Björk gefur út nýtt myndband: „Losss“—„goðsögn í lifandi lífi“

Fréttir

Í gær (6. júlí) gaf íslenska tónlistarkonan Björk út myndband við lagið Losss (sjá her að ofan). Lagið er að finna á plötunni Utopia sem kom út árið 2017. Tobias Gremmler leikstýrði myndbandinu en hann kom einnig að gerð myndbandsins Tabula Rasa sem kom út fyrr í sumar. 

Í texta sem fylgir myndbandinu á Youtube þakkar Björk Gremmler samstarfið:

„Það er enginn sem fangar holdlega nautn á stafrænan hátt eins og Gremmler. Hann er svo fágaður og tjáningarríkur. Myndbandið var framleitt með Cornucopia-sýninguna í huga, þar sem við vorum með fjölmarga skjái, en hér verða áhorfendur að sætta sig við fartölvuna … myndbandið grundvallast á samræðum milli bölsýnismanns og bjartsýnismanns. Þegar ég hljóðritaði lagið tók ég upp tvær raddir: annars vegar dýpri rödd fyrir bölsýnismanninn (í vinstri hátalaranum) og hærri rödd fyrir bjartsýnismanninn (í hægri hátalaranum). Ef þú hlýðir á lagið með heyrnartólum þá samræmast raddirnar myndefninu.“

– Björk

Myndbandið hefur hlotið góðar viðtökur; netverjar hafa skoðað myndbandið rúmlega 100.000 sinnum frá því að það kom út (fyrir hálfum sólarhring síðan). Eins og einn notandi Youtube orðaði það: „Björk er goðsögn í lifandi lífi. Hún er mesti listamaður okkar kynslóðar.“

Að lokum má þess geta að Björk fer með sýninguna Cornucopia til Mexíkó næstkomandi 17. ágúst þar sem hún kemur fram fjórum sinnum í Parque Bicentenario almenningsgarðinum. 

Auglýsing

læk

Instagram