„Alltaf ellefu leiðtogar inni á vellinum.“ – SKE spjallar við Aron Einar Gunnarsson

Viðtöl

SKE: Ef fyrirbærið „viðtal“ á sér eitthvert markmið, þá helgast það markmið – að einhverju leiti, að minnsta kosti – af því að fræðast um innri persónu viðmælandans, að uppgötva einhvern kjarna. En kjarni íþróttamannsins, kjarni afreksmannsins, fyrirfinnst sjaldnast í hinu talaða máli; að leitast við því að nálgast innsta eðli íþróttamannsins í gegnum viðtalsformið er líkt og að reyna fletta ofan af sanna eðli úlfsins með því að virði hann fyrir sér í dýragarðinum, er hann sefur værum, einsömlum svefni inni í búri sínu. Á þessi myndlíking ágætlega vel við fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, Aron Einar Gunnarsson, því þó svo að það hafi vissulega verið ánægjulegt að spjalla við þennan auðmjúka baráttumann  er hann stöðvaði sláttúrvél sína, einhvers staðar í Wales, stundarkorn til þess að spjalla – þá nýtur SKE hans, samt sem áður, best í sínu náttúrulega umhverfi: á fótboltavellinum … en hvað um það. SKE heyrði í Aroni Einari í byrjun nóvember og spurði hann nánar út í undankeppni HM, íslenskt rapp og fleira. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Aron Einar Gunnarsson
Ljósmynd: Instagram (@arongunnarsson) 

(Það er mánudagur. Klukkan er fjögur. Eftir magran undirbúning slæ ég á þráðinn til Arons Einars sem býr í Wales þar sem hann er liðsmaður fótboltafélagsins Cardiff City. Hann svarar í símann hress. Ég kynni mig og við vindum okkur í viðtalið tafarlaust. Ég byrja á sérstaklega ófrumlegan hátt.)

SKE: Jæja, hvað segirðu gott?

Aron Einar: Ég er bara mjög góður. Þýðir ekkert annað. Er að slá garðinn eins og er. Fínasta veður.

SKE: Hvernig er heilsan? 

(Aron haltraði út af vellinum síðastliðinn 13. október í leik Cardiff City gegn Birmingham.)

Aron Einar: Ég er allur að koma til. Ég reif sem sagt vöðva í ökklanum og það hefur tekið smá tíma að gróa. 

(Undirritaður spyr hvort að þjálfari Cardiff hafi kennt landsleikjahrinunni um meiðslin. Aron neitar því: „Þetta var bara atvik sem átti sér stað í leiknum sjálfum.“) 

SKE: Fylgdistu eitthvað með kosningunum?

Aron Einar: Voða lítið og ég hef takmarkaðan áhuga á þessu eins og er – en það helgast nú aðallega af því að ég bý í Wales. Ég hefði væntanlega pælt meira í þessu ef ég ætti heima á Íslandi.

(Þetta er vafalaust eitt af forréttindum þess að vera atvinnumaður í fótbolta: réttlætanleg afsökun til þess að forðast íslenska pólitík.)

SKE: Eins og frægt er orðið þá bar Heimir Hallgrímsson þig saman við Pelé og Maradona eftir sigurinn á Kósóvó. Ef þú gætir líkt Heimi saman við einhvern, hvern sem er, hvern myndirðu líkja honum við?

(Aron hlær.)

Aron Einar: Það er ekki hægt að líkja honum við neinn þjálfara, en hann
var auðvitað að grínast með þetta. Ég myndi segja að hann hefur jákvæða punkta þar sem aðrir þjálfarar hafa neikvæða punkta. Í stórum dráttum þá er þetta góður maður sem vill öllum vel. Hann hugsar vel um drengina sína.

„Emmsjé Gauti hefur ávallt verið í ákveðnu upppáhaldi, en hann er náttúrulega félagi minn.“

– Aron Einar

SKE: Þú ert mikill aðdáandi rapps, er það ekki rétt?

Aron Einar: Jú, eða ég hef, að minnsta kosti, mikinn áhuga á íslensku rappi.
Svo það sé tekið fram. Það eru aðallega Íslendingarnir sem heilla mig. Emmsjé Gauti hefur ávallt verið í ákveðnu upppáhaldi, en hann er náttúrulega félagi minn. Einnig fannst mér nýja platan þeirra JóaPé og Króla, GerviGlingur, mjög góð. Úlfur Úlfur líka, þeir eru „legends.“ 

(Ég spyr Aron út í rapparann Immo þar sem mig rámar í það að Aron hafi einhvern tímann hælt tónlist hans:)

SKE: Immo er góðvinur minn og sagði mér eitt sinn að hann hafi setið að sumbli með þér á Prikinu, fyrir einhverjum árum síðan, og var mjög upp með sér í kjölfarið.

Aron Einar: Jú, við spjölluðum saman eitt kvöldið. Mér fannst sagan á bakvið lagið Barcelona merkileg. Mér líkaði almennt vel við textana. 

SKE: Ef þú værir rappari, hvaða viðurnefni myndirðu taka upp?

Aron Einar: Sennilega bara Ronni. 

(„Þetta er mjög heiðarlegt viðurnefni,“ hugsa ég með sjálfum mér og ég spyr aðeins út í viðurnefni hans á Twitter: RonniMall. Síðari hluti viðurnefnisins á rætur sínar að rekja til Malmquist, ættarnafn Arons.)

SKE: Mikilvægasta lexía sem þú hefur lært á lífsleiðinni?

Aron Einar: Ég verð nú eiginlega að segja að ég hafi lært mikið á sjálfan mig
eftir að sonur minn fæddist. Það breytti hugsuninni gagnvart ýmsum hlutum sem skiptu mig máli þá, en skipta mig minna máli í dag. Nú til dags hugsa ég meira um að sjá fyrir fjölskyldunni; viðhorfið breyttist gagnvart öllu. Ég pæli meira í hlutunum eftir að sonurinn fæddist. Ég hugsa meira um aðra.

„Það eru margir sem hafa hætt alveg og eru sáttir með þá ákvörðun en svo eru aðrir sem sakna þess; ég veit ekki hvoru megin við línuna ég dett.“

– Aron Einar

SKE: Hvar sérðu sjálfan þig fyrir þér eftir tíu ár?

Aron Einar: Heima á Íslandi, með fjölskyldunni. Líklegast að starfa í kringum íþróttir, hvort sem það er í kringum handbolta eða fótbolta.

SKE: Að þjálfa?

AEG: Ég hef tekið eina gráðu í þjálfuninni. Það kæmi vissulega til greina en maður veit aldrei hvað manni langar til að gera. Satt að segja þá veit ég það ekki. Það eru margir sem hafa hætt alveg og eru sáttir með þá ákvörðun en svo eru aðrir sem sakna þess; ég veit ekki hvoru megin við línuna ég dett.

SKE: Þú sagðir að undankeppni HM hafi verið efiðari en undakeppni EM. Hvers vegna og hvaða leikur fannst þér erfiðastur?

Aron Einar: Það er í rauninni tvennt í þessu: Eftir allt „hype-ið“ í kringum EM var kannski erfitt fyrir liðið að gíra sig upp fyrir undankeppnina. Svo er náttúrulega langt bili á milli leikja líka. Erfiðasti leikurinn var á móti Finnum á útivelli. Maður hélt einhvern veginn að þetta væri búið. Við bjuggumst við því að lenda í öðru sæti en ekki því fyrsta.

SKE: Af hverju var hann svona erfiður?

Aron Einar: Við vissum að þeir yrðu erfiðir og vorum búnir að fara vel yfir þeirra spilamennsku. Það var stígandi í leik þeirra. Þetta var lið sem fólk var að vanmeta út af fyrri keppnum. 

SKE: Hvaða
eiginleikar í fari þínu hafa leitt til þess að fyrirliðabandið
hvílir á handleggnum þínum?

Aron Einar: Ég er fylginn sjálfum mér, en það er sama þó ég sé með fyrirliðabandið þá eru alltaf ellefu leiðtogar inni á vellinum með íslenska landsliðinu, allir tilbúnir að fórna sér fyrir málstaðinn og fyrir félaga sína í liðinu. Það einkennir liðið.

SKE: Hvers
vegna heldurðu að þú hafir skarað fram úr sem fótboltamaður?

Aron Einar: Því ég er ákveðinn að bæta mig og held að það sé hægt að segja að ég gefist aldrei upp.

SKE: Er ekkert erfitt að kúpla sig niður úr landsleikjagírnum og að fara spila með Cardiff City aftur?

Aron Einar: Nei, það er ekkert mál. Maður er búinn að gera þetta svo oft. Maður leyfir ekki pepp fílingnum að fara með sig. Ég lærði það snemma á ferlinum að maður þarf að kunna að peppa sig niður. Núna þakka ég reynslunni fyrir.

SKE: Hverju saknarðu mest frá Íslandi?

Aron Einar: Í fljótu bragði: fjölskyldunnar, æskuvinanna og íslenska matsins, sem er fjölbreyttur og góður. Vatnsins líka. Það er ekkert sem stenst samanburðinn við íslenskt vatn.

SKE: Hver kastar lengra, þú eða Sif?

(Aron hlær.)

Aron Einar: Það er góð spurning. Ég sá að einhver var að velta þessu fyrir sér á Twitter. Ég er alltaf til í keppni. 

SKE: Í viðtali fyrr á árinu sagðistu elska að horfa á sjónvarpsþætti og kvikmyndir með konunni þinni – hér eru flestir að missa vitið yfir Stranger Things. Er það sama uppi á teningnum hjá ykkur?

Aron Einar: Ég er ekki byrjaður, er kominn aðeins inn  í fyrstu seríuna. Eins og er þá erum við að horfa á Suits og höfum mjög gaman að. Kristbjörg (konan hans Arons) hefur verið að vinna mikið þannig að það hefur svo sem verið minni tími fyrir sjónvarpsgláp.

SKE: Ef þú gætir lifað þig inn í hvaða sjónvarpsþátt sem er  hvaða þáttur yrði fyrir valinu?

Aron Einar:Þetta er góð spurning, úfff … (Aron veltir þessu fyrir sér í smá stund) … ætli að ég verði ekki að segja Sons of Anarchy. 

SKE: Fínasta sería.

Aron Einar: Já, en þá aðeins í aukahlutverki. Bara einhver lítill gæji í genginu. 

SKE: Já, það er væntanlega hættulegt að vera í fararbroddi þessarar fylkingar. Áttu þér einhverja uppáhalds tilvitnun? 

Aron Einar: Nei, ég hef aldrei tileinkað mér slíkt. Þetta hefur einhvern veginn farið framhjá manni. Stórvinur okkar, hann Þorgrímur Þráinsson, fer oft með tilvitnanir fyrir leik og þau sitja eftir. Þorgrímur er góður og heldur manni á jörðinni. Það er ákveðinn bónus að hafa svona mann í kringum okkur. 

SKE: Hvernig myndirðu lýsa sjálfum þér?

Aron Einar: Vinur vina minna. Húmoristi í kringum fólk sem ég þekki. Trúr sjálfum mér.

SKE: Eitthvað að lokum?

Aron Einar: Nei, í rauninni ekki. Höfum gaman að þessu. 

(SKE þakkar Aroni Einari kærlega fyrir spjallið og hlakkar til að fylgjast með honum í Rússlandi næsta sumar. Hér er svo lagið Engar hendur með norðlenska tvíeykinu Úlfur Úlfur, en þeir eru, jú, „legends.“)

Auglýsing

læk

Instagram