today-is-a-good-day

Bandarískir íþróttafréttamenn hneykslast yfir skoðunum Kaepernick á Castro

Fréttir

Sitt sýnist hverjum í Bandaríkjunum um ágæti Fidel Castro heitins, en baulað var á bandarísku ruðningsstjörnuna Colin Kaepernick síðastliðinn sunnudag eftir að hann fór fögrum orðum yfir menntakerfi Kúbu undir stjórn Fidel Castro. Ummælin lét hann falla í viðtali við dagblaðið Miami Herald fyrir leik liðanna the San Francisco 49ers (liði Kaepernick) og Miami Dolphins. Á blaðamannafundi eftir leikinn, eftir að lið hans laut í lægra haldi gegn Miami Dolphins, kvartaði hann undan því að orð hans hefðu verið kippt úr samhengi: 

„Ég sagðist vera sammála kúbanska ríkinu hvað fjárfestingu ríkisins í mennta- og heilbrigðiskerfinu varðar. Einnig var ég ánægður með hlutverk Kúbu í því að binda enda á aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku … ég sagðist aldrei hafa stutt kúgun Castro.“

– Colin Kaepernick

Mánudagsmorgun vörðu fréttamenn ESPN í þættinum First Take talsverðu púðri í skoðun Kaepernick á Castro, en fréttamennirnir Stephen A. Smith og Max Kellerman voru mjög hneykslaðir á ummælum hans. Þáttastjórnandinn Molly Qerim brást nærri því í grát:

„Eitt af því sem Kaepernick benti á var að Fidel Castro fjárfesti í menntakerfinu og að læsi meðal Kúbumanna væri mjög hátt, sem er rétt. En hann ritskoðaði einnig það sem Kúbumenn lásu. Þegnar hans höfðu engan aðgang að internetinu. Svo talaði hann um fangelsismál í Bandaríkjunum, og auðvitað eru vankantar, auðvitað er þetta brotið. Og hvernig refistefna Bandaríkjanna aðskilur fjölskyldur. En stjórn Fidel Castro sundraði einnig fjölskyldur. Ég veit ekki hvernig það er að vera Bandaríkjamaður af kúbönskum uppruna, en ég veit hvernig það er að eiga fjölskyldu í kommúnistaríki, að þurfa vakna snemma á morgnana til þess að senda hjálpargögn, að senda mat, að senda peninga, og að komast síðan að því að ríkið kom í veg fyrir að þessir hlutir kæmust til skila.“

– Molly Qerim

Qerim hvatti Kaepernick til þess að lesa sig betur til um valdatíð Castro áður en hann opnaði munninn: „Það sem þessi maður gerði, Fidel Castro, var að kúga þegna sína í hartnær sex áratugi. Arfleifð hans eru aftökusveitir, fátækt, mannrétindabrot … þetta er svo vitlaust, svo tillitslaust, svo dónalegt.“ 

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Colin Kaepernick ratar í fjölmiðla vestanhafs, en hann hneykslaði marga Bandaríkjamenn í sumar þegar hann mótmælti kúgun þeldökkra í Bandaríkjunum með því að neita að rísa á fætur á meðan bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leiki í NFL deildinni.

Auglýsing

læk

Instagram