Ekki fleiri fingur „fokið af“—Viljar Niu gefur út „Tek upp byssu“ (Viðtal)

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Það verður að teljast fremur óvanalegt fyrir þrjátíu og þriggja ára íslenskan miðstéttarblesa að klöngrast fram úr rúminu, árla mánudags, og raula í sífellu: „Ég tek upp byssu, hleð af vissu, tek upp byssu, hleð af vissu,“ en sú var, engu að síður, raunin í morgun. Hefði einhver utanaðkomandi getað hlerað þessa hljóðlátu endurtekningu hugans hefði sá hinn sami eflaust getið sér til um að hér væri á ferðinni harðbrjósta geðvillingur sem hefði tekist að leyna siðleysi sitt fyrir auðtrúa almúganum—en sú ályktun hefði verið röng. Þetta var ekki kaldrifjuð hefndarmantra, heldur meinlaust viðlag og hefði undirritaður munað restina af textanum hefði þetta eflaust hljómað vammlaust með öllu: Ég tek upp byssu, hleð af vissu, ég hleypi úr saklausriTÚTTUBYSSU. Um er að ræða viðlag lagsins Tek upp byssu sem rapparinn Viljar Niu gaf út nú á dögunum, sem er svona helvíti grípandi. Myndband lagsins, sem Viljar skaut heima hjá ömmu sinni, er sérstaklega hjartnæmt. Það er með öllu laust við þá sýndarmennsku og það glys sem gjarnan einkennir mörg nútíðarrappmyndbönd. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Viljari Niu og forvitnaðist um lagið og lífið. Gjörið svo vel.  

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Viljar Dreki Niu Mar
Ljósmynd: Elvar Örn Egilsson

SKE: Sæll Viljar, hvað segirðu þá?

Auglýsing

Vilja Niu: Ég segi hið fínasta þessa dagana.

SKE: Ertu nokkuð búinn að missa fleiri fingur síðan að við
spjölluðum síðast?

VN: Nei, það hafa nú ekki fleiri fokið af en ég er með fyndið plan ef ég myndi nú missa einn í viðbót. Þar sem Viljar Átta hljómar ekkert rosalega vel þá myndi það samt virka ef ég sný því við í Átta Viljar. Það finnst mér skondið.

SKE: Þú varst að gefa út lagið Tek upp byssu. Myndbandið var tekið upp hjá ömmu þinni, sem virkar óneitanlega sem afar viðkunnanleg kona. Eru þið miklir mátar?

VN: Ég og amma erum miklir vinir. Ég veit ekki hvað ég myndi gera án hennar. Ég er afar mikill ömmustrákur. Hún spilaði stóra rullu í minni uppölun og má segja að hún sé ennþá að sinna því hlutverki.

SKE: Undirritaður er mikill ömmustrákur sjálfur og finnst því eitthvað sérstaklega fallegt við þetta myndband. Kaninn myndi eflaust styðjast við orðið Wholesome til þess að lýsa myndbandinu. Hvernig kviknaði þessi hugmynd?

VN: Síðan ég man eftir mér á ég margar og góðar minningar með ömmu minni í þessari íbúð og þar finn ég fyrir miklum frið. Þar sitjum við annað slagið, drekkum kaffi og spjöllum um lífið og tilveruna. Ég spilaði lagið fyrir ömmu fyrir nokkrum mánuðum síðan og hún varð af því snortin og þá datt mér þetta í hug, að einfaldlega grípa þetta moment. Þegar þú heyrir af lagi sem heitir Tek upp byssu þá býstu örugglega ekki við tveim fullorðnum manneskjum af svona misjöfnum kynslóðum að raula um túttubyssur og það finnst mér mjög fyndið og fallegt. Mig langaði einnig að sýna öllum heiminum hversu cool, viðkunnanleg og góð kona hún amma mín er.

SKE: Við höfum reynt, eftir bestu getu, að rýna í texta lagsins, en viðurkennum að við erum langt frá því að hafa komist að einhverri niðurstöðu. Hvað meinarðu með því þegar þú segist Taka upp byssu?

VN: Textinn snýst nú aðallega um það að þó ég stundum gefi frá mér tóna sem eru mjög harðkjarna, dónalegir og hrokafullir—þá er ég mjög friðsæll maður. Stundum tek ég upp byssu en ég meina engum illt með því; þetta er bara rapp.

SKE: Trausti smíðaði takt lagsins. Hvernig kom samstarfið til?

VN: Á síðasta ári þá kynntist ég Trausta. Við vorum að taka upp í sama hljóðveri og sátum við oft þar og reyndum að skrifa. Í svoleiðis ferli koma oft upp ritstíflur. Út frá því spratt upp einkahúmor þar sem ef einhver sat fastur á línu og talaði um það upphátt þá sagði vanalega einhver: „Hey, tek upp byssu, maður.“ Með tímanum varð þetta fyndnara og mér fannst eins og ég þyrfti að skrifa lag sem heitir Tek upp byssu. Síðan leið smá tími þar til Trausti mætti í hljóðverið með takt sem hann hafði hugsað fyrir mig sem svona smellpassaði við Tek upp byssu textann.

SKE: Hefurðu verið að lesa eitthvað gott nýverið?

VN: Eina sem ég hef verið að lesa upp á síðkastið eru orðabækur. Ég er að reyna að stækka orðaforðann minn til þess að verða betri. Svo er ég með ævisögu Keith Richards heima, sem hún amma mín lét mig fá því hún er afar mikill Rolling Stones aðdáandi. Ég hef ætlað mér að demba mér í of lengi.

SKE: Zlatan er góður fulltrúi mannkynsins, engin spurning, en ef þú yrðir að minnast á annan slíkan fínan fulltrúa, hver kemur fyrst upp í hugann?

VN: Nú stend ég dálítið á gati, verð ég að viðurkenna. Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilinn þá, af einhverri ástæðu, datt mér í hug Dr. Phil (hlær). Við segjum það bara; enda örugglega fínasti kall. Ef það eru einhverjir sem ég væri mest til að chilla með þá væru það Trey Parker og Matt Stone—sem ég myndi líka kalla fyrirmyndir mannkynsins.

SKE: Er útgáfa eða fleiri myndbönd í vændum?

VN: Í eitt og hálft ár hef ég verið að vinna í tíu laga plötu á ensku þar sem ég geri allt saman sjálfur. Ég vonast til að klára hana fyrir sumarið. Ég hef verið að læra stíft um það hvernig eigi að taka upp, hljóðblanda og master-a á fagmannlegann hátt. Í næstu viku gef ég út lag af þessari plötu svo fólk geti fengið smá smakk. Þó er mikilvægt að hafa það í huga að ég reyni að hafa hana mjög fjölbreytta þannig að ef svo vill til að það lag hitti ekki í mark þá gæti eitthvað af hinum níu heillað þig. Svo gæti það líka verið að ekkert af þessum lögum hitti í mark en það er allt í góðu lagi líka.

SKE: Eitthvað að lokum?

VN: Takk kærlega fyrir mig. Frábærar spurningar. Alltaf ánægjulegt að spjalla við ykkur.

(SKE þakkar Viljari Niu kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að gaumgæfa myndbandið við Tek upp byssu, sem og að hlýða á nýju plötuna þegar hún kemur út. Hér fyrir neðan eru svo fleiri lög eftir Viljar Niu.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram