„Auðvitað hjálpar þetta ekki þannig. Tónlistin græðir ekki sár.“

Auglýsing

SKE spjallar við Agent Fresco

„Það sem hefur komið mér mest á óvart er að fólk er að gefa sér tíma til þess að hlusta á alla plötuna – sérstaklega í dag þar sem athyglisgáfan fer dvínandi.“ Arnór Dan

Það eru viðtöl og svo eru það viðtöl. Viðtölin eru ekki öll eins. Sum viðtöl eru þannig að viðmælandinn tautar einhverju upp úr sér, hálfsofandi, og maður gerir sitt besta til þess að dotta ekki sjálfur. Maður kinkar bara kurteisum kolli og reynir að fylgja þræðinum – þræðinum sem er spotti neðan úr blöðru sem tókst á loft og óðfluga nálgast sólina#Lost#SayWhatNow#JáEinmitt … Samtalinu lýkur. Maður keyrir heim, sest niður fyrir framan tölvuna og skrifar þetta leiðindasuð niður á nokkrum mínútum. Sendir þetta svo frá sér og kennir í brjósti um lesandann … En svo eru það viðtöl sem líkjast helst samræðum – samræðum við gamla vini. Maður setur diktafóninn í gang og ætlar sér aðeins að rabba í tuttugu mínútur. Fimmtíu mínútum seinna rankar maður við sér og bölvar eigin kæruleysi; maður verður allan daginn að skrifa þetta niður og það verður erfitt að skera niður. Viðtalið í gær var þannig viðtal. SKE spjallaði við Arnór Dan Arnarson og Hrafnkel Örn Guðjónsson úr hljómsveitinni Agent Fresco. Útsendari Fresco gaf nýverið út plötuna Destrier. Við ræddum plötuna, suss, Whiplash, andlega heilsu og Ashley Madison.

Ég geng inn í íbúð Arnórs í miðbæ Reykjavíkur. Hann bíður mér Sprite. Hann er ekki mikill kaffimaður. Við byrjum á því að ræða orðið „Destrier“ (heiti plötunnar) og Arnór segir mér að ég sé fyrsti blaðamaðurinn sem hefur kafað ofan í rætur orðsins, en „Destrier“ merkir „stríðshestur“ og kemur af latneska orðinu „dexter“ sem þýðir „hægri hönd.“ Svo byrja ég að ræða hlaðvörp. Ég og Arnór ræðum þáttinn Serial. Keli kinkar kolli og virkar áhugasamur. Áður en viðtalið byrjar koma menn sér fyrir og ég byrja á því að óska þeim til hamingju með nýju plötuna.

SKE: Nú loks er Destrier komin út, fimm árum eftir að A Long Time Listening leit dagsins ljós. Hvernig er tilfinningin, er þetta léttir?

Auglýsing

Arnór Dan: Jú, þetta var skítaferli maður, en nauðsynlegt.

Keli: Mikill léttir.

Arnór Dan: Svo er það líka þetta klassíska að þegar maður er búinn að leggja svo mikla orku í eitthvað á hverjum einasta degi, þá er þetta léttir en aftur á móti er maður svo tómur líka. Eitthvað sem maður hefur tileinkað lífi sínu síðustu ár er bara búið. En það hefur verið sturlað að sjá viðbrögðin og einnig að fólk sé að gefa sér tíma til þess að hlusta á alla plötuna. Við erum vanir því að sjá dóma þar sem menn hafa augljóslega rennt yfir plötuna einu sinni: „Já, þetta er fínt.“ En það sem hefur komið mér mest á óvart er það að fólk er að gefa sér tíma til þess að hlusta á alla plötuna, sérstaklega í dag þar sem athyglisgáfan fer dvínandi.

Keli: Sjálfur nennir maður eiginlega aldrei að setjast niður og hlusta á heila plötu í gegn. Þess vegna er það svo skrýtið og frábært að fólk hafi gert það með Destrier.

SKE: Hvernig var hlustunarpartíið í Bíó Paradís?

Arnór Dan: Það var geðveikt. Það var hlustunar- og svo partí!

SKE: Partí í Paradís?

Arnór Dan: Já, fólk settist inn í sal og við kynntum aðeins plötuna. Svo var „basic“ artwork-i varpað á skjáinn, nema í þeim tilvikum þar sem við vorum búnir að taka upp myndband. Venjulega eru hlustunarpartí þannig að það er bara; „hey, bjór!“ og svo rennur platan í gegn í bakgrunninum, en enginn er að hlusta.

Keli: Yfirleitt eru menn meira að fagna því að platan sé komin út, en ekki að hlusta.

SKE: Var ekki einu sinni klappað á milli laga?

Arnór Dan: Nei. Bara þögn.

Keli: Maður heyrði í rauninni ekki í neinum nema frænda hans Vignis.

„Maður heyrði í rauninni ekki í neinum nema frænda hans Vignis.“ Keli um (nánast) ríkjandi þögn í hlustunarpartí Fresco í Bíó Paradís

Þeir hlæja.

SKE: Var hann með læti?

Keli: Hann var alltaf í popp-pokanum sínum.

Arnór Dan: Ég hugsaði, „hvaða krakki er þetta!?“ Þetta var einmitt í einhverju rólegu lagi og ég var bara; „gat hann ekki beðið eftir einhverju rokki eða látum?“ En þá bara nei nei: hann ákveður að þetta sé besti tíminn til þess að búa til bolta úr pokanum og fleygja honum í ruslið.

Menn hlæja dátt.

Arnór Dan: Svo var besta augnablikið þegar við áttuðum okkur á því að þetta hljóð kom úr röð okkar, fjölskyldu- og vina röðinni, jább: Frændi hans Vignis.

SKE: Sussaði enginn á hann?

Arnór Dan: Ég reyndi að ná einhverju augnsambandi við Vignir til þess að benda honum á þetta. En nei nei, það gekk ekki: „Snillingur.“

Keli: Mikill snillingur.

SKE: Ég er einmitt þekktur fyrir það að sussa grimmt á menn í bíó. Konan mín sekkur yfirleitt í sætið og skammast sín. Ef það er eitthvað sem fer í taugarnar á mér þá er það þegar menn tala í bíó.

Arnór Dan: Það er nauðsynlegt að sussa. Það er glatað þegar maður er settur í þessi spor. Af hverju á mér að líða illa yfir því að fá einhvern til þess að fokkings þegja þegar ég er búinn að borga mig inn og er mættur til þess að njóta myndarinnar?

„Það er nauðsynlegt að sussa.“ Arnór Dan

SKE: Einmitt. Maður er að reyna lifa sig inn í einhvern heim og svo er manni snarlega kippt út úr þeim heimi.

Keli: Ég upplifði svipað þegar ég fór á Straight Outta Compton. Sama símhringingin vældi aftur og aftur. Tvisvar í röð. Maður datt alveg út. Svo í þriðja skiptið þá heyrðist í salnum, „nennirðu að slökkva á fokkings símanum!“ Það var gott.

SKE: A Long Time Listening kom út 2010 og fjallaði um andlát föður þíns. Destrier á hins vegar rætur sínar að rekja til tilefnislausrar árásar sem þú varðst fyrir árið 2012. Eftirköst þessarar árásar voru reiði, kvíði og angist. Hefur tónlistin hjálpað þér að vinna úr þessu?

Arnór Dan: Þetta er mega góð spurning. Ég fékk þessa spurningu eftir að A Long Time Listening kom út. Hún kom svo á óvart því að enginn hafði spurt mig að þessu áður. En allt í einu kom þessi spurning: „hjálpaði þetta eitthvað?“ Og ég bara „ha?!“

Arnór hlær.

Arnór Dan: Auðvitað hjálpar þetta ekki þannig. Tónlistin græðir ekki sár. Tónlistin hefur alltaf verið mjög persónuleg á mjög skrýtinn hátt fyrir mér. Þegar ég var yngri þá var ég ekki að deila þeirri tónlist sem ég var að hlusta á. Ég fór mjög oft einn á tónleika til Danmerkur. Strax 12, 13 ára. Það er þess vegna svo náttúrulegt fyrir mig að yfirfæra þessa persónulegu nálgun á það sem ég er að semja. Kröfurnar eru mjög háar. Þetta verður að vera tilfinningaríkt og ég verð að hætta mér inn á svæði sem eru óþægileg. Ég held að það sé mikilvægt svo að maður þroskist sem manneskja. Ég tala ekki mjög beint út um hlutina en mér finnst sjálfsagt að reyna útskýra þessa hluti. Ég er alltaf að búa til sögur út frá minni persónulegu reynslu og er að vitna í ljóðskap eða goðafræði. Ég skemmti mér mjög vel.

Arnór hlær.

Arnór Dan: Ég áttaði mig á því mjög snemma að lögin væru nánast tilgangslaus ef þau væru bara ég að búa til einhverja texta eða flott ljóð. Það er svo margt sem liggur mér á hjarta. Tónlistin er áhugaverð leið til þess að vinna úr tilfinningum. Á Destrier er ég ekki að takast á við sorg heldur kvíða og reiði. Ég gat ekki skrifað um annað en það. Ég varð að skoða þetta. Þess vegna fannst mér orðið „Destrier“ svo viðeigandi.

„Ég áttaði mig á því mjög snemma að lögin væru nánast tilgangslaus ef þau væru bara ég að búa til einhverja texta eða flott ljóð.“ Arnór Dan

SKE: Hvaðan kemur orðið?

Arnór Dan: Ég man það ekki. Ég var byrjaður að punkta niður orð sem mér fannst falleg. „Mono No Aware“, til dæmis. Það var ein pæling. Þetta er japanskur frasi sem merkir það að vera meðvitaður um að ekkert er eilíft. Þetta er notað sérstaklega í sambandi við japönsku kirsuberjatrén. Þau blómstra í stuttan tíma. Mér fannst það fallegt. Það rímaði við pælingarnar hans Tóta. En svo var „Destrier“ niðurstaðan. Það var svo fagurt, en samt var eitthvað svo karlmannlegt og „brutal“ við það.

Arnór vitnar í Neverending Story og daðrar aðeins við „bestiality“. Hlær svo að sjálfum sér og kemur aftur inn á Destrier.

Arnór Dan: Lagið Destrier fjallar um ferðalag og hvernig reiðin er frumstæð og einföld. Hversu auðvelt það er að sökkva djúpt ofan í reiðina. Þetta passaði svo vel við það sem Tóti var að gera. Þetta segir margt um þessa andstæður sem eru ríkjandi á milli okkar. Tónlistin hans Tóta snerist um að skapa líf, en á sama tíma var ég að vinna með eyðileggingu. Okkur fannst þetta áhugavert. Þessi plata er tilfinningaleg fyrir mig, en það þarf ekki endilega að eiga við næsta mann. Næsti maður segir kannski: „hey, cool riff!“ En við erum alltaf að búa til andstæður. Það er ákveðið þema líka. Platan er frábrugðin A Long Time Listening að þessu leyti. Þetta er meiri heild.

SKE: Keli, þú varst búinn með allt þitt 2013?

Keli: Jú, akkúrat.

SKE: Hvað gerðirðu á meðan?

Keli: Ég var bara að hangsa (hlær) … Nei, þá byrjaði ég að spila með Gauta, Úlf Úlf og Young Karin. En þetta ferli var samt alltaf í gangi. Þó svo að ég hafi klárað allt mitt 2013.

Arnór Dan: Ég kláraði fyrst sönginn í desember 2014. Strákarnir vissu að ég var ekki tilbúinn með mitt og þá bara hægðist á öllu einhvern veginn. Sem betur fer þá var nóg að gera hjá okkur öllum. Ég hafði sjálfur verið að vinna með Ólafi Arnalds. Það var hollt fyrir okkur alla að prufa eitthvað nýtt og koma svo aftur ferskir inn. Keli var að spila með Emmsjé Gauta, Young Karin og Úlf Úlf. Tóti var í Listaháskólanum og Vignir var að kenna og spila á fullu. Við nýttum tímann ágætlega.

Keli: Það er líka hægt að horfa á þetta öfugt: Kannski þurftum við allir að prufa eitthvað nýtt.

Arnór Dan: Um að gera að hugsa þetta jákvætt. Læra af þessu. Jú, vissulega var þetta skítaferli og mér leið ekki vel. Ég var að reyna vinna í sjálfum mér. En svona er lífið. Maður er ekki að fara væla yfir … (Arnór hugsar sig um) … en jú, einmitt, maður má væla! Það er nauðsynlegt að horfast á við tilfinngarnar sínar og vinna í þeim. Það er gallinn við samfélagið í dag að það er ekki talað nógu opinskátt um andlega heilsu og þetta verður „taboo“ – sérstaklega á meðal karlmanna.

Við færum okkur yfir í annað.

SKE: Þið hafið spilað á Hróaskeldu og Euroblast, ekki satt?

Arnór Dan: Við tókum tvo Evróputúra eftir að A Long Time Listening kom út. Núna erum við að fara detta inn í frekar þétta túra til þess að kynna Destrier.

SKE: Svo eru túrar í nóvember og desember í Evrópu?

Keli: Já, svo byrjar það.

SKE: Og Bandaríkin?

Arnór Dan: Já, en ekkert staðfest og ekkert bókað. Við erum bara búnir að semja við þetta fyrirtæki (Infinity Concerts) og þeir láta okkur vita þegar við erum komnir inn á svokallað „roster“.

SKE: Eitthvað í kringum forsetakosningarnar kannski?

Arnór Dan: Já.

SKE: Troðið upp hjá Trump?

Arnór Dan: Fuck my life. Það er joke, samt ekki einu sinni fyndið.

Ég, verandi þessi ófrumlegi örviti sem ég er, byrjaði að hugsa um Whiplash þegar ég leit á Kela.

SKE: Hafið þið séð Whiplash?

Arnór Dan: YESSSS!!!

Þeir hlæja báðir.

Arnór Dan: Þetta er svo fyndið. Ég sá hana nýlega. Ég hef verið tilbúinn að horfa á þessa mynd síðan að hún kom út og kærasta mín ætlaði að horfa á hana með mér. Það tók mig svona ár að sannfæra hana um að þetta væri góð mynd. Hljómaði aldrei neitt sérstaklega vel: „Trommumynd.“

Keli: Bíddu, hljómar það ekki vel?

Arnór hlær.

Arnór Dan: En svo horfðum við á hana um daginn og ég mætti á æfingu og bara: „Getum við rætt Whiplash!?“ En enginn var til í að ræða þetta. Allir löngu búnir að sjá hana.

Keli: Hún var mögnuð.

Við tölum aðeins um myndina. Arnór segir að Whiplash hafi minnt hann á fyrrverandi dönskukennarann sinn. Ég segist hafa fengið ákveðinn innblástur fyrir skrifum. Keli talar um djass.

Keli: Þetta er svo góð pæling af því að þetta er djass mynd. Mér finnst djass oft vera á mörkum þess að vera íþrótt og að vera listform. Djassinn dansar á þeirri línu.

„Mér finnst djass oft vera á mörkum þess að vera íþrótt og að vera listform. Djassinn dansar á þeirri línu“ – Keli

SKE: Það var einhver að bera saman box og djass um daginn og sagði að það væri jafn leiðinlegt að horfa á tvo góða boxara berjast og að hlusta á frábæran djassara; þetta gerir einhvern veginn ekkert fyrir áhorfandann eða hlustandann. Þetta er svo mikil tækni.

Arnór Dan: Þetta er akkúrat það sem við sækjumst eftir í Agent Fresco. Okkur líður eins og við séum komnir með gott jafnvægi á milli þess að vera að ögra og að tileinka okkur ákveðinn einfaldleika. Ég er búinn að móta mér mjög náttúrulega nálgun gagnvart laglínum. Þær þurfa að vera eitthvað sem mér dettur í hug og sem festast, annars er ég að fara gleyma þessu og ef ég gleymi þessu þá var þetta bara ekki nógu gott.

Keli: Við dönsum á línunni. Það er hægt að gera tónlist bara til þess að hafa hana nógu flókna en það er bara leiðinlegt.

Arnór Dan: Það er vel, fokking, leiðinlegt.

Keli: En við erum svo miklir nördar að okkur þykir þetta skemmtilegt.

Svo tölum við aðeins um áhrifavalda Fresco. Þeir nefna Meshuggah og the Blood Brothers. Arnór segir að honum finnist tónlist Agent Fresco hvorki vera skrýtin né flókin. Síminn minn hringir og ég biðst afsökunar. Svo talar Arnór aðeins meira um Whiplash. Hann segist eiga vin í Danmörku sem er rosalega hæfileikaríkur klassískur píanóleikari. Þessi vinur hans fór yfirum. Arnór nefnir það að það séu of margar reglur í klassískri tónlist. Hann gæti ekki unnið innan þess ramma. Ég byrja að tala um David Foster Wallace. David Foster Wallace framdi sjálfsmorð 2008.

SKE: Það er erfitt að lifa sem listamaður á Íslandi. Hvað gerið þið til að drýgja tekjurnar?

Arnór Dan: Ég var heppinn að fá að vinna með Óla (Ólafi Arnalds. Arnór og Ólafur Arnalds áttu lag í myndinni Taken 3). Það var gaman að prufa eitthvað nýtt. Ég hefði aldrei gert þetta hefði þetta verið eitthvað í líkingu við Agent Fresco. Það var í fyrsta skiptið, síðustu tvö eða þrjú ár, sem ég hef getað lifað á þessu.

Keli: Við höfum allir verið að kenna.

Arnór Dan: Ef þetta væri bara Fresco þá væri ekki hægt að lifa á þessu. Ekki séns. Allir þeir peningar sem við græðum á giggum fara beint inn í fyrirtækið Agent Fresco. Svo að við getum spilað á tónleikaferðalögum og gefið út plötur.

Keli: Það er ekki hægt að vera í svona „project-i“ og borga sér laun. Ekki eins og staðan er í dag. En þetta dugir til þess að taka upp plötu eða túra.

Arnór Dan: Til þess þyrftum við líka að vera elta eitthvað „sound.“ Eitthvað „mainstream sound.“ Það er ekki eitthvað sem við höfum áhuga á. Okkur finnst gaman að ögra okkur sjálfum og hlustendum. Vitandi líka að við erum að gera plötufyrirtækjum erfitt fyrir að selja okkur. En mér finnst það bara glatað þegar það er sífellt verið að hólfa hljómsveitir niður í einhverja flokka. Hvað í fokkanum er rokk í dag? Eða popp? Mér finnst svo leiðinlegt þegar gagnrýnendur eru að reyna skilgreina okkur. Það er örugglega búið að flokka okkur í 80 mismunandi „genres“ bara fyrir þessa plötu.

Keli: Reggí, djass, prógressive …

Við hlæjum.

Keli: Fólk verður alltaf að hafa eitthvað til að grípa í. Það má bara ekki vera nákvæmlega það sem það er.

SKE: Hvað er svo framundan?

Arnór Dan: Októberfest er næst. Núna í næstu viku. Það er alltaf gaman.

SKE: Svo útgáfutónleikarnir?

Arnór Dan: Já, fókusinn er þar. Þetta verður allt annar pakki. Þetta verða stórtónleikar. Við fáum fullt af gestum til liðs við okkur.

Keli: Við flytjum lög sem við munum ekki koma til með að flytja aftur. Þetta verður ekki þetta hefðbundna prógram.

SKE: Verður platan tekin í heild sinni?

Arnór Dan: Öll fjórtán lögin.

Keli: Eitthvað af endurútsetningum líka.

Arnór Dan: Það verða örugglega svona fimm lög sem við tökum aldrei aftur.

SKE: Þetta verður einstakur viðburður?

Arnór Dan: Það er alltaf mikil spenna í kringum útgáfutónleika og allir eru mjög einbeittir. Við viljum gera þetta eins vel og hægt er. Við erum ekkert að spara neitt, því miður.

Þeir hlæja.

Arnór Dan: Þetta er mjög dýrt.

SKE: Að lokum: Ef þið yrðuð að stofna Ashley Madison „account“ – hvert yrði notendanafnið ykkar?

Keli: Tóti var með IceHot2.

Við hlæjum.

Arnór Dan: Ég yrði TheBaldAndTheBeautiful. Ég hafði alltaf hugsað mér það sem DJ nafn en ég held að þetta yrði fínt fyrir Ashley Madison.

“Ég yrði TheBaldAndTheBeautiful. Ég hafði alltaf hugsað mér það sem DJ nafn en ég held að þetta yrði fínt fyrir Ashley Madison.” – Arnór Dan

Auglýsing

Keli: Ég myndi kalla mig Curly Boy, eitthvað … eða Hot Boy … eða Drumstud.

Arnór Dan: Drumstud! Já, Drumztud með zetu! Og svo 69 – Drumzstud69!

Með þessum fleygu orðum bindum við enda á samtalið. SKE hvetur alla til þess að tryggja sér miða á útgáfutónleika Agent Fresco í Hörpunni í byrjun október. Miðasalan fer fram á harpa.is og tix.is

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram