„Ég er erfiður maður þessa dagana.“ – Roots Manuva

Auglýsing

SKE: Hinir trúræknu horfa handan
þessa heims og í átt að „næsta heimi,“ og gerir það mann
hryggan að hugsa til þess hversu margir hafa fórnað lífi sínu í
þágu tilvonandi framhaldslífs. Og gildir hið sama fyrir okkar
kynslóð, en hún horfir í gegnum
heiminn og í átt að símanum
– og
veldur það manni jafn mikilli sorg, að hugsa til þess hversu
miklum tíma við höfum sólundað,
pírandi augunum í átt að
álíka fölskum, manngerðum heimi … síðastliðið
föstudagskvöld settist SKE niður með breska rapparanum Roots
Manuva á ónefndu
hóteli við
Ingólfstorg. Tilefnið
var væntanlegir tónleikar rapparans á Secret Solstice hátíðinni í Laugardalnum en Roots
Manuva er oft og tíðum talinn vera einn áhrifamesti rappari
Bretlandssögunnar; á ferli sínum hefur hann gefið út níu
hljóðversplötur og starfað með þekktum listamönnum á borð
við Gorillaz, Jamie Cullum, Massive Attack, DJ Shadow og Fun Lovin’
Criminals. Ræddum við
meðal annars áhrif aukins
hraða tæknisamfélagsins á
listina en hann er á þeirri skoðun að þetta sé af hinu góða.

Viðtal:
RTH

Viðmælandi: Rodney Smith
Ljósmynd: Youtube (Let the Spirit Move You)

(Klukkan
er sjö á föstudagskvöldi. Skýin hjúfra sig upp að hvert öðru
líkt og dökkklæddir syrgjendur í jarðaför, sem seinna um
kvöldið eiga eftir að gráta hressilega – en gegn tárum skýjanna virka brennivínstár best. Ég geng í átt að
fyrrnefndu hóteli og kem auga á þeldökkan mann með sixpensara
sem gengur hnarrreistur í gegnum dyr hótelsins. Hann kynnir sig sem
Roots Manuva fyrir geðugum bílstjóra sem stendur úti á götu.
Mér finnst þetta ekkert líkt Roots Manuva en ákveð þó að
spyrja, til vonar og vara: „Afsakaðu, Roots?“).

Ónefndur
maður með sixpensara: Ert þú blaðamaðurinn?

Auglýsing

SKE:
Já.

Ónefndur
maður með sixpensara: Fylgdu mér. Hann er rétt ókominn.

(Maðurinnn
fylgir mér inn um dyr hótelsins og segir mér vinsamlegast að bíða í
anddyrinu. Ég fæ mér sæti í fínum leðursófa andspænis móttökunni
og byrja að renna í gegnum spurningalistann. Ég hafði ekki nema
klukkustund til þess að undirbúa mig og er því ekki eins
undirbúinn og ég hefði viljað vera. Skömmu seinna gengur Roots
Manuva inn – hinn rétti Roots Manuva – kynnir sig og fær sér sæti mér við hlið. Hann er
með svartan harðkúluhatt á höfðinu og mér finnst eins og að hann hafi
grennst. Umboðskonan hans tyllir sér okkur við hlið. Ég byrja á því
að spyrjast fyrir um komu hans og hversu
lengi dvöl hans á Íslandi varir. Hann segist hafa lent í morgun
og komi til með að yfirgefa eyjuna snemma í fyrramálið.)

RM: Þetta er inn
og út – geðveikislegur þeytingur.

(“It’s
a mad rush,”
segir hann.
Roots er þekktur fyrir mjög
lifandi og liðugan talanda og er það strax mikil nautn að
hlusta á hann tala.)

SKE: Ertu
spenntur fyrir tónleikunum í kvöld?
 

RM: Að sjálfsögðu.
Það er langt síðan að ég kom síðast til Reykjavíkur. Ætli
að það hafi ekki verið um 1997. Þá dvaldi ég hér í u.þ.b. átta daga og gerði svo
margt: Ég fór í háskólapartí, einkapartí, hljóp upp og niður
göturnar – en ég rata nú ekki neitt lengur. Einnig fór ég í
Bláa Lónið.

SKE: Nú, jæja.

RM: Ég fór á
skíði – þó svo að ég sé nú vonlaus á
skíðum – en af einhverjum ástæðum var enginn snjór:
Árið sem ég ákveð að koma til Íslands er enginn snjór.

SKE:
Finnst þér Ísland hafa breyst síðan
þá?

RM: Já, að
sjálfsögðu. Það er fleira fólk að koma – það er meiri
fjölmenning – að einhverju leyti er þetta svolítið sorglegt:
Bretarnir eru hérna, Ameríkanarnir eru hérna, það hópa sig
allir saman.

(Ég segi að þetta sé eins og innrás –
og meina þá að þetta sé „öfug“ innrás, að því leyti að
yfirleitt fylgja öllum innrásum fimm fyrirbæri: rán, dauði,
þrælahald, áróður og eyðing – en túristinn hefur ekki, að
mínu viti, rænt neinn einasta Íslending, öllu heldur leyfir hann
íslenskum kaupmönnum að ræna sig. Einnig hefur túristinn
ekki myrt neinn einasta Íslending, þess í stað er það hann,
túristinn, sem deyr – og þá yfirleitt af völdum hvikullar
íslenskrar náttúru,
og þannig er eins
farið með hin þrjú fyrirbærin,
o.s.frv.)

„Á annan bóginn er tónlistin frábær, því að hún er svo fjölbreytt – en á hinn bóginn getur þetta verið hálf sorglegt.“

– Roots Manuva um rapptónlist í dag

SKE: Hvað finnst þér um rapptónlist í dag? 

RM: Á annan bóginn er tónlistin frábær, því að hún er svo fjölbreytt – en á hinn bóginn getur þetta verið hálf sorglegt. En í stóra samhenginu, hvað áhrif sjálfstætt starfandi rapptónlistarmanna varðar, þegar þú hugsar til rapparanna á vesturströndinni, til dæmis, og nú man ég engin nöfn ….

SKE: Eins og Kendrick?

RM: Já, eins og Kendrick, en þó – Kendrick er ekki óháður plötufyrirtækjunum lengur en hann á þó engu að síður rætur að rekja þangað. Þetta er hressandi en þetta hefur alltaf verið vandamál frá tímum Biz Markie og Big Daddy Kane: Þessi allsherjarstuldur stíla. Þegar RZA stofnaði Wu-Tang, til dæmis, og sameinaði alla þessa litlu hópa, þá fóru allir að gera það sama. 

(Roots Manuva er sjálfur þekktur fyrir það að hafa ítrekað snúið baki við stóru plötufyrirtækjunum og fyrir það að hafa haldið tryggð við plötufyrirtækið Big Dada alla tíð. Þetta er hugsjónarmaður mikill.)

SKE: Hlustarðu ennþá á Rakim? Ég las einhvers staðar að hann væri uppáhalds rapparinn þinn.

RM: Vitaskuld. Hann hefur mikil áhrif á mig enn þann daginn í dag. Ekkert endilega hvað skemmtunargildi varðar, en hann metur orðið fyrst og fremst – orðið og bítið. Aðrir hafa bætt sínum þráðum við munstrið, hvað Hip-Hop varðar, en það er ekki bara það að rappa …

(Síminn minn hringir. Ég biðst afsökunar. Samtalið tekur beygju í átt að Missy Elliott.) 

RM: Í hvert skipti sem Missy Elliott gefur út nýja tónlist þá breytir hún stefnunni og án hennar væri Nicki Minaj ekki til – vegna þess að Missy Elliott bjó til þetta rými. Timbaland sem pródúsent, og sem listamaður, var orðinn þreyttur á röppurum (áður en hann kynntist Missy) því að þeta geta allir rappað. Svo ertu einnig með listamenn eins og Drake, og það er sama hvað manni finnst um Drake, þá hefur hann samt sem áður sýnt okkur aðra hlið peningsins (stefnunnar) – það sama á við Chance the Rapper. Mér finnst þetta spennandi. Þó svo að það sé mikið um slæma umfjöllun þá er rappið samt að selja og er að nýta sér tæknina. Rapptónlist, sem tónlistarstefna, er tæknilegs eðlis. 

SKE: Já, það má segja að rappið hafi ávallt verið á hnífsblaði tækninnar …

(Við komum aðeins inn á íslenskt rapp.)

SKE: Á Íslandi hefur rappið aldrei verið stærri en í dag; það liggur við að íslenskir rapparar gefi út nýtt tónlistarmyndband á hverjum degi.

RM: Já – og að sökum tækninnar. Þú getur keypt fína myndavél fyrir 200 dollara í dag og þú getur stofnað Youtube rás fyrir engan pening.

SKE: Þetta er orðið svo auðvelt.

RM: Ég myndi nú ekki segja að þetta sé auðvelt; fólk hefur ekki eins mikinn tíma í dag. Líftími einstakra laga er styttri. 

„Ég er 44 ára gamall og hef verið að búa til tónlist frá því að ég var sjö ára gamall.“

– Roots Manuva

SKE: Akkúrat. 

(Ég hugsa til bókarinnar Veröld sem var eftir Stefan Zweig. Í bókinni er að finna magnaða lýsingu á franska myndhöggvaranum Rodin, en þegar Zweig heimsækir Rodin á vinnustofu sína í bókina þá dettur sá síðarnefndi í algjöran ham: klæðir sig í hvíta sloppinn, dembir sér í nýjasta verkið sitt og dettur út í góðan klukkutíma. Rodin gleymir meira að segja að Zweig sé þarna á stofunni með honum. Eftir þennan klukkutíma gengur Rodin út og er við það að skilja Zweig eftir, þangað til að Zweig minnir á sig. Gefur Zweig það í skyn að þetta sé í raun kjarni listarinnar: Hún krefst svo rosalega mikillar einbeitingar og tíma. Þetta er, að mínu mati, eitthvað sem við erum við það að glata í dag: Hefði snjallsíminn ekki skemmt fyrir þessari einbeitingu Rodin?

RM: Synir mínir, um leið og þeir skapa eitthvað, þá vilja þeir birta það á Youtube undireins.

SKE: Mér finnst eins og að við höfum glatað þessum langtíma hugsunarhætti – við erum ekki eins langsýn. 

RM: Já, en í gamla daga þá þurfti maður að fara í hljóðverið, kaupa segulband, tylla sér með hljóðmanninum, hugsa um hlutina – en í dag þá geta frændur mínir eða synir einfaldlega sest fyrir framan tölvuna, búið til takt og rappað. Svo vilja þeir birta þetta á Youtube undireins. Svo gleyma þeir þessu. Viðhorf þeirra til listarinnar er á allt öðrum hraða …

SKE: Er það ekki slæmt? 

RM: Ég held ekki, þetta er bara öðruvísi. Ég er 44 ára gamall og hef verið að búa til tónlist frá því að ég var sjö ára gamall og hef reynt að temja mér fagmennsku frá því að ég var 15 ára gamall, sem var í fyrsta skiptið sem ég fékk greitt fyrir að koma fram – 45 dollara. Þetta voru ekki góðir tónleikar – en ég fékk þó borgað. Ég kom með þennan pening í skólann og sýndi öllum samnemendum mínum: „Sjáið þið! Sjáið þið peninginn!“

(Við hlæjum.) 

SKE: Ég hlustaði á lagið Stolen Youth áðan. Sumar línurnar eru svo ljóðrænar, svo fallegar, til dæmis, „Tongue kiss the chaos.“ Mig grunar að þú sért mikill lestrahestur – er það rétt? Áttu þér einhverjar uppáhalds bækur? 

RM: Já, ég er, til dæmis, hrifinn af bókinni Ég veit af hverju fuglinn í búrinu syngur eftir Maya Angelou. Ég er hrifinn af bókinni Small Island eftir Andrea Levy, þó svo að sú bók raski ró minni verulega.

SKE: Langston Hughes?

RM: Ég þekki hann ekki.

SKE: Hann tilheyrir hinu svokallaða Harlem endurreisnartímabili New York (“Harlem Renaissance”): virkilega fallegt skáld.

RM: En ég er hrifinn af Linton Kwesi Johnson. 

SKE: Já, kannast við nafnið. 

RM: Hann var „dub“ ljóðskáld, fæddur í Jamaíku en býr í Bretlandi. Nýverið gaf hann út hjá Penguin, heitir forlagið ekki Penguin?

SKE: Penguin Books? Jú, það getur verið. 

RM: Sú bók er torskilin sökum þess að hann styðst mikið við jamaískt sveitamál (“patois”) …. 

(Umboðskona RM grípur fram í.) 

Umboðskona: Klukkuna vantar tuttugu mínútur í átta …

RM: Þurfum við að fara? 

SKE: Fimm mínútur í viðbót? 

RM: Allt í lagi. 

„Þetta er mikið leyndarmál og ég tala ekki um þetta. Ég tala ekkert um þetta. Ég veit ekki hvernig þú komst að þessu.”

– Roots Manuva um Tottenham

SKE: Ertu fótboltaaðdáandi? Ég heyrði að Tottenham væri liðið þitt? 

RM: Hvernig vissirðu það? 

SKE: Ég las það einhvers staðar.

RM: Þetta er mikið leyndarmál og ég tala ekki um þetta. Ég tala ekkert um þetta. Ég veit ekki hvernig þú komst að þessu.

(Hann virkar svolítið óánægður með þessa uppgötvun mína, en ræðir þetta, engu að síður, aðeins nánar.)

RM: En já, ég er aðdáandi Tottenham. En frægðardagar mínir eru löngu liðnir. Það var langt síðan: ’82 eða ’83, á dögum Garth Crooks og Chris Hughton … þetta voru hetjurnar mínar.

SKE: Sástu leik Íslands og Englands í fyrra?

(Þetta er leiðinleg og fyrirsjáanleg spurning – og skammast ég mín um leið fyrir að hafa minnst á þetta. Ég gæti alveg eins hafa beðið hann um að taka Víkingaklappið.) 

RM: Nei, það gerði ég ekki. 

SKE: Nú jæja, þá ætla ég ekki að tala um þetta. Ég veit að Englendingar hafa átt í miklu basli undanfarið …

(Roots hlær.) 

Umboðskona RM: Tölum nú ekki um enska landsliðið; þetta er viðkvæmt viðfangsefni. 

(Það er smá pirringur í rödd hennar, skiljanlega.) 

RM: Mjög viðkvæmt. 

Umboðskona RM: Mörg ár eru liðin frá 1966 (það var árið þegar Englendingar voru heimsmeistarar síðast). 

SKE: Afsakið … síðasta platan þín ber titilinn Bleeds og þú sagðir að þetta væri tilvísun í kjarna listarinnar, líkt og Hemingway sagði: „Það er auðvelt að skrifa, maður sest einfaldlega fyrir framan ritvélina og blæðir.“ Eftir hverju sækist þú þegar þú ert að skapa? Er þetta sérstakur tónn? Sérstakt andrúmsloft? Sérstök tilfinning? 

RM: Já, allt þetta. Ég leitast eftir ákveðnum tón, ákveðnu andrúmslofti, ákveðinni tilfinningu en ég er einnig að reyna finna aðra hlið sannleiksins og er að reyna koma auga á eigin sannleik. Stundum er þetta öfugt og mig langar að tala mál hins venjulega borgara, mál föður sem kann að bjarga sér, eða móður sem getur ekki bjargað sér. Móður sem bjargar sér. Þetta breytist alltaf. Stundum set ég mig í spor barnsins – því að sjálfur á ég börn. Stundum skapa ég frá þeirra sjónarmiði vegna þess að börn eru krefjandi. Oft og tíðum langar þeim í meira og meira og meira og við sem foreldrar vitum ekki alltaf hvernig best sé að uppfylla þarfir þeirra. Við erum alltaf, sem foreldrar, að reyna finna okkar eigin rými, án þess að verða bara að feðrum eða mæðrum … 

(Þetta minnir mig á hugtakið Bad Faith frá Sartre, sumsé sú hugmynd Sartre að það sé eitthvað andstyggilegt við þjón sem glatar eigin karakter þegar hann setur á sig svuntuna, til dæmis. Ætli þetta sé ekki sérstaklega andstyggilegt fyrir listamanninn, sem þrífst á sjálfstæðri, skapandi hugsun?) 

RM: Foreldrahlutverkið tekur aldrei enda. 

SKE: Ertu með einhver heilræði handa ungum listamönnum, röppurum eða tónlistarmönnum á Íslandi? 

RM: Ég myndi segja að þú verður að halda í trúna og trúa á Hip-Hop-ið og halda áfram að læra og nema. Þegar þú skuldbindur þig við rappið þá verðurðu að vita að þetta er svo miklu stærra en þú. Þetta er stærri mynd og þetta er stór heimur. Í kjarnann, með tæknina, þá er þetta stærra en þú gætir imyndað þér. Hvort sem þú ert að koma fram á „Open Mic“ kvöldum, eða ert að gefa út diska eða vínylplötu, eða að spila á tónleikum fyrir framan tvær manneskjur eða tvö hundruð manneskjur – þá er þetta allt lífsnauðsynlegt hvað vistfræði rapps varðar. Og rapp er sú stefna sem samanstendur af öllum öðrum stefnum. “Sky’s the limit” – allt getur gerst. 

SKE: Þannig það sem þú ert að segja er að við ættum að vera meðvituð um sögulegt samhengi rapps og um fyrirrennara okkar? 

RM: Ég er að segja að þú verður að sýna því áhuga. En passaðu þig á tískudellum; um leið og dellurnar koma eru þær að fara. Mörg stórfyrirtæki ætla sér að græða á tískudellum en það gengur yfirleitt ekki. Markaðurinn segir allt í einu: „Nei!“ 

SKE: Skammsýni frjálsra markaðra? 

RM: Rappið er spennandi vegna þess að eina stund átt þú allt og á næstu stund áttu ekkert. Ég hef þekkt svo marga listamenn sem hófu ferilinn undir verndarvæng mæðra sinna en fengu svo tilboð um eitthvað stærra og voru fullvissir um að þeir mundu slá í gegn en svo féll botninn úr þessu öllu saman.

SKE: Sorglegt. 

RM: Þetta er mjög hverfull bransi. 

SKE: Hvernig gengur þér að rækta garðinn þinn?

(Fyrir viðtalið las ég viðtal við Roots Manuva í The Independent þar sem hann sagðist vera fluttur frá London til Surrey þar sem hann stundar garðyrkju af miklu kappi.) 

Nánar: https://www.independent.co.uk/a…

RM: Ég reyndi, á þeim tímum sem ég átti garð. En eins og stendur er ég fluttur inn til pabba en hann segjast ætla henda mér út.

SKE: Mér þykir það leitt. 

RM: Ég er erfiður maður þessa dagana (“I’ve got attitude problems at the moment”). Mig langaði að gróðursetja plöntur fyrir hann en hann hefur ekki mikinn áhuga. Hann er með runna í garðinum fyrir framan húsið sem hann snyrtir þó reglulega.

SKE: Ég skil, mér þykir það leitt. 

Umboðskona RM: Við verðum að fara.

(Það er stutt í það að Roots eigi að stíga á svið í Laugardalnum og þakka ég því honum kærlega fyrir spjallið og leyfi honum að fara. Ég eyði kvöldinu í að hugleiða hvað það þýði að Roots Manuva, listamanni sem er gjarnan lýst sem einum merkilegasta rappara Bretlands (The Independent, 2015) og einni merkilegustu röddu breskrar popptónlistar, á undanförnuum tveimur öldum (The Guardian, 2015), sé fluttur inn til föður síns – sem vill jafnframt losna við hann. Þetta er furðulegur heimur.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram