„Eflaust ekki margir sem semja ’80s tónlist á Íslandi í dag.“ – SKE spjallar við The Retro Mutants

Viðtöl

SKE: Bandaríkjamaðurinn John Koenig stýrir Youtube-rásinni  sem og heimasíðunni  „The Dictionary of Obscure Sorrows“ þar sem hann leitast við að semja nýyrði fyrir áður óskilgreindar tilfinningar. Meðal þeirra nýyrða sem Koenig hefur búið til er orðið „Sonder“ („að átta sig á því að allir eigi sína eigin sögu“), „Onism“ (að verða skyndilega meðvitaður um hversu lítinn hluta af heiminum maður á til með að upplifa) og „Koinophobia“ (hræðslan við að vera venjulegur). Nýverið var Koenig gestur hlaðvarpsins The Ted Radio Hour þar sem kafað var ofan í uppruna orðsins „Nostalgia,“  en þetta merkilega orð (sem samanstendur af grísku orðunum „nóstos“ sem merkir “heimkoma,“ og „álgos“ sem merkir „sársauki“) á rætur að rekja til 17. aldarinnar þegar ungur læknanemi bjó til orðið til þess að lýsa þeirri lífshættulegri heimþrá (sumsé þeim „sjúkdómi“) sem hrjáði svissneska málaliða í láglendi Frakklands eða Ítalíu; sagt er að sumir hafi þráð svissnesku Alpanna svo heitt að þeir hafi hreinlega látist. Ekki er víst hvort að meðlimir sveitarinnar The Retro Mutants, líkt og fyrrnefndir leiguhermenn, líði jafn banvæna nostalgíu – innan um flatlendi nútíma dægurlagatónlistar – þegar þeir hugsa aftur til níunda áratugsins, en eitt er þó víst: The Retro Mutants elska ’80s … Í tilefni útgáfu plötunnar „History“ sem sveitin gaf út fyrir stuttu, heyrði SKE í Bjarka Ómarssyni (trommuleikara sveitarinnar) og forvitnaðist um tónlistina, plötuna og ýmislegt annað.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Bjarki Ómarsson (fyrir hönd The Retro Mutants)

SKE: Já, góðan daginn, Retro Mutants. Hvað segið þið gott?

Bjarki Ómarsson: Góðan dag. Við segjum allt ljómandi gott, takk fyrir.

SKE: The Retro Mutants er ansi sérkennilegt nafn. Hver er sagan á bak við nafnið?

BÓ: Við bjuggum til smá concept við gerð okkar fyrstu LP plötu (sem ber heitið The Retro Mutants og heitir í höfuðið á hljómsveitinni). Við gerðum smá sögu í myndbandinu við lagið I Will Be Fine. Myndbandið segir alla söguna betur en orð geta lýst þannig að við hvetjum alla til að tékka á myndbandinu okkar á Youtube.

SKE: Fyrir þá sem ekki þekkja til sveitarinnar, hverjir mynda The Retro Mutants?

BÓ: „Live Lineup:“ Viktor (söngur), Bjarki (trommur), Arnar (DJ), Karlotta (gítar).

SKE: Þið voru að gefa út EP plötuna History. Er ykkur mjög annt um sagnfræði almennt eða vísar titillinn í eitthvað annað?

BÓ: Sagnfræði … nei ekki beint (haha). Þó svo að við leggjum mikla ástríðu og vinnu í að semja góða tónlist þá erum við ekkert að velta okkur mikið upp úr einhverjum öfga djúpum pælingum hvað textagerð varðar. Oft og tíðum, hins vegar, veljum við nöfn á lögin sem svona vinnuheiti. Síðar semur Viktor eitthvað og við finnum tenginguna. Það kemur oft mjög skemmtilega út.

SKE: Hvað voruð þið lengi að semja plötuna og, í stuttu máli, hvernig er sköpunarferlið?

BÓ: Ég og Viktor semjum tónlistina og ferlið hjá okkur er alveg hálf-töfrandi, ef svo má að orði komast. Þegar kemur að því að skapa eitthvað með öðrum – hvort sem það er tónlist, kvikmyndir, föt, eða hvað það nú er sem fólk er að skapa – koma oft upp flækjur sem þarf að leysa úr; fólk er að setja hjartað í hluti og er kannski ekki alltaf á sömu blaðsíðu með allt, sem er auðvitað eðlilegt – en hjá okkur Viktori þá einhvern veginn flæðir þetta bara. Við erum einhvern veginn alltaf á sömu blaðsíðu. 

SKE: Hljóðheimur plötunnar er augljóslega mjög ’80s. Hvaðan kemur þessi ástríða fyrir ’80s tónlist?

BÓ: Eflaust foreldrar með gott input. Það er einhver hljóðheimur og fílingur í ’80s músík sem heillar. Oft og tíðum eru lögin heill frumskógur af heillandi sound-um – og það virðast ekki vera neinar reglur um það hvað fer saman: panflautan og klassíski gítarinn geta dansað skemmtilega við neon synth-ana í takt við rokktrommu sound-ið … nei, ég segi svona; þetta er bara eitthvað svo heillandi.  

SKE: Hvað aðgreinir ykkur frá öðrum sambærilegum sveitum – eða öðrum sveitum almennt?

BÓ: Góð spurning. Það eru eflaust ekki margir sem semja tónlist sem ’80s tónlist á Íslandi í dag – en það elska allir þessi nostalgíu sound. Svo er hann Viktor líka bara með alveg æðislega rödd sem er ekki leiðinlegt að hlusta á.

SKE: ’80s tónlist hefur notið ákveðinna vinsælda undanfarin misseri, t.d. í kvikmyndunum Drive og Guardians of the Galaxy, sem og í sjónvarpsseríunni Stranger Things. Að ykkar mati, hvert er besta ’80s lagið á þesskonar soundtrack-i?

BÓ: Besta ’80s lagið á soundtrack-i er alltaf lagið Crockett’s Theme eftir Jan Hammer úr Miami Vice (svo er lagið I 2 I eftir Tevin Campbell úr kvikmyndinni A Goofy Movie líka sterkt en það kom út á tíunda áratugnum, þrátt fyrir mikið ’80s vibe.)

SKE: Hvað er framundan fyrir The Retro Mutants?

BÓ: Það er tónlistarmyndband í vinnslu fyrir lagið Sandra af plötunni okkar og svo er það auðvitað Secret Solstice tónlistarhátíðin í sumar.

SKE: Er eitthvað eitt lag eða ein listakona/maður sem hefur haft hvað mestu áhrif á ykkur?

BÓ: Phil Collins – allt með honum. Það er ómögulegt að velja á milli laga.

SKE: Nú er Sónar rétt handan við hornið. Ætlið þið á hátíðina?

BÓ: Klárlega á næsta ári. Vonandi verðum við á meðal þeirra sem koma fram.

(SKE þakkar The Retro Mutants kærlega fyrir spjallið og mælir eindregið með laginu “Sandra“ sem og EP plötunni “History“ eins og hún leggur sig. Hér er svo meistari Phil Collins í slagtogi með beinagrindabófunum frá Cleveland. („Oh, Philly – take me home.“)

Auglýsing

læk

Instagram