„Ég hef kvalist eins og Kristur á krossinum.“

[the_ad_group id="3076"]

Síðustu dagar hafa verið mér erfiðir. Ég hef þjáðst eins og enginn maður á undan mér hefur þjáðst; ég hef kvalist eins og Kristur á krossinum; eins og kvenmaður sem þrýstir þrennd tröllvaxna systkyna gegnum smávaxna mjaðmagrind (#brak).

Í marga daga hef ég legið undir miskunnarlausum íslenskum himni, örmagnast á grafarbakkanum, brotið heilann um kosti og ókosti ótímabærs dauða.

„Ef aðeins menn vissu …“ Hef ég hugsað: „… vissu mitt kvalræði …“

En engar áhyggjur:

[the_ad_group id="3077"]

Aldrei hef ég verið það herkna karlmenni sem þjáist í kyrrþey. Þegar ég þjáist, vil ég að veröldin öll viti af því – og blygðunarlaust betla ég meðaumkun þeirra sem gæddir eru tveimur nothæfum eyrum.

Kvöl mín er þessi:

Ég er með bráðaofnæmi fyrir stjórnmálamönnum og síðustu daga hafa stjórnmálamenn verið alls staðar: í fréttunum, í blöðunum, á netinu, í símanum mínum, og stundum hafa þeir meira að segja staðið í gluggum Alþingis, búnir flóttalegu augnaráði sem virðist ljóstra upp um einhvern yfirvofandi háska (lýðræði, kannski).

Þessi sýnileiki íslenskra stjórnmálamanna hefur verið hræðileg, hremmileg og ljót – og hún hefur orsakað enn frekari þjáningu (sumsé, svartari uppsprettu).

Hlustaðu:

Það sem mér finnst kvalafyllst, óþægilegast og verst, er það að atburðir síðustu daga hafa umbreytt þeim vinum mínum sem eru hvað sakleysislegastir og elskulegastir – og sem hafa hingað til haft vit fyrir því að virða pólitíska umræðu að vettugi – í pólitíska leikmenn.

Þeir setja sig í stellingar.

Á kaffistofunni, í vinnunni eða í eldhúsinu heimafyrir, virðast þeir líklegir til þess að standa eins og stjórnmálamenn standa, með útréttar hendur sem vísa skáhallt í átt að brúnum pontunnar; til þess að gera sér upp þann kunnuga hneykslunarsvip sem sprettur af blygðunarlausri tækifærisstefnu; til þess að menga andrúmsloftið með málskrúð; til þess að leysa vind með kjaftinum.

Óafvitandi íhuga þeir framboð; þetta er skelfilegt.

Það er af þessari ástæðu sem ég vonast eftir því að við boðum til kosninga sem allra fyrst, að við kjósum á Alþingi hóp ósýnilegs fólks: fólk sem hefur enga kynhvöt og engan metnað; fólk sem býr yfir sterkri, látlausri greind sem hægt og bítandi hefur sigrast á egóinu; lág-millistéttarfólki sem hvorki styggir öreigana né hneykslar auðmennina; leiðinlegt fólk sem gengur ekki um berrassað fyrir framan erlenda blaðamenn.

Aðeins þá getum við tekið upp á því að hunsa stjórnmálamenn á ný – og byrjað að lifa lífinu.

Þegar ópólitískir menn eru byrjaðir að tjá sig um stjórnmál, er það merki um að stjórnmálamenn séu að gera eitthvað rangt.

Orð: Friðrik Níelsson

Auglýsing

læk

Instagram