Auglýsing

Axel Flóvent í kringum heiminn

Dagana 16. til 19. júní verður Secret Solstice tónlistarhátíðin haldin í þriðja sinn. Á hátíðinni munu margir hæfileikaríkir listamenn stíga á svið, þar á meðal Húsvíkingurinn Axel Flóvent. SKE setti sig í samband við Flóvent – beintengdumst honum í gegnum internetið – og spurðum hann nokkurra viðeigandi spurninga.

Sæll og blessaður, herra Flóvent hvað er helst í fréttum?

Heyo! Helst í fréttum er líklegast það að ég er á fullu að taka upp mína aðra smáskífu hérna í Belgíu og Hollandi með belgískum pródúser og er að vinna með Sony. Þetta er algjör gæðastaða, þannig að það er bara næserí! Svo er ég búinn að vera túra hér og þar, bæði einn og með yndislega bandinu mínu. Þannig að það er bara næs.

Ef þú yrðir að lýsa sjálfum þér eins og gömlum veiðikofa við strendur Húsavíkur hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Líklegast væri ég gamall veiðikofi sem gamall maður er að lakka í von um að hann líti aftur út eins og nýr.

Þú spilar á Secret Solstice í sumar, við hverju megum við búast?

Snilldar stemningu og nýju efni! Okkur hlakkar rosa til að spila á Solstice eftir öll þessi festivöl úti!

Þú gafst út EP plötuna Forest Fires síðasta sumar, en hyggst gefa út LP plötu á næstunni. Hvernig er staðan á því?

Eins og staðan er núna þá ætlum við að gefa út aðra smáskífu með EPIC Sony og erum á fullu að undirbúa allt sem þarf fyrir þá útgáfu. Svo förum við líklegast á fullt við að klára breiðskífuna strax eftir það tímabil!

Þú áttir lag í sjónvarpsþættinum Greys Anatomy fyrir stuttu, en ef þú gætir lifað þig inn í einn sjónvarpsþátt, hvaða þáttur yrði fyrir valinu?

Ég get ímyndað mér að ég væri mjög góður og flottur karakter í þættinum Guiding Light, þar sem ég myndi poppa upp í góðum atriðum með gítarinn, og það myndi í rauninni enginn skilja af hverju.

Á hvað ert þú að hlusta á þessa dagana og hvað ert þú ekki að hlusta á?

Í dag hlusta ég mest á nýju James Blake og nýju 1975 plötuna. Uppáhaldsbandið mitt í dag er samt líklegast band sem heitir MUNA frá L.A. Það sem ég hlusta ekki á í dag er margt og mikið. Ég myndi líklegast seint setja Lukas Graham á fóninn.

Hver er þín fyrirmynd og af hverju?

Justin Vernon (Bon Iver) er líklegast mín sterkasta fyrirmynd, því ég tengi við nokkurn vegin allt sem hann gerir og allar hans hugmyndir eru svo pjúrar. Hef fylgt ákveðnum þeoríum sem hann hefur fylgt í þó nokkurn tíma og það hefur alltaf verið mjög náttúrulegt og rétt, að mínu mati.

Ef þú yrðir að velja áletrun á grafsteininn þinn, hver yrði sú áletrun?

Copyright of Sony Music

Hvern styður þú til embættis forseta Íslands?

Ég hef aldrei verið sterkur áhugamaður um politík og hef ekki verið, að mínu mati, nógu duglegur að spá og spekúlera í þessum málum til að mynda mér skoðun opinberlega.

Hefur lífið tilgang? Og ef svo er, hver er tilgangurinn?

Lífið hefur þann tilgang að hver og einn þarf að finna rétta leið að hamingjunni því án hennar hefur lífið engan tilgang.

Ef þú mættir velja fyrirsögn þessarar greinar hver yrði sú fyrirsögn?

Alex Flovént í kringum um heiminn.

SKE þakkar herra Flóvent kærlega fyrir spjallið og hvetur alla til þess að tryggja sér miða á Secret Solstice 2016.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing