„Átti versta júlímánuð lífs míns.“—Hildur gefur út nýtt lag (Viðtal)

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Kvíði er hvimleitt fyrirbæri. Enska heitið yfir orðið Kvíði, “Anxiety,” á rætur að rekja til Latínunnar (eins og flest annað), og þá til orðanna “Angere” og “Anguere,” sem merkja Að kæfa, Kremjaen sá sem þjáist af kvíða kemur orðsifjar hugtaksins ekki á óvart. Sænski leikstjórinn Ingmar Bergman lýsti kvíða t.d. sem tannpínu, án þess þó að tannlæknirinn, samviskusamur sem hann þó er, finni nokkurt að tönninniné manneskjunni sem hún, tannpínan, kvelur. Kemur það kannski ekki á óvart að listafólk virðist þjást af kvíða í hærra hlutfalli en almennir borgarar. Ljóðskáldið T.S. Eliot vildi meina að Kvíði væri þerna sköpunarkraftsins (“Anxiety is the handmaiden of creativity”). Í því samhengi er einnig vert að vísa til viðtals SKE við tónlistarkonuna Hildi en hún gaf út lagið “Everyday” síðastliðinn föstudag. Líkt og fram kemur í viðtalinu er kvíði svo samofinn lífi Hildar að hann er beinlínis orðinn hluti af karakternum hennar: “If you can’t beat ’em, join ’em,” eins og maður segir á góðri íslensku.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Hildur Kristín Stefánsdóttir
Ljósmynd: Vaka Njáls

SKE: Sæl og blessuð, Hildur. Hvað segirðu gott í dag?

Auglýsing

Hildur: Sælt vertu SKE—ég er alveg að farast úr stuði. Það er svo gaman að gefa út nýtt lag!

SKE: Hvernig gekk á Airwaves og hvað stóð upp úr?

Airwaves var algjör negla. Fannst geggjað að spila í Hafnarhúsinu—það var frábær stemning þar á miðvikudeginum. Það sem stóð upp úr fyrir mig var, að ég held, Scarlett Pleasure og Mormor, bæði bönd sem ég fór að sjá 100% fyrir tilviljun án þess að vita neitt og voru bæði alveg geggjuð! Svo var ég að spila bara þrisvar í staðinn fyrir tuttugu og þrisvar eins og var alltaf síðustu ár og það var miklu meira næs; þá gat ég allavega séð eitthvað! 

SKE: Þú varst að gefa út lagið Everyday—hvar var lagið hljóðritað og var lagið lengi í vinnslu?

Ég samdi lagið uppi á háalofti heima í júlí. Svo fór ég til Bergen í Noregi og tók það upp með góðvini mínum Simen Hope í ágúst. Hljóðblöndun og eftirvinnsla fór fram á nokkurra vikna tímabili eftir það en þetta var áreynslulausasta lag sem ég hef samið lengi.

SKE: Sköpunarferli lagsins í stuttu máli?

Þetta er algjört svona eldingarlag—því laust niður í höfuðið á mér hratt og örugglega og orðin komu eiginlega út áður en ég var búin að ákveða um hvað lagið átti að vera. En það er oft best—þá veistu að textinn er að koma frá hjartanu. Ég var að leika mér að semja með autotune-i í fyrsta skipti og mér fannst það gefa mér öðruvísi laglínuhugmyndir en áður svo að það kom aldrei annað til greina en að nota autotune-ið alla leið. 

SKE: Grundvallast texti lagsins í raunveruleikanum eða er hér, alfarið, um spuna að ræða?

Alfarið raunverulegt. Þetta er nákvæmlega það sem ég var að díla við í júlí. Ég átti eiginlega versta júlímánuð lífs míns og leið andlega ekki vel og hafði ekki einu sinni trú á því að á þeim tímapunkti gæti ég samið neitt af viti. En þessi texti kom rosalega mikið beint og óritskoðaður frá hjartanu og fjallar um það hvernig ég sættist við það að kvíði sé partur af lífi mínu og að ég verði að lifa með honum því í rauninni geri hann mig ennþá meira að sjálfri mér. Þannig að lagið hljómar eins og gleðibomba en textinn er eiginlega smá dimmur. En það er vissulega úrlausn og von í því, svo að þetta lag fyllir mig von og gefur mér gæsahúð. 

SKE: Um daginn tjáðirðu SKE, ef minnið bregst ekki, að ætlunin væri að gefa út lag og lag, í stað þess að gefa út plötu. Er þetta ennþá ætlunin?

Já, ég er að gefa út lag eftir lag núna en þessi lög munu að lokum mynda eina heild sem EP plata. Það er mjög hresst ferli—þá er maður alltaf með eitthvað nýtt nánast í hverjum mánuði!

SKE: Hefurðu verið að semja fyrir erlent tónlistarfólk nýverið?

Jább, var síðast að því í september í Þýskalandi. Þá var ég aðallega að semja fyrir Þjóðverja en það laumaðist óvart eitt lag fyrir mig með heim!

SKE: Um daginn veittirðu Emilíönu Torrini verðlaun fyrir hönd KeyChange. Hvaða málefni er samtökunum efst í huga um þessar mundir?

Akkúrat—ég er semsagt partur af þessum samtökum og aðalmálefni okkar er að vinna að jafnrétti í tónlist. Núna erum við að leggja áherslu á að fá tónlistarhátíðir til að taka þátt í svokölluðu 50/50 pledge þar sem þau heita því að jafna kynjahlutfallið á flytjendum upp í 50/50 fyrir 2020. Airwaves er t.d. strax búið að takast það—þetta á ekki að vera svona mikið mál!

SKE: Hvaða lag er í uppáhaldi um þessar mundir og hvers vegna?

Curiosity með NAO: alveg elska þessa rödd og þessa tónlistarkonu og mér finnnst þetta bara eitthvað svo nettur fílíngur.

SKE: Eitt sem þú lærðir af ferðalagi þínu til Sierre Leone?

Að hætta að vera svona fokking stressuð alltaf. Fólkið sem ég kynntist þarna voru algjörir meistarar í að lifa og njóta og vera þakklát fyrir það sem maður hefur. Íslendingar eru oft að keyra sig yfir um daglega af stressi út af minnstu hlutum sem í stóra samhenginu skipta engu máli. Svo lærði ég líka að það er skemmtilegt að gera lög þar sem fólk brýst út í dans. Ég vann með einum pródúsent sem breytti öllum hugmyndum í klikkuð danslög—mjög fróðlegt.

SKE: Um daginn hafðir þú umsjón með námskeiði um gerð popplaga. Ef þú yrðir að halda sambærilegt námskeið en ekki um tónlist—hvert væri viðfangsefnið?

Góð spurning! Ætli ég myndi ekki halda námskeið um skapandi hugsun í lífinu: Hún getur verið svo nytsamleg í alls konar aðstæðum.

SKE: Eitthvað að lokum?

Bara hlustið aftur og aftur og njótið! Og P.S. það kemur myndband seinna.  

Bestu kveðjur, 
Hildur 

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Rjómalöguð rækjusúpa

Tandoori kjúklingaleggir

Instagram