„Erfitt að vera kristin á Íslandi í dag.“—Inga Björgvins gefur út „Storytime“ (Viðtal)

Viðtöl

SKE: Eitt sinn lét breski heimspekingurinn Francis Bacon eftirfarandi ummæli falla: „Grunnfærni á sviði heimspekis veldur því oft að hugurinn hneigist til trúleysis, en djúphyggni á sama sviði leiðir huga mannsins til trúar. Eflaust kemur það mörgum á óvart að Bacon, sem stundum er kallaður faðir vísindaaðferðarinnar, hafi einnig verið guðrækinn maður—en sú er raunin (Francis Bacon er í hópi fleiri sálugra vísindamanna sem trúðu á guð, Albert Einstein, Isaac Newton og Galileo Galilei þar með taldir). Kom þessi tilvitnun upp í huga undirritaðs er hann hlustaði á lagið „Storytime“ sem íslenska söngkonan Inga Björgvinsdóttir gaf út nú á dögunum (undirritaður er trúleysingi en leyfir sér stundum að efast). Um er að ræða fyrsta lagið sem söngkonan gefur út á Spotify. Í tilefni útgáfunnar hafði blaðamaður samband við Ingu og forvitnaðist um tónlistina og trúna. Líkt og fram kemur í viðtalinu finnst söngkonunni trúleysi ungra Íslendinga hálf sorglegten sýnir, engu að síður, skilning í garð þeirra sem eru á öndverðu meiði. 

Viðtal: RTH

Viðmælandi: Inga Björgvinsdóttir

SKE: Sæl Inga, hvað segirðu þá?

Inga Björgvins: Ég er bara ótrúlega hress. Síðustu tvær vikur hafa verið svolítið villtar og skemmtilegar. Þær byrjuðu með jólatónleikum Fíladelfíu en ég hlaut þann heiður að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni. Tveimur dögum seinna kom lagið mitt Storytime út og eftir það þá má segja, vægast sagt, að þetta sé búið að vera rússíbani og ótrúlega skemmtilegir tímar.

SKE: Hver er Inga Björgvins—og hver er hún ekki?

Inga Björgvins: Góð spurning. Ég er 21 árs, uppátækjasöm, mátulega hress stelpa úr Hafnarfirðinum sem hefur upplifað alls konar rússíbana, eins og margir. Ég er ekki mikið fyrir að dvelja lengi við sömu hlutina—nema heima við hjá mömmu.

SKE: Okkur skilst að þú eigir rætur að rekja til Kanada. Er það rétt?

Inga Björgvins: Ekki beint. Ég bjó í Toronto, Kanada í u.þ.b. sex mánuði og stundaði nám í Biblíuskóla á tónlistar- og lofgjörðarbraut. Þar kynntist ég ótrúlega góðu fólki og á ég marga góða vini þar. Það má segja að ég hafi að einhverju leyti skilið hjarta mitt eftir í Kanada þegar ég kom heim eftir skólann og er ég alltaf á leiðinni til baka. Ég elska Kanada og fólkið mitt þar. 

SKE: Þú gafst út lagið Storytime nú á dögunum. Til hamingju með það. Hvernig kom lagið til?

Inga Björgvins: Takk æðislega fyrir það. Mér finnst svolítið eins og að lagið hafi fundið mig. Ég kom heim eitt kvöldið eftir bænastund með vinum og var þá búin að vera með setninguna „Inga, let me tell you a story“ á heilanum. Þegar ég kom heim settist ég upp í rúm með bókina mína og textinn kom nánast fullmótaður til mín. Svo tók ég upp gítarinn og spilaði þá fáu hljóma sem ég er örugg með að spila og þar með var lagið til.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra og hvers vegna?

Inga Björgvins: Svo mörg … akkúrat núna er það You Say með Lauren Daigle. Það er bara svo mikill sannleikur í þessum texta sem er gott að minna sig á.

SKE: Er plata í vændum eða annað efni?

Inga Björgvins: Jaaa … ég er strax farin að huga að næsta lagi. Kannski þetta endi á plötu einn daginn, hver veit?

SKE: Lagið fjallar um sköpunarsöguna, eins og henni ber upp í Biblíunni. Af textanum að dæma er höfundur lagsins trúrækinn. Er það rétt?

Inga Björgvins: Já, það má segja það. Ég er alin upp við kristna trú. Í skóla átti ég ekki marga vini og var kirkjan svolítið minn staður; trúin hefur hjálpað mér í gegnum erfiða tíma. Sjálf segist ég ekki vera trúrækin heldur að ég eigi eigi lifandi trú á Jesú.

SKE: Í ársbyrjun 2016 birti Stundin grein á síðu sinni undir yfirskriftinni Trúleysi ungra Íslendinga vekur heimsathygli. Hvernig horfir trúleysi samtímafólks þín við þér?

Inga Björgvins: Ég er umkringd  trúuðu fólki. Ég hef upplifað hversu erfitt það er að standa upp og játa að maður sé kristinn einstaklingur á Íslandi í dag; það er orðið meira um það að ungt fólk sé trúlaust og þykir það „cool“ að snúa baki við kirkjunni. Sem trúaður einstaklingur þykir mér það sorglegt en auðvitað velur fólk hvaða leið það fer í lífinu.  Ég sjálf hef valið að fygja minni trúarsannfæringu. Í dag má segja að það sé meiri uppreisn að vera Jesú fylgjandi en að vera það ekki.

SKE: Hvernig byrjaði söngferillinn?

Inga Björgvins: Mamma segir að söngferillinn hafi byrjað ein inni í herbergi að syngja fyrir dúkkurnar mínar. Ég myndi segja að hann væri rétt að byrja.

SKE: Þú deildir, að okkar viti, sannri tilvitnun á Instagram í sumar: „If you’re still excited about what you did five years ago, you’re not growing.“ Því liggur beinast við að spyrja: Hvað varstu að gera fyrir fimm árum síðan og er það enn spennandi?

Inga Björgvins: Ekkert spennandi: Ég var örugglega að falla í skóla og gefast upp á lífinu, í sannleika sagt. Ég átti mjög stóra drauma sem voru gríðarlega fjarlægir. Í dag finnst mér, hins vegar, draumarnir og lífið miku meira spennandi—og ég er spennt fyrir áframhaldinu.

SKE: Eitthvað að lokum?

Inga Björgvins: Gleðilega hátíð og takk fyrir mig.

(SKE þakkar Ingu Björgvins kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á lagið „Storytime.“)

Auglýsing

læk

Instagram