Gísli Pálmi

„Það má búast við því að einhverjir hneykslist. Er það ekki venjan? En það verður bara að taka því eins og það er. Eða ekki“

Viðmælandi vikunnar sem jafnframt prýðir forsíðu Ske er tónlistarmaðurinn Gísli Pálmi. Hann hefur á fáum árum skapað sér sérstakan sess í íslenskri tónlistarflóru og kannski ekki hvað síst í hugum rappunnenda. Það var um mitt ár 2011 að Gísli braust fram á sjónarsviðið, skall eins og loftsteinn á íslenskri rappsenu með laginu Set mig í gang. Þar kvað við nýjan tón. Bæði hljómur og inntak stóðu nær bandarískri trap-tónlist en íslenskt rapp hafði gert fram til þessa. Yrkisefnin voru undirheimar Reykjavíkur, fíkniefni og gjálífi rædd á opinskáan hátt. Myndbandið við lagið, sem sett var á netið undir merkjum Glacier Mafia, renndi frekari stoðum undir ímynd Gísla, þar sem hann rappar ber að ofan á sólríkum degi með lúxusbifreið í bakgrunni. Áður höfðu íslenskir rapparar spreytt sig á gangstarappi (á kjarngóðri íslensku) en enginn þó í líkingu við það sem Gísli nú gerði. Engum bakpokum eða hettupeysum var hér fyrir að fara. Set mig í gang var fyrst í röð myndbanda sem Gísli sendi frá sér með nokkuð reglulegum hætti á komandi misserum og vöktu ekki síður athygli, svo sem Swagalegt, Stíg á kreik o.fl. Hann kom svo loks fram opinberlega síðla árs 2011, á Iceland Airwaves-tónlistarhátíðinni og rótfesti sig þá í vitund margra sem bæði áhugaverður og hamslaus flytjandi. Síðan hefur hann haldið uppteknum hætti. Við byrjum samtalið á því að spyrja Gísla hvernig hann bar sig að í upphafi?

„Ætli það hafi ekki bara byrjað á því að ég ákvað að gera vídjó. Ég var búinn að vera að leika mér að því að búa til takta og skrifa. Það var bara svo einfalt. Og síðan geri ég þetta á svo fullkomnum tíma, náði að sörfa netbylgjuna.“

Sem var, að segja má, ný nálgun hér á Íslandi Og yrkisefnin voru líka dálítið framandi, reynsluheimurinn sem þú lýsir.

„Já, algerlega. Íslenskt rapp hafði mikið byggt á skáldskap. Stór hluti fólks trúði örugglega ekki að eitthvað svona gerðist á Íslandi, eins og það sem ég var að lýsa. Það bara gat ekki séð svonalagað fyrir sér. Þess vegna held ég að margir hafi bara afskrifað þetta sem skáldskap.“ Gísli þagnar, hugsar sig um og bætir svo við: „Og það er kannski bara eðlilegt.“

Svo er það líka hvernig þú talar um hlutina. Tungutakið, orðaforðinn, er líka nýstárlegur.

„Já, ég nota mikið slangur og það er mjög fjölbreytt hvaðan ég fæ innblástur til að skapa eða beygja orð. Hvort sem það eru erlend tungumál, hlutir í kringum mann eða bara það að mér finnist þægilegt að segja hluti þannig.“

Á stundum ertu svo allt að því skuggalega berorður, til dæmis þegar þú talar um „borvél í skúrnum,“ ekki satt?

„Algerlega. Sumt er bara eins og það er.“

Fæstir þekkja það sem ég lýsi af eigin raun. Þetta er lítill heimur, það þekkjast meira að segja allir

– Gísli Pálmi

Og þar við situr. En hvað er á döfinni?

„Tónlist, platan, halda sér góðum. Er að fara að kynna plötuna núna þannig að það verða gerðir einhverjir skandalar í kringum hana. Svo er AK-Extreme núna eftir nokkrar vikur. Akureyri hefur alltaf upp á meira en nóg að bjóða. Seinasta ferð mín þangað var nú algert case, endaði með því að ég missti af fjórum flugum, gisti hjá Halldóri Helga [snjóbrettamanni] og skemmti ekki mikið. Var hent út af eigin tónleikum, berum að ofan og skólausum. Á þeim tíma sem hefði átt að vera að kalla mig upp á svið var ég kolsvartur í mestu makindum að borða súpu með foreldrum Halldórs. Þetta var alveg hellað.“

Það hefur gengið á ýmsu hjá þér?

„Já, það þarf svo sannarlega ekki að fara nánar út í það,“ segir Gísli og hlær.

Gott og vel. En sumarið 2014 fer svo platan á fullt.

„Já, þá tek ég bara lock down. Ég fann húsnæði, lokaði mig þar inni með tveimur félögum mínum og við unnum alla plötuna á tveimur mánuðum. Þannig að þetta eru allt glæný lög. Þetta verður eitraðasta dóp sem hefur lent á götum Reykjavíkur.“

Og hvernig heldurðu að fólk komi til með að taka við plötunni?

„Ég held að fólk eigi eftir að… þetta er svolítið mikið, sko. En þetta er það sem ég fíla og ég fer alla leið með mitt.“

En við hverju má búast textalega?

„Það má búast við því að einhverjir hneykslist. Er það ekki venjan? En það verður bara að taka því eins og það er. Eða ekki.“

Það er eilífðarspurning sem stöðugt er spurð í sambandi við rappheiminn í Bandaríkjunum hvort forsvaranlegt sé að upphefja það líf sem lýst er í gangstarappi. Ert þú að upphefja lífernið sem þú lýsir?

„Tja,“ Gísli tekur sér augnabliks umhugsunarfrest og segir loks: „Ég er ekki að upphefja neitt í rauninni, ekki nema fyrir þeim sem eru á þessum stað. Ef þú ert þarna þá er það bara svona. Fæstir þekkja það sem ég lýsi af eigin raun. Þetta er lítill heimur, það þekkjast meira að segja allir. Ég er ekki að neyða neinn til að hlusta á það sem ég segi. Þetta er bara mín lífsreynsla. Það vill svo til að mér finnst gaman að búa til tónlist og það vill líka svo til að mér finnst gaman að tjá mig með ljóðum. Og það vill líka svo til að margir vilja hlusta á það.“

Það var og. Við skulum kalla þetta gott.

Ég er ekki að neyða neinn til að hlusta á það sem ég segi. Þetta er bara mín lífsreynsla.

– Gísli Pálmi

Auglýsing

læk

Instagram