri garð; þetta eru vinir okkar og fjölskylda, samstarfsmenn og förunautar. Þessi plata er minnisvarða um fólkið sem okkur þykir vænt um, sem og varða um fallega vináttu okkar og Magnúsar.

Hvaða þrjú lög stóðu upp úr á árinu?

Svavar Knútur—The Hurting 
Júníus Meyvant—High Alert 
Moses Hightower—Ellismellur 

Svo verður að minnast á ábreiðu Sykur & GDRN á Cars & Girls þótt það hafi komið í lok 2017. Þvílíkur unaður!

Þið hafið verið þekktir fyrir að syngja á fremur óhefðbundnum stöðum, meðal annars á lestarstöðvum. Myndbandið af flutningi ykkar á laginu Heyr himna smiður hefur t.d. verið skoðað tæplega sjö milljón sinnum á Youtube. Geri aðrir betur. Í þessu samhengi: Hvar finnst ykkur best að flytja músík?

Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á raddaðan söng í okkar tónlist. Þegar kemur að söng þá eru staðir sem hafa góðan hljómburð og sem eru, þar af leiðandi, í miklu uppáhaldi. Ekki skemmir heldur fyrir ef þetta eru óvæntir staðir, eins og lestarstöð. Í Evrópu höfum við spilað á alls konar stöðum og sníðum oft dagskrána eftir því sem staðurinn kallar á. Okkur finnst gaman að spila í stórum tónleikahöllum, með flottan hljómburð og gott hljóðkerfi, en njótum þess líka að spila á smærri stöðum, þar sem nálægðin við áhorfendur er meiri. 

Helsta prinsipp í lífinu?

Einlægni.

Kaffærði jólabókaflóðið ykkur í ár (lesist: lásuð þið mikið um jólin?)

Jólin fóru mest í það að hvílast eftir tónleikaferðalagið og safna kröftum fyrir tónleikana í Fríkirkjunni á sunnudaginn; maður er nokkra daga að vinna upp fimm vikna óreglulegan svefn.

Eitthvað að lokum?

Við höldum aftur í tónleikaferðalag um miðjan janúar til að fylgja plötunni okkar Nivalis eftir. Við verðum í rúmlega sex vikur í þetta sinn. Þannig fjörið heldur svo sannarlega áfram á nýju ári!

(SKE þakkar Árstíðum innilega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að tryggja sér miða á jólatónleika sveitarinnar á morgun.)

Auglýsing

læk

Instagram