„Gerist ekkert nema að ég drífi í því sjálf“—Bríet á Café Flóru á föstudaginn (Viðtal)

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Stundum verður gott lag enn betra þegar áheyrandinn er kunnugur sköpunarferli lagsins. Undirritaður hefur t.d. lengi haldið upp á lagið Hallelujah (eins og margir aðrir) sem kanadíski tónlistarmaðurinn og ljóðskáldið Leonard Cohen samdi snemma á níunda áratug síðustu aldar. Sagan segir að Cohen hafi samið u.þ.b. 80 mismunandi erindi fyrir lagið—áður en hann bugaðist. Síðar spreytti velski söngvarinn John Cale sig á laginu, en þekja Cale hafði mikil áhrif á Jeff Buckley, sem gaf út eigin útgáfu af laginu árið 1994 (lagið var þó ekki vinsælt fyrr en Buckley dó, árið 1997). Í ljósi þess fagnar undirritaður áformum söngkonunnar Bríetar þess efnis að blása til tónleika á Café Flóru á morgun (17. maí) þar sem hún ætlar ekki einvörðungu að flytja frumsamin lög heldur ætlar hún einnig að gefa sér tíma til þess að ræða tilurð laganna. Ferill Bríetar byrjaði á Íslenska barnum hér um árið og gaf hún út sitt fyrsta lag í byrjun 2018. Síðan þá hefur söngkonan notið mikilla vinsælda. Í tilefni tónleikanna heyrði SKE stuttlega í Bríeti og forvitnaðist um lífið, listina og sumarið. 

Viðtal: RTH

Viðmælandi: Bríet Isis Elfar

Auglýsing

SKE: Hæ, Bríet. Hvað segirðu þá? 

Bríet: Halló, halló—ég er alltaf hress.

SKE: Sumarið er komið. Er eitthvað sérstakt á dagskrá sem fyllir þig tilhlökkunar? 

B: Heyrðu, já, það er fullt spennandi framundan: Lundúnir, Secret Solstice, Ítalía, Lunga—og ég veit ekki hvað og hvað. 

SKE: Þú efnir til kósý tónleika á Café Flóru í Laugardalnum næsta föstudag (17. maí). Hvers vegna var Flóra fyrir valinu sem tónleikastaður?

B: Flóran hefur einhver áhrif á mann. Ég elska þennan stað. Ég geng þangað oft, fæ mér kaffibolla og skrifa texta. Þar sem mig langaði að halda kósy tónleika þá kom enginn annar staður til greina.

FB-síða viðburðarins: https://www.facebook.com/events/576058026255296/

SKE: Tónleikarnir verða á persónulegu nótunum, þar sem þú hyggst segja áhorfendum frá tilurð laganna þinna, þ.e.a.s. frá sögunum sem búa á bak við lögin—en hvaða lag úr þinni smiðju tók hvað lengstan tíma að semja? 

B: In Too Deep tók alveg næstum því eitt ár. Svona er þetta stundum þegar maður leyfir sér að pæla of mikið; þá er alltaf eitthvað sem er hægt að breyta og bæta og laga!

SKE: Uppáhalds tilvitnun eða textabrot? 

B: Þrek og tár—allt ljóðið er himneskt.  

Þú átt gott þú þekkir ekki sárin

þekkir ei né skilur hjartans mál

Þrek er gull en gull eru líka tárin

Guðleg svölun hverri þreyttri sál

Stundum þeim er þrekið brýnt og kraftur

þögul höfuð féllu tár um kinn

En sama rósin sprettur aldrei aftur

Þótt önnur fegri skreyti veginn þinn 

(Texti: Guðmundur Guðmundsson)

SKE: Sagt er að það séu tvenns konar manneskjur í heiminum: þær sem vakna á morgnana í krafti eigin frumkvæðis, og þær sem eru dregnar fram úr rúminu fyrir atbeina einhvers ytri afls—skuldbundin einhverju tilviljunarkenndu samkomulagi. Hvorum hópnum tilheyrir þú? Og hvað drífur þig fram úr rúminu á morgnana?

B: Ég er fyrri manneskjan, sem hefur sína kosti og galla—því eg er minn eigin yfirmaður; það gerist ekkert nema ég drífi í því sjálf. Það sem rífur mig fram á morgnanna er örugglega bara þorsti í meira og betra og skara framúr og gera eitthvað geggjað. 

SKE: Mun Hatari sigra Eurovision?

B: Já, Hatari alla leið!  

SKE: Sérðu fyrir þér að taka þátt í Eurovision í framtíðinni?

B: Hmmmm … Aldrei segja aldrei en eins og staðan er í dag þá held ég ekki. 

SKE Ef þú gætir fengið svar við hvaða spurningu sem er—hver yrði spurningin?

B: Á maður ekki bara að fá að hugsveima og vita ekki það sem maður þráir að vita? Nei, ég veit það ekki … 

SKE: Eitthvað að lokum? 

B: Þið eruð best og takk fyrir að vera til! 

(SKE þakkar Bríeti kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að láta sjá sig á Cafe Flóru á morgun.)

Miðasala: https://tix.is/is/event/7990/briet-live-kaffi-flora/

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram