„Birtingarmynd alls þess sem miður hefur farið í þróun rapps síðustu ár.“

Pistlar

Nýverið gaf bandaríski rapparinn Tyga út lagið Floss in the Bank (sjá hér að ofan). Titill lagsins samanstendur af slanguryrðinu Floss, sem merkir að flíka—og þá einna helst munaðarvörum—og in the bank, sem hinn almenni lesandi skilur væntanlega fullvel (og þá sérstaklega í ljósi þess að hér var hrun!)

Sú hlið sjálfs míns (https://notendur.hi.is/eirikur…) sem er hvað óvægnust í garð texta- og tónlistarmanna er á því að texti lagsins sé viðlíka fáránlegur og titillinn: að hér sé á ferðinni forheimskandi óður til neysluhyggjunnar, eða flumbruleg lofræða sem rapparinn mælir sjálfum sér til heiðurs, uppfull af fyrirsjáanlegum tilvísunum í rándýrar rennireiðir, kynóða kvenmenn og afbrýðisama andstæðinga.

Í gær (15. janúar) gaf rapparinn svo út myndband við lagið, en sú sama hlið sjálfs míns—sem minnir helst á gamla karlinn sem öskraði á skýið—er sömuleiðis á því að myndbandið sé ekki einvörðungu birtingarmynd alls þess sem miður hefur farið í þróun rapptónlistar síðustu ár—heldur einnig óviljandi framtíðarspá um örlög mannkynsins.  

Myndbandið gerist í eyðimörkinni (sjá hér að ofan)—þar sem píramída hefur meðal annars verið breytt í strippklúbb—og endar með óskiljanlegri flugferð Ferrari-bíls inn í miðjan sandbyl. Undirritaðir kýs, hins vegar, að túlka myndbandið sem myndlíkingu: Tyga táknar mannkynið; eyðimörkin hina sviðnu jörð sem við blasir í kjölfar loftslagsbreytinga; Ferrari-bíllinn er tákngervingur jarðefnaeldsneytis; og sjálfsmorðsflug ökumannsins spádómur um endalok mannsins á jörðinni. 

Það skal þó fram tekið að undirritaður—og jafnvel smávaxni bölsýnismaðurinn sem inn í honum býr—hefur ekkert á móti rapparanum Tyga, öllu frekar harmar hann þau öfl sem tala í gegnum hann: tíðarandinn ber rapparann ofurliði.

„Hlustið nú, þið stoltu gerendur,“ sagði Hegel: „Þið eruð ekkert nema meðvitundarlaus verkfæri hugsandi manna“—og því miður er sú hugsun manna um rapptónlist sem söluvettvangur fyrir munaðarvörur, miður falleg. 

Mæli ég því frekar með laginu The Mint eftir Earl Sweatshirt.

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Instagram