Baldvin Z

Útbreiðsla íslenskra kvikmynda er alltaf að verða meiri og stærri.

Í viðtali vikunnar höldum við uppteknum þeim hætti að plaga fólk sem hefur ýmsu þarfara að sinna. Að þessu sinni er það leikstjórinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Z sem situr fyrir svörum. Baldvin hefur átt góðu gengi að fagna upp á síðkastið svo ekki sé fastar að orði kveðið. Fyrir skemmstu sópaði kvikmynd hans Vonarstræti að sér verðlaunum á Eddu-hátíðinni eftir að hafa slegið eftirminnilega í gegn í kvikmyndahúsum og hjá gagnrýnendum. Þess utan hefur Baldvin verið fyrirferðarmikill í sjónvarpsþáttagerð og fleiru. Þegar þetta viðtal er tekið er Baldvin staddur í tökum úti á landi. Það er því ekki úr vegi að spyrja hann hvað sé á döfinni hjá honum?

Sem stendur er ég að ljúka tökum á Ófærð, sjónvarpsseríu sem Baltasar Kormákur framleiðir. Þetta er frábært verkefni þar sem ég, Baltasar, Óskar Þór Axelsson og Börkur Sigþórsson skiptum á milli okkar leikstjórn á tíu þáttum undir dyggri yfirumsjón Sigurjóns Kjartanssonar sem er svokallaður „showrunner“ verkefnisins, en hann er aðahöfundur þáttanna. Svo er ég byrjaður að undirbúa þriðju seriu af Rétti. Það er mjög spennandi verkefni í framleiðslu Sagafilm. Serían mun fá rækilega yfirhalningu og við höfum blásið nýju lífi í konseptið. Andri Óttarsson og Þorleifur Örn Arnarson hafa tekið við handritsgerðinni en ég mun sitja einn við leikstjórnarstólinn og er þetta mjög krefjandi verkefni. Í sumar hyggst ég svo halda áfram með heimildamyndina mína um Reyni sterka og svo er stefnt á næstu bíómynd á næsta ári. Þannig að það er nóg að gera á næstunni.

Í ljósi þess að kvikmyndaheimurinn er orðinn ansi alþjóðlegur og íslensk kvikmyndagerð er þar ekki undanskilin langar mig að spyrja hvort þú sért eitthvað farinn að horfa út fyrir landsteinana?

Já, ég geri það að sjálfsögðu. En það verður allt gert á réttum forsendum. Ég er ekki að fara hella mér útí einhvern Hollywood-slag. Ég vil frekar einbeita mér núna að íslenskum verkefnum því ég hef nóg að gera hérna. Ef réttu tækifærin bjóðast erlendis þá mun ég stökkva á þau. Ég hef þegar fengið tvö tilboð um lítil alþjóðleg verkefni og er að skoða þau bæði sem stendur. Sjáum til.

Þannig að Ísland getur fullnægt metnaðarfullum kvikmyndagerðarmanni sem starfsvettvangur, með tilliti til fjármagns, útbreiðslu og svo framvegis?

Sem kvikmyndaleikstjóra, fullkomlega, en varðandi fjármögnun og þessháttar þá er það ansi flókið og erfitt. Svo eru laun leikstjóra hér á Íslandi ekki í neinu samræmi við vinnuframlag. Maður verður eiginlega að vera framleiðandi líka til þess að hafa eitthvað upp úr þessu fjárhagslega. Útbreiðsla íslenskra kvikmynda er alltaf að verða meiri og stærri. Það er gríðarleg fagmennska í íslenskri kvikmyndagerð og er hún alveg á pari við það sem best gerist annarsstaðar í heiminum, þá sérstaklega hvað varðar tæknivinnu. Handritsvinnan er sá liður kvikmyndagerðar sem hefur setið á hakanum. Við gefum okkur alltof lítinn tíma í að þróa handrit, en það kemur aðallega til vegna skorts á fjármagni til þróunarvinnu. En þetta er allt í þróun enda erum við kornung kvikmyndaþjóð.

Nú hefur þú unnið eiginlega jöfnum höndum við sjónvarp og kvikmyndagerð, sérðu fyrir þér að færa þig alfarið yfir í kvikmyndir eða fellur þér vel að fást við bæði svið?

Leikið efni, hvort sem er sjónvarp eða kvikmyndir, heillar mig. Bara svo lengi sem efnið er gott, metnaðarfullt og gert á réttum forsendum.

Hvar og hvernig steigstu þín fyrstu skref sem kvikmyndagerðarmaður?

Ég var 11 ára gamall þegar ég og Baldvin, æskuvinur minn, fengum kennslu í að klippa í Hljóðmyndum á Akureyri. Sigurður Hlöðversson kvikmyndatökumaður og Dyni [Steindór Steindórsson, fyrrum forstöðumaður félagsmiðstöðva á Ak., innsk.blm.] voru þar með stúdíó. Eftir það réðumst við nafni minn í að gera stuttmyndina Hraundranga, sem var einhverskonar afsprengi Tvídranga eða Twin Peaks eins og þættirnir nefnast á frummálinu.

Hlutur kvenna í íslenskri kvikmyndagerð hefur nokkuð verið til umræðu upp á síðkastið. Hvað finnst þér um þá kröfu sem nýverið var viðruð í grein í Stundinni að kynjakvóti verði settur á veitingar úr Kvikmyndasjóði?

Umræðan er þörf og góð og fær mann til þess að hugsa. Ég held þó að vandamálið liggi ekki í styrkveitingunum. Vandamálið er uppeldis- og samfélagslegt og við þurfum öll sem eitt að takast á við það og kenna börnum okkar góða siði. Ég hef oft sagt að karlmenn þori frekar að mistakast en konur, en það er ekki eðlisbundinn munur á konum og körlum heldur er það samfélagið sem hefur kennt okkur þetta. Þegar ég var að fást við músík í kringum aldamótin þá var Kolrassa stelpubandið en það voru skrilljón strákabönd. Ég held að það hafi verið af sömu ástæðu. Okkur strákunum mátti mistakast en ekki stelpunum, allavega held ég að þeim hafi oft liðið þannig. Ég held að það sé ein af ástæðum þess að strákar eru í meirihluta þeirra sem hafa hingað til þorað að taka þá fjárhagslegu áhættu sem felst í því að framleiða kvikmyndir. Við verðum að ráðast á grasrótina, hvetja stelpur til þess að fylgja draumunum sínum eftir og nota þær fyrimyndir sem við höfum. Margt af okkar öflugustu kvikmyndagerðarfólki eru konur. Þetta er að breytast hægt og rólega, en það er langt í land.

Heyr, heyr. Með þeim þörfu orðum ljúkum við samtali okkar við Baldvin, þökkum honum fyrir það og óskum honum velfarnaðar í ófærðinni.

Það er gríðarleg fagmennska í íslenskri kvikmyndagerð og er hún alveg á pari við það sem best gerist annarsstaðar í heiminum

– Baldvin Z

Auglýsing

Instagram