Danir „bullandi óeirðaseggir“ þegar þeir eru fullir—SKE spjallar við Iris Gold

Viðtöl

SKE: Á meðan hann lifði gekk bandaríski leikarinn Steve McQueen undir viðurnefninu „The King of Cool;“ sagan segir að McQueen hafi safnað samtals 37 hraðasektum í Munchen—á meðan hann lék í kvikmyndinni „The Great Escape“—og að hann hafi hafnað aðalhlutverkum í kvikmyndum á borð við „Dirty Harry,“ „Ocean’s 11“ og „The French Connection.“ Þá var McQueen einnig líkmaður í jarðarför Bruce Lee. Vísaði ónefndur aðdáandi McQueen í þessar staðreyndir viðurnefni McQueen til stuðnings. Hvað sem því líður: Meðal þeirra tónlistarmannna sem hafa heiðrað minningu McQueen er indversk-jamaíska tónlistarkonan Iris Gold (í lagi sem heitir í höfuðið á leikaranum). Og óneitanlega er Iris Gold ansi svöl sjálf, syngur og rappar listavel. Sviðsframkoman er ekki síðri. Gold ólst upp í Kaupmannahöfn og Lundúnum og hefur getið sér gott orð á sviði tónlistar undanfarin misseri. Hún stígur á svið í Salnum í Kópavogi í kvöld, ásamt BlazRoca, Cell7, Hugin, Herra Hnetusmjör, Lilla Namo og Raske Penge. Í tilefni þess hafði SKE samband við söngkonuna og spurði hana spjörunum úr.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Iris Gold

SKE: Sæl, Iris. Þú spilar í Salnum í kvöld. Hvernig kom það til? Og er þetta í fyrsta skipti sem þú spilar á landinu?

Iris Gold: Þetta er í fyrsta skipti sem ég spila á Íslandi. Vinur minn Gísli, sem samdi All I Really Know með, er frá Íslandi og hann er búinn að segja mér helling af skemmtilegum hlutum um Ísland. Ég er mjög spennt.

SKE: Við hverju mega áhorfendur búast?

IG: Ég býst við því að þetta verði mjög kynþokkafullt og mjög uppskrúfað.

SKE: Ætlarðu að dvelja lengi hér á landi og ertu búin að skipuleggja eitthvað sérstakt?

IG: Ég verð bara í einn dag. Ég spila á tónleikunum í kvöld og vona svo að tími gefist til þess að skoða mig um, þ.e.a.s. morguninn áður en við fljúgum aftur heim. 

SKE: Hvaða íslenskir tónlistarmenn eru í uppáhaldi hjá þér?

IG: Augljóslega Björk! En ég spilaði með Rauði (Auði Viðarsdóttur) í Lundúnum í fyrra og hún var frábær. 

SKE: Bakgrunnurinn þinn er svolítið heimsborgaralegur. Þú ert ættuð frá Indlandi og Jamaíku en ólst upp í Kaupmannahöfn og Lundúnum. Danirnir eru stundum, að mati Íslendinga, svolítið stífir og vilja gjarnan skipuleggja hlutina um of; finna þessir fordómar sér einhverjan hljómgrunn í þinni reynslu?

IG: (Hlær). Já, nema þegar þeir eru fullir—þá eru þetta bullandi óeirðaseggir.

SKE: Hefurðu eitthvað annað á móti Dönunum (okkur þótti gaman að heyra).

IG: Þeir mættu kannski dansa meira og brosa meira. Það væri ágætt.

SKE: Ef þú yrðir að lýsa sjálfri þér sem kvikmyndapersónu á áttunda áratugnum, hvernig myndi sú lýsing  hljóma?

IG: Friðarsinnaður braskari beint frá plánetunni Kúl („a peace-pushing hustler straight outta planet Cool“).

SKE:  Vinsælustu lögin þín eru All I Really Know og Colour Trip, að minnsta kosti á Spotify. Persónulega höllumst við frekar að Steve McQueen. Hvað er uppáhalds lagið þitt eftir sjálfa þig og hvers vegna?

IG: Líklega lagið Wow vegna þess að það er svo uppfullt af orku. Ég elska að flytja lagið á sviði. Mér líður stundum eins og Tina Turner eða Mick Jagger í þær þrjár mínútur sem lagið varir. 

SKE: Við heyrðum að Taylor Swift væri meðal aðdáenda þinna. Er það rétt?

IG: Já, svo segja þeir. 

SKE: Eitthvað eitt lag sem allir jarðbúar ættu að heyra? Og hvers vegna?

IG: Everybody Loves the Sunshine eftir Roy Ayers. Lagið getur breytt rigningardegi í sólardag og fær mig ávallt til að brosa.

SKE: Uppáhalds tilvitnun eða textabrot?

IG: „One thing about music: when it hits you feel no pain.“—Bob Marley

SKE: Hvernig lítur venjulegur dagur í lífi Iris Gold út? 

IG: Ég er mjög svo upptekin—en byrja þó alla daga með stuttri hugleiðslu.

SKE: Við elskum bækur á Íslandi; sagt er að einn af hverjum tíu Íslendingum komi til með að skrifa bók á ævinni (flestar þeirra fremur slæmar). Hvaða bók eða höfundur hefur haft hvað mestu áhrif á þitt líf?

IG: Ég er satt að segja mjög ástfangin af bókinni My Infamous Life eftir Prodigy heitinn í Mobb Deep. 

SKE: Að lokum: Værirðu til í að líta við í hljóðver SKE í stutt session? 

IG: Engin spurning. Verðum í bandi þegar ég lendi. 

(SKE þakkar Iris Gold innilega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að láta sjá sig í Salnum í Kópavogi í kvöld. Hér er svo myndband við lagið „Keep the Light On“ eftir Iris Gold.

Auglýsing

læk

Instagram