„Enginn leikari trúir á hið illa eða hið góða.“—SKE spjallar við Blævi um RVKDTR, Klaustursmálið og fleira

Viðtöl

SKE: Eins og flestum landsmönnum hefur Klaustursmálið verið undirrituðum ofarlega í huga síðustu daga. Þá eiga orðin „Sitt sýnist hverjum ágætlega við, því auðvitað hefur hver og einn sína skoðun (eins og gerist og gengur með flest hneykslismál); sumir skammast sín fyrir hönd Alþingis og veldur það þeim óhug að hluti þess fólks sem tekur ákvarðanir fyrir hönd landsmanna sé ekki svo heiðvirður eins og raun ber vitni (þó það komi ekki endilega á óvart); svo eru aðrir sem skammast sín einnig fyrir hönd þeirra sem hafa brugðist við þessu máli með sambærilegum hroka, svipaðri hræsni og samsvarandi mannfyrirlitningu. Örfáir eru máske á því að nasvitrir gerendur séu ekki eins viðurstyggilegir og hin sjálfumglaða Þórðargleði almennings. Í tilefni umræðunnar hafði SKE samband við leikkonuna og rapparann Blævi—og þá í því augnamiði að eiga hugulsamt samtal. Blær tók nýverið þátt í samlestri Borgarleikhússins á samtali sexmenningana og leikur einnig í leikritunum Tvískinnungur og Kæra Jelena (hið síðarnefnda verður frumsýnt á næsta ári). Við byrjuðum á því að ræða tónlistina. Hljómsveit Blævar, Reykjavíkurdætur, vann nýverið til stórra verðlauna á vegum Evrópusambandsins og gáfu Dæturnar einnig út nýja plötu nú á dögunum.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Þuríður Blær Jóhannsdóttir

RAPPIÐ

SKE: Til hamingju með nýju plötuna: Shrimpcocktail. Hvaðan kemur nafnið—og hvaða lag þykir þér vænst um (og hvers vegna)?

Blær: Nafnið á sér margar mismunandi útskýringar. Það kemur frá samnefndu lagi sem á eftir að koma út en vísar líka í þá staðreynd að mixteipið er hálfgerður kokteill: alls konar mismunandi lög sett saman í eitt glas. Rækjur hafa einnig fylgt Reykjavíkurdætrum lengi; við neyddumst til að borða bara rækjur út í Færeyjum og erum með svífandi rækjur í bakgrunni á tónleikunum okkar. Rækja er líka orð yfir leiðinlega dúdda.

Uppáhalds lagið mitt er Dugleg sem ég samdi í samstarfi við Steinunni Jóns og Badda Magnússon, sem er einnig þekktur sem Class B. Mér finnst Steinunn svo góður rappari og mig hefur lengi langað að semja lag með henni, bara við tvær. Ég samdi erindi við æfingabít eitt kvöldið og sendi henni og spurði hvort við gætum haldið áfram saman og það þróaðist út frá því. Ég hef unnið mikið með Badda, bæði í Borgarleikhúsinu og svo hefur hann einnig pródúserað lög með RVKDTR og Cyber. Hann gerir alltaf svo sexý hluti. Ég vissi að við yrðum að fá hann með okkur í þetta—og útkoman varð snilld. 

„Hear it for yourself.“

SKE: Reykjavíkurdætur unnu Music Moves Europe Forward Talent Awards (og komust þar með í flokk með OMAM, Ásgeiri Trausta, Lykke Li, o.fl). Um ræðir tónlistarverðlaun á vegum Evrópusambandsins. Hvað þýða þessi verðlaun fyrir ykkur? 

B: Ég er að vona að þetta sé þröskuldurinn til heimsfrægðar. Ég vil að Reykjavíkurdætur verði heimsfrægt batterí og að við fáum almennileg laun fyrir vinnuna okkar og getum stækkað show-ið okkar enn meira. Verðlaunahafarnir eru að fá þessi verðlaun rétt áður en þau springa út—eins og Adele. Ég er að vona að við séum þar líka. Nú er bara að stíga ölduna rétt.

SKE: Hvað ertu að hlusta á um þessar mundirog hvað ertu ekki að hlusta á? 

B: Alltaf þegar Reykjavíkurdætur gefa út lag á Spotify þá gerir ein okkar lagalista (playlist) á Spotify. Hingað til hafa Þura, Dísa og Kylfan gert lagalista. Ég var að gera minn fyrsta. Hann er svona mála-sig-fyrir-jólapartý-og-súpa-koníak-og-hugsa-um-gamlar-ástir lagalisti. En líka bara alls konar sem ég er að fíla núna. 

KLAUSTUR

SKE: Eitt af því sem hefur lengi plagað undirritaðan varðandi íslenskt samfélag er mýtan hans Póloníus um að vera sjálfum sér trúr (sem þegnar samfélagsins virðast flestir samþykkir). Þessi tilvitnun byggist, að honum finnst, á hættulegum misskilningi, sumsé að Við erum það sem við erumog breytum því ekki. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að okkur finnst ómögulegt að aðgreina syndina frá syndaranum: Eitt sinn ofbeldismaður, ávallt ofbeldismaður; eitt sinn lygari, ávallt lygari; eitt sinn glæpamaður, ávallt glæpamaður; eitt sinn drykkjusjúk karlremba, ávallt drykkjusjúk karlremba o.s.frv. Getur fólk breystog eiga sexmenningarnir einhverja von um endurlausn? 

B: Það sem fer í taugarnar á fólki er þessi gegndarlausa þrjóska: að geta ekki játað mistökin og beðist fyrirgefningar—heldur er bent á aðra og komið með fáránlegar útskýringar. Svo er enn fáránlegra að það getur virkað, að segja Nei ekki ég, HANN! Við hin erum svo þrjósk að það skiptir stundum ekki máli hvað valdhafarnir gera af sér: við kjósum alltaf það sama. Í einhverjum mæli. En sem leikkona get ég sagt að það eru ekki svona þrjóskir karakterar sem vekja samúð áhorfenda. Heldur viljum við þann sem sér að sér og biður einlæglega afsökunar, fellir jafnvel nokkur tár. Hann vinnur okkur aftur á sitt band og gæti þá gert það sem honum sýnist eftir það. Enda eru þannig pólitíkusar miklu hættulegri og með meira fylgi.

SKE: Um daginn gaf sálfræðingurinn Julia Shaw út bókina Evil þar sem hún færir rök fyrir því sem hún kallar “evil empathy” (sumsé að sýna fólki sem drýgir hræðilega glæpi hluttekningu). Shaw er í flokki fleiri sálfræðinga, heimspekinga og vísindafólks sem hefur sagt skilið við hugtökin (tvíhyggjuna) illur og góður. Ástæðan er aðallega sú að þessi hugtök eru ákveðin einföldun: Efnisheimurinn grundvallast á orsökum og afleiðingum—og lýtur manneskjan sömu lögmálum. Þar af leiðandi erum við öll, að einhverju leyti, fórnarlömb aðstæðna (eða erum, að minnsta kosti, ekki eins frjáls og við teljum). Hvað finnst þér: Trúir þú á hið illa og hið góða?

B: Ég held að enginn leikari trúi á hið illa og hið góða—er það ekki deyjandi pæling? Í dag eru allar hetjur, andhetjur. („Not the hero we want, but the hero we need,“ am I right?)

SKE: Kannski er það einvörðungu sökum eigin breyskleika að sumum finnst auðvelt að setja sig í spor sexmenningana; margur virðist viðurkenna að hafa sagt og gert ömurlega hluti í glasi, að hafa hlustað og horft upp á ömurlega hluti á fyllerí—án þess þó endilega að grípa inn í. Einnig hafa eflaust flestir látið ónærgætnar skoðanir í ljós, í tveggja manna tali. Þú sem leikkona hefur brugðið þér í hlutverk ófárra persóna í gegnum tíðina. Margt leiklistarfólk, sem undirritaður hefur rætt við í sínu starfi, er á því að leiklistin—sem og listin yfir höfuð—verði til þess að það öðlist samúð með alls kyns fólki, bæði góðu og illu (svo við styðjumst við þessi hugsanlegu úreltu hugtök). Sem leik- og listakona, getur þú, að einhverju leyti, speglað þig í sexmenningunum?

B: Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér status—mun á karakterunum í sexmenningunum. Hvar þau standa í pólitíkinni og hvaða aðferðir þau nota til að koma sínu á framfæri. Eins og vel skrifað leikrit. Ég las upp fyrir Karl Gauta á samlestri Borgarleikhússins um daginn. Ég kynnti mér hann fremur lauslega en auðvitað fékk ég strax samúð með honum eftir það og finnst hann eiga allt gott skilið. Ég hefði reyndar mikinn áhuga á að tala við hann um nauðgunardóma. Ég er ekki viss um að við séum á sama máli um réttarkerfið, en hann er svona maður sem er tilbúinn að hlusta á aðrar raddir en sínar eigin.

SKE: Eitt af því sem maður hefur tekið eftir í framferði blaðafólks í þessu máli—í viðtölum þeirra við sexmenningana sérstaklega—er að framkoman virðist gagnsósa af væntingum almennings, þ.e.a.s. að viðkomandi blaðakona eða maður skuli ekki gefa neitt eftir; skuli vera harkan uppmáluð; og skuli helst ekki leggja sig niður við að taka nein svör gild (neinar útskýringar). Hlutverk fjölmiðla í þessu máli, sem og í flestum þjóðfélagsmálum, er stórt. Í því samhengi er manni eftirfarandi rökleiðsla hugleikin: Fjölmiðlar reiða sig á auglýsendur; auglýsendur leita til þeirra fjölmiðla sem vekja mesta athygli; og auðveldasta leiðin til þess að fá athygli (smelli) er með því að höfða til lágkúrulegra hvata lesendaog þá með sláandi fyrirsögnum og umdeildum fréttum. Því kemur spurningin „Hvað er samfélaginu, eða lýðræðinu, fyrir bestu?“ dæminu ekkert endilega við. Er þetta ekki stórt vandamál? 

B: Meinarðu yfirhöfuð? Ja, ég er orðin þreytt á að lesa fréttir um rassinn á Kim Kardashian og símaöt með Audda Blö (ég er samt heldur ekki að lesa um orkupakkann þarna). Vinsælasta stöffið á Spotify og Netflix er leiðinlegt. Það sem fjöldinn fílar er forheimskandi og stundum er gott að horfa á RÚV og fara í leikhús í von um að maður sjái eitthvað öðruvísi. 

SKE: Í fyrradag efndi Borgarleikhúsið til sérstaks lesturs Klausturssamræðanna. Um svipað leyti tjáði vinur minn mér því að ef slík leiksýning yrði sett upp á grundvelli hans eigins óráðshjals (eins og Steingrímur J. Sigfússon orðaði það) væri hann líklega í sjálfsvígshug eða um þann mund að flytjast búferlum úr landi. Hver var tilgangur sýningarinnar—og var takmarkinu, að þínu mati, náð?

B: Borgarleikhúsið notaðist við efnið sem komið var út nú þegar í fjölmiðlum og reyndi að setja saman í rétta tímaröð svo hægt væri að sjá samræðurnar í einhverju samhengi. Það er ekki hægt að kalla þetta leiksýningu, frekar samlestur, því markmiðið var ekki að búa til karaktera, að ýkja eða draga úr neinu. Bara heyra hlutina upphátt og í samhengi. Ekki eins og skaupið. En sumt vakti hlátur, annað óþægindi eða óhug. Sumir áhorfendur fengu aukna samúð með sexmenningunum eftir samlesturinn, aðrir líklega minni. En leikhúsið þjónar hvorki málstað sexmenninganna né fjölmiðla, bara sínum eigin: að eiga í samtali við samtímann. 

SKE: Að lokum: Það er kannski engin betri lýsing á íslensku samfélagi en orð Styrmirs Gunnarssonar í kjölfar hrunsins (orð hans koma óneitanlega upp í hugann þegar hneyskli á borð við Klaustursmálið dúkka upp): „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Hvaða prinsipp ættum við tileinka okkur í kjölfar þessa máls? Og er einhver von fyrir íslenskt samfélag?

B: Haha, ég veit það ekki. Vonandi. Með samtali. Kannski ættu allir þingmenn að vera skyldaðir til að fara í leikhús sex sinnum á ári.

(SKE þakkar Blævi kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á nýju plötu Reykjavíkurdætra.)

Auglýsing

læk

Instagram