Auglýsing

Forsetafordómar

Ég og samlandar mínir leitum nú að nýjum forseta. Gamli forsetinn hefur gefið sig og ber okkur því skylda að finna nýjan.

Þegar hafa 14 mögulegir forsetar gefið kost á sér. 14 mögulegir forsetar fyrir þjóð sem telur ekki nema 330.000 þegna. Það þykir hátt hlutfall forsetaframbjóðenda, en það ætti samt ekki að koma neinum á óvart:

21. öldin er öld sjálfsblekkingarinnar; Kanye West trúir því að hann sé Picasso, SDG trúir því að hann sé trúverðugur riddari krónunnar og Dónald Trump, líkt og margir aðrir Íslendingar, trúir því að hann beri alla þá mannkosti sem prýða þarf góðan forseta.

Varðandi þessa forseta verð ég samt að viðurkenna það að ég stjórnast – eins og flestir landar mínir – af fordómunum einum.

Í raun má segja að ég hafi gert upp hug minn varðandi alla þessa frambjóðendur, óháð staðreyndum, um leið og (eða stuttu eftir) þeir stigu fram.

… og það er lítið sem þessir frambjóðendur geta gert til þess að leiðrétta þessa fordóma.

Ég ætla að opinbera þá hér:

 • Vér höfum forseta Sturla Jónsson: alþýðumanninn, vörubílstjórann, karlakarlinn.

Þegar ég hugsa um Sturlu Jónsson hugsa ég um það þegar hann steig upp í pontu vopnaður hrífu. Þetta var táknrænt uppátæki; Sturla Jónsson ætlaði að raka alþingismönnunum út. Ég hugsa reglulega um þetta atvik og velti því stundum fyrir mér hvernig ferlið á bakvið þessa uppákomu hafi verið:

A) Sat Sturla í vörubílnum fyrir ræðuna, sá hrífuna í aftursætinu og hugsaði: „Hrífan er tákn verkamannsins, bóndans, baráttumannsins – ég tek hana með!“?

B) Gekk hann framhjá Alþingishúsínu einn daginn, er garðyrkjumaður athafnaði sig við rakstur túnsins á Austurvelli, þegar þessi sama pera sem kviknaði í höfði Arkimedes forðum („Eureka!“), kviknaði einnig í höfði Sturlu?

C) Gengur Sturla kannski almennt með hrífu á sér? Er þetta eins og stafurinn hans Gandálfs?

En hvað um það: Sturla Jónsson hefur sína eigin túlkun á stjórnarskránni og treystir ekki lögfræðingum. Hann vill að forsetinn skipi ráðherrana sjálfur og ætlar að vísa deilumálum í þjóðaratkvæðisgreiðslu gegn því að fá afhent 25.000 undirskriftir.

Ef Sturla Jónsson byggi í suðurríkjum Bandaríkjanna væri hann meðlimur í NRA. Gengi um með felulitaða húfu. Japlandi á Beef Jerky.


 • Vér höfum forseta Höllu Tómasdóttur: fyrirlesarann, femínistann, ráðgjafann. Mér þykir vefsíðan hennar fagmannlega unnin.

Þegar ég hugsa um Höllu Tómasdóttur hugsa ég um myndbrotið af Erpi í Rapp í Reykjavík, þar sem hann lýsir eldhúsinu hennar Höllu sem marmarageymslu. MARM-ARA-GEYMSLU. Ummæli Erps hafa grafið sér leið inn í undirmeðvitund mína og nú í hvert skipti sem ég hugsa um Höllu Tómasdóttur birtist hún í huga mínum sem marmari í mannsmynd: svolítið kuldaleg, ferhyrnd, hörð – dollaragræn.

En hvað um það: Halla Tómasdóttir vill láta gott af sér leiða og vinna að hagsmunum heildarinnar þvert á alla flokka og öll hagsmunaöfl.

Í kynningarmyndbandi sínu segir Halla: „Ég hef búið í Bandaríkjunum, í Bretlandi og á Norðurlöndunum – en ég kem alltaf aftur heim.“ Hún er Arnold Schwarzenegger.


 • Vér höfum forseta Hildi Þórðardóttur: rithöfundinn, þjóðfræðinginn, andlega leiðtogann.

Þegar ég hugsa um Hildi Þórðardóttur hugsa ég um fyrra líf hennar á Englandi fyrir 200 árum síðan. Hildur Þórðardóttir var, að eigin sögn, þeirrar reynslu aðnjótandi að upplifa næstum 200 ára sorg vegna makamissis úr fyrra lífi í Englandi. Sorgin var það mikil að hún komst ekki út að borða með vinum sínum seinna um kvöldið. Mér þykir það miður.

Undirmeðvitund mín, hins vegar, tók þessum upplýsingum illa og hvíslar að mér: “Í fyrra lífi hefði hún kannski geta orðið forseti – en ekki í þessu lífi.“

En hvað um það: Fyrir Hildi Þórðardóttur er forsetinn sameiningartákn þjóðarinnar og andlegur leiðtogi, öryggisventill gagnvart Alþingi, landsmóðir, fulltrúi landsins út á við og fyrirmynd landsmanna.

Ef Hildur Þórðardóttir væri knapi mundi hesturinn hennar heita Tilfinning – og hefði hún ágætis taumhald á honum (Hildur gaf út bókina Taumhald á tilfinningunum árið 2013).

 • Vér höfum forseta Andra Snæ Magnason: rithöfundinn, náttúruverndarann, góðvin Bjarkar Guðmundsdóttur.

Þegar ég hugsa um Andra Snæ hugsa ég um gleraugun hans. Þau veita honum, óneitanlega, vitsmunalegt yfirbragð – en svo hugsa ég um Hitler. Hitler notaði lesgleraugu, en áróðursvél nasismans kom í veg fyrir að myndir af honum með lesgleraugun yrðu nokkurn tímann birtar. Kannski vegna þess að í augum nasista voru gleraugu ekkert nema hjólastóll fyrir augun. En við erum ekki nasistar.

En hvað um það: Andri Snær vill hugsa í lengri tímabilum en ársfjórðungsuppgjörum eða mislöngum kjörtímabilum og hann ætlar að berjast fyrir náttúru Íslands.

Undirmeðvitund mín líst ágætlega á Andra Snæ og þegar hann birtist í huga mínum er hann gleraugnalaus. Það er búið að ritskoða þau.

 • Vér höfum forseta Benedikt Kristján Mewes: mjólkurfræðinginn, Idol keppandann og meðliminn í Færeyingarfélaginu.

Þegar ég hugsa um Benedikt Kristján Mewes hugsa ég um stöðufærslu sem hann skrifaði einu sinni á Facebook: „Eftir miklum vangaveltum hef ég ákveðið að stiga fram sem forsetaframbjóðendur.“ Er Benedikt Kristján Mewes fleiri en einn? Er þetta einhvers konar 6th Day senaríó? Er búið að klóna hann?

En hvað um það: Benedikt hyggst verða fyrsti samkynhneigði forseti Íslands og vill tryggja að jafnrétti kynjanna sé virt í hvívetna og að einelti verði útrýmt. Hann vill að Ísland verði fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að því að virða mannréttindi.

Benedikt er með 44 Likes á Facebook síðu sinni.

 • Vér höfum forseta Arndísi Soffíu Sigurðardóttur: lögfræðinginn, ferðaþjónustubóndann og … nei, bíddu … þetta var grín. Það var verið að gæsa hana þegar hún tilkynnti framboðið.

 • Vér höfum forseta Hrannar Pétursson: fyrrum fréttamanninn, píanóleikarann og verkefnastjórann.

Þegar ég hugsa um Hrannar Pétursson hugsa ég um hann eins og hann birtist á sviði í Söngvakeppni framhaldsskólanna: klæddur appelsínugulum samfestingi, með grænan klút, fleygið hálsmál – að syngja Diskó friskó af mikilli innlifun. Undirmeðvitundin hefur ekkert út á þetta að setja. Undirmeðvitundin mín segir að Diskó friskó sé fínt lag og að það er mikilvægt að forsetinn kunni að dansa.

En hvað um það: Hrannar segir að forestinn eigi að tala fyrir tilteknum gildum, fyrir gagnkvæmum skilningi ólíkra skoðana, eigi að leggja sig fram um að sameina fólk en ekki sundra og vera sanngjarn, en í senn staðfastur, í því sem hann gerir.

Á heimasíðu Hrannars má sjá mynd af honum í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hann reynir að fiska „high-five“ frá öðrum hlaupurum, að svo virðist án árangurs.

 • Vér höfum forseta Guðrúnu Margréti Pálsdóttur: hjúkrunarfræðinginn og einn af stofnendum ABC barnahjálpar.

Þegar ég hugsa um Guðrúnu Margréti hugsa ég um fréttatilkynningu hennar þar sem hún sagði: „Þann 4. janúar fékk ég að því er virtist ósköp sakleysislega spurningu sem ég taldi mig nú ekki þurfa að hugsa mikið um en hún var af hverju ég byði mig ekki fram til forseta. Ég hélt nú ekki en þegar maðurinn minn tók undir þetta þá staldraði ég við og ákvað að skoða þetta nánar.

Það er enginn karlmaður í heiminum (sem er ekki í sjálfsmorðshugleiðingum) sem mundi nokkurn tímann svara konunni sinni, þegar hún spyr hvort að hún gæti orðið góður forseti, með því að segja: „Nei, veistu, elskan, ég held að þú sért bara ekki rétta manneskjan í starfið. Þú hefur ekki þetta ,presidential element’ sem Rónald Reagan hafði.“ Svarið er alltaf já. Eiginmaður er aldrei dómbær á mannkosti konunnar sinnar.

En hvað um það: Fyrir Guðrúnu skiptir velferð þjóðarinnar miklu máli og hún ætlar að leggja áherslu á samstöðu þar sem þjóðin fari hamingjuleiðina, hlúi að rótum sínum og vaxi í trú, von og kærleika.

Guðrún Margrét hefur áhuga á berjatínslu.

 • Vér höfum forseta Guðmund Franklín Jónsson: viðskiptafræðinginn og fyrrverandi formann Hægri grænna.

Þegar ég hugsa um Guðmund Franklín hugsa ég um þá staðreynd að hann var fyrsti íslenski verðbréfamiðlarinn á Wall Street. Mörgum árum seinna fór hann á myndina Wolf of Wall Street í bíó og „hló stundum í dimmum bíósalnum á meðan aðrir þögðu,“ (skv. vefsíðu Eiríks Jónssonar). Í undirmeðvitund minni situr Guðmundur Franklín enn í þessum sal og misskilur brandarana ítrekað, hlær á öllum röngum tímapunktum.

En hvað um það: Guðmundur Franklín heldur mikið upp á störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta og vill halda hans merki á lofti. Einnig segist hann vera heppinn að vera Íslendingur og þakklátur fyrir þau forréttindi að hafa fæðst og alist upp á Íslandi.

Guðmundur Franklín er í miklu uppáhaldi hjá ömmu vinkonu minnar; við eigum enga pólitíska samleið.

(Guðmundur Franklín dró sig úr framboðinu eftir tilkynningu Ólafs Ragnars Grímssonar þann 18.04.2016)

 • Vér höfum forseta Bæring Ólafsson: forstjórann, framkvæmdastjórann, Bloke-a-Cola.

Þegar ég hugsa um Bæring Ólafsson hugsa ég nokkra daga aftur í tímann, þegar ég gekk inn í Pétursbúð og sá mynd af honum á afgreiðsluborðinu. Skyndilega kom skrýtin tilfinning yfir mig. Mér fannst eins og að einhver væri að horfa á mig. Leit ég svo aftur fyrir mig, tortrygginn, og þarna stóð hann: Bæring Ólafsson. Bloke-a-Cola. Það var eins og að hann væri að bíða eftir rétta tímanum til þess að upplýsa mig um eigið ágæti – en ég var með heyrnartól í eyrunum. Sem betur fer. Ég hræðist sölumenn og sérstaklega þá sölumenn sem eru að reyna selja sjálfan sig.

En hvað um það: Sem forseti Íslands mun Bæring beita sér fyrir að styðja aukið lýðræði, hvetja ungt fólk til aukinnar menntunar og nýsköpunar, stuðla að öflugu menningarlífi, styðja og styrkja heilbrigðisstéttina og málefni aldraðra og öryrkja. Einnig mun hann leggja áherslu á sjálfbærni í nýtingu auðlinda.

Bæring spjallar oft við Guð. Þeir eru í beinu sambandi. Guð elskar Coke.

 • Vér höfum forseta Vigfús Bjarna Albertsson: prestinn, hirðinn, klerkinn.

Þegar ég hugsa um Vigfús Bjarna hugsa ég um ummæli hans í Harmageddon, þar sem hann tjáði hlustendum að hann hafi „fæðst mjög gamall en sé allur að skána.“ Vigfús Bjarni er Benjamin Button. Mér finnst erfitt að hugsa til þess að á meðan Vigfús Button yngist, þá eldist konan hans, Valdís Fuller. Mun Vigfús Button einn daginn hverfa frá Bessastöðum á mótorhjóli og skilja Valdísi eftir í sárum sínum? Mun hann snúa aftur sem unglingur? Mun hann andast í örmum hennar sem lítið barn?

En hvað um það: Vigfús Bjarni vonast eftir því að hann hafi hugrekki tl að ganga fram og leiða það sem er sameiginlegt í okkar þjóðarsál, viljann til þess að standa vörð um heilbrigðiskerfið og eldri borgarana og þetta daglega líf okkar. Hann langar til þess að vera hluti af þessu og tala um þetta og minna á þetta. Hann ætlar ekki í neinn slag – hann ætlar í ferðalag.

Ég er trúleysingi – en fordómar mínir segja mér að Vigfús sé góður gaur.

(Vigfús Bjarni dró sig úr framboðinu eftir tilkynningu Ólafs Ragnars Grímssonar þann 18.04.2016)

 • Vér höfum forseta Ástþór Magnússon: forsetaframbjóðandann, forsetaframbjóðandann, forsetaframbjóðandann …

Þegar ég hugsa um Ástþór Magnússon hugsa ég til orða Bill Hicks: „Ég er samþykkur tilgátu Mark Twain, sem segir að sú manneskja eigi síst erindi í forsetaembættið sem þráir það heitast. Þess í stað ættum við að kjósa þá manneskju sem draga þyrfti á Bessastaði með afli – öskrandi og spriklandi.“ Það er enginn að fara draga Ástþór á Bessastaði. Hann færi alltaf sjálfviljugur og sáttur, með partý hatt og lúður.

En hvað um það: Ástþór Magnússon vill virkja Bessastaði til friðar og lýðræðisþróunar. Hann hefur engar tengingar við stjórnmálaflokkana né hefur hann starfað með þeim og þess vegna telur hann sig vel til þess fallinn að vera hlutlaus umboðsmaður allrar þjóðarinnar á Bessastöðum.

Það þarf einhver klisjulegur asískur gúrú í lítilfjörlegri Hollywood mynd að taka Ástþór á spjallið: „The path to president, lies in not trying to become president. The way to Bessastaðir, is the way away from Bessastaðir.”

 • Vér höfum forseta Heimir Örn Hólmarsson: rafmagnstæknifræðinginn, verkefnastjórann, hversdagshetjuna.

Þegar ég hugsa um Heimi Örn Hólmarsson hugsa ég um kynningbarmyndbandið sem hann skaut út í garði (að svo virðist): stórt aspartré teygir úr sér í bakgrunninum og Heimir er í gráum jakka og starir alvörugefinn í myndavélina. Ég hef horft á þetta myndband nokkrum sinnum og í hvert skiptið bíð ég alltaf eftir einhvers konar „blooper reel” (glappaskotsmyndum), þar sem Heimir springur úr hlátri í miðri setningu og segir við tökumanninn: „Ég get þetta ekki. Þetta er of flippað. Ég er í framboði. Réttu mér Fanta-ð.”

En hvað um það: Heimir hyggst berjast fyrir mannréttindum á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Hér á landi eiga ýmsir hópar undir högg að sækja, að hans mati, og er það honum afar mikilvægt að styðja við bakið á þeim til að þeir nái fram sínum réttindum.

Heimi er ekki sama.

 • Vér höfum forseta Árna Björn Guðjónsson: listmálarann, húsgagnasmiðinn … nei, bíddu … hann dró sig í hlé eftir eins dags baráttu … flott hjá honum.

 • Vér höfum forseta Ara Jósepsson: leikarann, Youtube stjörnuna, mannvininn.

Þegar ég hugsa um Ara Jósepsson hugsa ég um myndbandið þar sem hann gengur helskakkur um götur Amsterdam og tjáir áhorfendum að „það eru búðir út um allt hérna og maður er bara eins og skítur.” Í undirmeðvitud minni er Ari fastur í Amsterdam, „Higher than a giraffe’s vagina,” í góðum fíling.

En hvað um það: Ari Jósepsson er ungur, hress, hefur ferðast um allan heim og ætlar að gera það sama og Óli: „Hafa bara kveikt (á Bessastöðum) en búa annars staðar.”

Ari Jósepsson vill hitta Bjarna Ben – sem hann kallar HotSpicy.

 • Vér höfum forseta Þorgrím Þráinsson: fyrrum fótboltamanninn, rithöfundinn, manninn sem lagði sígarettuna í einelti … en, nei, bíddu … hann er hættur við. Það kemur engum á óvart. Hefði Þorgrímur Þráinsson einhvern tímann verið reykingarmaður væri hann „quitter”.

 • Vér höfum forseta Bergþór Pálsson: baritóninn, gleðipinnann, bakarann.

Þegar ég hugsa um Bergþór Pálsson sé ég hann fyrir mér hjá Hemma Gunn að syngja Án þín með Siggu Beinteins. Hann er brosandi, afslappaður, vaggar í takt við tónlistina – eins og myndarlegur Goombi úr kvikmyndinni Super Mario Bros. Undirmeðvitund mín langar í samkynhneigðan forseta sem syngur sig inní hjörtu heimsins og ber fram bakkelsi á Bessastöðum, með rauðan klút um hálsinn.

En hvað um það: Forgangsverkefni forseta Íslands, að mati Bergþórs, er að viðhalda samheldni Íslendinga, byggja brýr á milli þeirra, hjálpa þeim að tengjast, tala líf inn í tilveruna, von, gleði og bjartsýni.

Bergþór Pálsson hefur lengi safnað minnispunktum um veisluhöld. Hann gaf út þessa minnispunkta í bókinni Vinamót. Ég hef heyrt að þetta sé góður literatúr, stíllinn á pari við stíl Joseph Conrad – eða stíl Vladimir Nabokov.

(Bergþór Pálsson dró sig úr framboðinu eftir tilkynningu Ólafs Ragnars Grímssonar þann 18.04.2016)

 • Vér höfum forseta Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur: pennann, húmoristann, furðufuglinn.

Þegar ég hugsa um Elísabetu Jökulsdóttur hugsa ég um viðtalið sem Sigmundur Ernir tók við hana á Hringbraut, þar sem Sigmundur Ernir sagði: „Stundum þegar maður skoðar þitt höfundaverk þá, einfdaldega, rekur mann í rogastans: Þú ert í heilu og hálfu bókunum þínum að fjalla um píkuna á þér.” Í framhaldinu talar svo Elísabet Jökulsdóttir um samband sitt við þeldökkan trommuleikara ásamt viðhorfi síns til píkunnar sinnar, sem henni fannst lengi vera mjög ljót.

En hvað um það: Elísabet vill taka upp vissa þætti úr stjórnarháttum Navahó indjána. Hún vill hafa nokkra aðstoðarforseta, kannski fjörutíu og þrjá, eins og Navahó indjánarnir. Það var mæðraveldi, og þá voru 44 konur sem réðu, að hennar sögn.

Ég fíla Elísabetu Jökulsdóttur, en stundum, seint á kvöldin, finnst mér eins og að píkan á Elísabetu Jökulsdóttur sé að elta mig eins og loðin leðurblaka.

Þá er þessu lokið. Ég hef ekkert meira að segja. Vinsamlegast takið þessum fordómum mínum ekki alvarlega. Gerið upp eigin hug. Takið upplýstar ákvarðanir.

RTH

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing