„​Stressið hellist yfir mann á Hellisheiðinni.“​​—SKE spjallar við Árna Guðjónsson (Pale Moon)

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Viðeigandi kynningartexti fyrir hljómsveitina Pale Moon yrði, ef til vill, svohljóðandi (textinn byggist á sannsögulegum atburðum): „Íslenskur maður kynnist rússneskri konu á Spáni, saman stofna þau hljómsveit sem heitir í höfuðið á plötu eftir franska hljómsveit, og halda svo til Mexíkó í tónleikaferðalag—eða eitthvað í þá áttina … hvað sem í meðallagi ágætum kynningartextum líður þá gaf íslensk-rússneska tvíeykið Pale Moon út EP plötuna „Dust of Days“ í dag (15. apríl). Platan var hljóðrituð í gömlum sveitabæ á suðurlandi og er, að hluta til, innblásin af plötunni „Exile on Main St.“ eftir the Rolling Stones. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Árna Guðjónssyni og spurði hann nánar út í plötuna og lífið. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Árni Guðjónsson

SKE: Sæll, Árni. Þú ert hinn helmingur íslensk-rússneska tvíeykisins Pale Moon, ásamt Natasha Sushchenko. Hvaðan kemur nafnið? (Óneitanlega hugsar undirritaður til Jókersins: „Have you ever danced with the devil in the pale moonlight?“)

Auglýsing

Árni: Nei, hugmyndin kom nú ekki þaðan—en ég mun stela þessu og nota þetta svar héðan af. „Moon“ hluti nafnins kemur einfaldlega frá plötunni Moon Safari með Air en hún er í miklu uppáhaldi hjá mér. „Pale“ flaut með því okkur þótti það fallegt viðskeyti fyrir framan „Moon“ … en Jókerinn: jú, jú, hann er sniðugur.

SKE: Pale Moon gefur út plötuna Dust of Days næstkomandi 15. apríl. Við upptökur fengu þið lánaðan „gamlan sveitabæ á suðurlandi.“ Það er nú væntanlega ekki hlaupið að því að fá aldurhnigið bóndabýli að láni. Hvernig kom það til?

Árni: Ég þurfti nú ekki að leita lengra en til foreldra minna til að fá að komast inn í sveitinni. Foreldrar mínir eru svona hálf-bændur: smiðir á daginn og bændur á nóttunni. Pabbi er mikill hestakall og lifir og hrærist í því. Þau eru með mikla hestarækt og svo voru þau líka eitthvað að vesenast í rollunum. Margverðlaunaði stóðhesturinn Ljósvaki er frá þessum bæ. En svo fyrir nokkrum árum þá fluttu þau starfsemina að mestu niður í landeyjar, sem er bara skammt frá og þá var viðveran á gamla staðnum kannski ekki eins mikil og áður. Þannig að ég sá mér leik á borði og spurði hvort ég mætti ekki setja upp hljóðverið mitt þar. Þeim þótti það bara sjálfsagt mál og fá þau bestu þakkir fyrir. 

SKE: Tilgangur fyrrnefnds láns var að „gefa tónlistinni þann tíma sem hún á skilið. Við hjá SKE höfum lengi verið hugsi varðandi ógnarhraða nútímasamfélagsins, sem er oftast í beinni mótsögn við listsköpun. Manni finnst einhvern veginn eins og að það gæti enginn nútímamaður samið Clair de Lune í dag, t.d., þar sem slíkt verk, að maður ímyndar sér, krefst nánast yfirnáttúrulegrar athyglisgáfu sem er einfaldlega ómögulegt að framkalla í nútíðarheimi. Hvernig horfir þetta við þér?

Árni: Dagsins amstur getur oft verið algerlega yfirþyrmandi. Maður er alltaf eitthvað að djöflast og vesenast. Við rekum saman fataverslun og gistiheimili, svo er ég líka að spila í mörgum öðrum verkefnum. Þannig að þó maður hafi stundum einhverja klukkutíma aflögu hér og þar þá duga þeir ekki til að koma einhverju í verk. Það tekur mann oft langan tíma að komast alveg djúpt í vinnuflæðið. 

Þegar ég kem í sveitina þá byrja ég oft á að leggja mig bara til að ná stressinu úr mér. Ég slekk á símanum—ekki vinsælt en nauðsynlegt. Ég get unnið alveg tímunum saman og ég veit ekkert hvað tímanum líður. Ég borða bara þegar ég er svangur og sef þegar ég er þreyttur—eins og iðnbyltingin hafi aldrei átt sér stað. Ég mæli eindregið með þessu. 

Svo þegar ég er að keyra aftur í bæinn og er að koma niður Hellisheiðina þá finn ég oft hvernig hversdagsstressið hellist yfir mann. Það er oft einhver óútskýranlegur drungi yfir höfuðborgarsvæðinu. 

En þetta er ábyggilega bara allt í nösunum á mér.  

Vinnuferlið sjálft byrjar oftast á því að ég hlusta á lög sem við Natasha höfum samið og tekið upp á voice memo í símanum. Svo reyni ég bara bara að strúktúra það eftir bestu getu. Hennar hlutverk er fyrst og fremst sem lagahöfundur, söngkona og svo listrænn stjórnandi. Hún hefur mikla sýn á hvernig hlutirnir eiga að hljóma sem og útlit og ímynd bandsins og þessháttar—enda með bakgrunn í hönnun. Ég er hins vegar einnig lagahöfundur, söngvari, sem og upptökustjóri og hljóðfæraleikari. En þessi dýnamík og þetta samstarf virkar mjög vel fyrir okkur. 

SKE: Það lag sem hefur haft hvað mestu áhrif á þig og hvers vegna?

Árni: Ég myndi segja Band on the Run með Paul McCartney and the Wings. Þetta er algerlega frábært lag. Það má í raun segja að þetta séu tvö lög því fyrri helmingurinn endurtekur sig ekki eftir að sá seinni byrjar. Þau eru bæði góð en þegar seinni lotan fer af stað með kassagítarsströmminu þá fæ ég alltaf gæsahúð. Ég er mikill Cartney maður og ég og bróðir minn getum alveg rifist yfir hvort sé betri Lennon eða Cartney.

SKE: Segðu okkur frá tónleikaferðalaginu í Mexíkó. Hvað stóð upp úr? Gekk þetta allt snurðulaust fyrir sig?

Árni: Ég get nú ekki alveg sagt að það hafi allt gengið snurðulaust fyrir sig. Það var oft mikið græjuvesen á tónleikastöðunum. Sumir staðana áttu kannski trommusett og magnara en enga hljóðnema meðan aðrir áttu kannski hljóðnema og flott hljóðkerfi en engan mixer. En staðahaldararnir voru nú ekkert að stressa sig yfir þessu og sögðu bara „Tranquilo, amigo“ sem lætur okkar ,,Þetta reddast“ algerlega blikkna í samanburði. Það var alltaf einhver vinur einhvers sem var þá ræstur út og sendur af stað með það sem upp á vantaði til að geta spilað og sá eða sú festist oft í umferð eða rigningu, því þetta var í miðju rigningatímabilinu. Það stefndi eiginlega alltaf í það í hverju giggi að við myndum hreinlega ekki spila en alltaf reddaðist það einhvernveginn fyrir rest og gerði giggið margfalt skemmtilegra fyrir vikið. En Mexikóar eru yndislegt og mjög gestrisið fólk, frábærir tónleikagestir. Alls ekki feiminn við að dansa og hrópa og hafa gaman. Landið er líka ofboðslega fallegt og mæli eindregið með að fólk heimsæki það.  

SKE: Ásamt því að skapa tónlist rekið þið Natasha einnig tísku- og lífstílsverslunina Kvartýra 49 á Laugavegi. Nú getur það varla verið auðvelt að reka tískuverslun í miðbæ Reykjavíkur. Hvernig er stemningin?

Árni: Stemningin er bara mjög góð niður í bæ. Ég tek miðbæjarrottuhlutverkið mjög alvarlega. Það er rosalega félagslegt að vera í svona verslunarrekstri. Það er alls konar fólk sem kemur inn: allt frá sérvitringum miðbæjarins, erlendum ferðamönnum og til grjótharðra tíundabekkinga með sterka tískuvitund. Maður lendir oft á spjalli við fólk—jafnvel klukkutímunum saman. Þetta er virkilega skemmtilegt. 

Ég var samt alltaf týpan sem þoldi ekki að vera inni í fataverslunum. Ég varð oft bara þreyttur og argur. Þannig að ég skil oft alveg bugaða einstaklinga sem eru á laugardagsbúðarrápinu með betri-helmingnum. Ég gef þeim bara kaffi.  

Þetta gengur samt miklu betur heldur en ég þorði að vona. Því við erum í bakhúsi á Laugavegi og ekki með búðarglugga sem snýr út að götu. Samt sem áður þá rambar mikið af fólki þangað inn og svo skemmir náttúrlega ekki fyrir að vera sýnileg á Instagram-inu. VIð erum með mikið af merkjum frá Rússlandi og Úkraínu en Natasha er einmitt þaðan. Hún sér að mestu um vöruvalið og hún á líka mikinn heiður af útliti búðarinnar og bara fyrir þetta verkefni almennt. Einnig hangir hennar eigið fatamerki á slánum sem kallast „Sushchenko“ en hún fékk einmitt „Designer of the Year (Runner Up)“ verðlaun frá Grapevine nýverið fyrir það og það hefur vakið athygli víða erlendis. 

Nánar: https://www.kvartyra49.is/

SKE: Þú ert einn af forsprökkum hlaðvarpsins Gulu Bogagöngin og því er ekki úr vegi að spyrja: Hvaða þrjú hlaðvörp eru í uppáhaldi og hvers vegna?

Árni: Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hef ég ekkert sökkt mér alltof djúpt í óravíddir hlaðvarpana. En ég var á Þýskalandstúr með Teiti Magnússyni um daginn og þá hlustaði ég mikið að hlaðvarp sem kallast Song Exploder. Það er algerlega frábær þáttur. Hann er kannski líkur Gulu bogagöngum að því leiti að það er verið að rýna í lagasmíðarnar en þarna er bara eitt lag tekið fyrir og krufið til mergjar. Þættirnir eru ekki langir en rosalega fræðandi, alveg sama hvort þú fílir listamanninn eða ekki. 

En ég er alger útvarpskall og er eiginlega bara alltaf með Rás 2 í gangi þegar ég get. Hlusta líka alltaf á rokkland á netinu, það eru líka stórgóðir þættir.  

SKE: Eitthvað að lokum?

Árni: Það er kannski bara að minnast á það að við erum að fara að skjóta myndband við lagið Exile. Aðalpersónan í myndbandinu vaknar upp og gengur um göturnar. Hún er klædd gulum flauelsjakkafötum en aðalpersónan er leikin af 12 mismunandi einstaklingum. Og til að auka aðeins á flækjustigið þá mun það verða skotið í einni töku. Þetta er algert framleiðslu áhættuatriði. 

En hann Viktor Aleksander, sem mun vera á myndavélinni er mikill fagmaður. Hann hefur skotið myndband fyrir band sem ég var í áður en það myndband fékk einmitt verðlaun á íslenskutónlistarverðlaununum árið 2016 fyrir besta myndbandið. Þannig að ég treysti honum algerlega fyrir þessu. Þetta myndband mun koma út í lok þessa mánaðar. 

Það verður auglýst síðar.  

(SKE þakkar Árna kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á plötuna Dust of Days.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram