Gza Genius

Auglýsing

„Þú mátt búast við miklu stuði. Þessu klassíska Wu-Tang stuði”

Það er sjaldgæft að sami maðurinn hafi ástríðu fyrir hip-hop tónlist og vísindum. Vísindamenn eiga fátt sameiginlegt með röppurum, og öfugt. Ímyndaðu þér ungan Charles Darwin á ströndum Galapagos að rannsaka finka við hlið fjörlegum Biggie Smalls, að skoða fugla (slangur yfir kvennmenn) á trjágrein sviðsins; eða berðu saman einmannalegan Isaac Newton í aldingarði, að glíma við þyngdaraflið, við oflátungslegan 2 Chainz á nektarbúllu, sem hræðist áhrif þyngdaraflsins á sína ölvuðu útlimi. Vísindamenn pæla í alheiminum, rapparar, oftar en ekki, pæla í sjálfum sér. GZA er einn af þeim fáu sem gerir hvor tveggja. GZA er vísindaþenkjandi rappari.

Ég (Ragnar Tómas Hallgrímsson ) hringi í Radisson Blu hótelið í Hamburg, þar sem Wu-Tang klanið heldur sér. Síminn hringir nokkrum sinnum. Ég hinkra. Móttökudaman svarar mér á þýsku. Fyrir nokkrum þúsund árum síðan töluðu forfeður okkar sama málið; af þessum tveim germönsk-ættuðu málum þá líkar mér betur tungan sem áar mínir þróuðu. Ég bið hana um að tengja mig við herbergi 1720.

GZA: Yo!
Ég: GZA?

Auglýsing

GZA: Já.
Ég: Sæll, Raggi hér frá Íslandi. Hvernig ertu?

GZA: Góður.

Ég segi honum að ég sé að hringja frá tímaritinu SKE og að við vonumst eftir því að setja hann á forsíðuna í næstu viku. Ég þakka honum einnig fyrir að gefa sér tíma til að tala við okkur.

GZA: Já, ekki málið.

Ég: Liquid Swords (önnur plata GZA) er grafin einhversstaðar í plötusafninu mínu. Ég er aðdáandi.
GZA: Já, er það. Takk, maður.

Ég: Mig langaði til þess að spyrja aðeins út í Secret Solstice. Við hverju megum við búast?
GZA: Þú mátt búast við miklu stuði. Þessu klassíska Wu-Tang stuði. Góðri stemningu og góðu show-i. Það er ekki við öðru að búast. Við ætlum ekkert að fljúga um loftin eða crowd-surf-a eða neitt þannig. En ég held að við gefum frá okkur góða strauma þegar við spilum.

Ég: Já, þið eruð ekki þekktir fyrir annað.
GZA: Nei.

Ég: Er það rétt hjá mér að þú sért að koma til landsins í fyrsta skiptið? Ég veit að RZA hefur komið áður.
GZA: Já, þetta verður mín fyrsta heimsókn.

Ég: Eru þið búnir að áætla eitthvað sérstakt? Verðið þið lengi?
GZA: Ég held að við verðum einungis í einn dag. En ég er ekki viss. Við erum í Þýskalandi eins og stendur, í Hamborg. Við verðum hér í þrjá daga, lentum í gær og verðum í tvo daga í viðbót. Þetta er örugglega okkar lengsta stopp, að ég held, ég er ekki með ferðaáætlunina 100% á hreinu. En það væri gaman að vera lengur. Mig langar til þess að skoða Reykjavík. Við fáum svo sjaldan tækifæri til þess að skoða okkur um. Ég hef komið til Rómar örugglega 25 sinnum, en það var í fyrsta skipti núna síðast sem mér gafst tími til þess að skoða Kólosseum og Vatíkanið. Það er svo sjaldgæft að maður nái að skoða sig um. En vonandi höfum við einhvern tíma til þess á Íslandi. Ég hef heyrt marga góða hluti. Ég hlakka til að koma til Íslands og spila með Wu-Tang.

Ég: Ég sá þig á StarTalk um daginn, með mínum manni Neil Degrasse Tyson, og þú talaðir um að þú værir að vinna að handriti og skáldsögu. Hvernig gengur það? Má búast við skáldsögu eftir GZA í framtíðinni?
GZA: Vonandi. Þetta er eitthvað sem ég hef verið að tala um í mörg ár. Ég er voðalega afslappaður þegar kemur að svona verkefnum. Ég hef svo oft minnst á þetta. En ætlunin er að skrifa handrit og skáldsögur því að ég elska að skrifa. Mig langar til þess að gera meira en bara semja texta. Ég hef samið tónlist í yfir 20 ár og núna langar mig til þess að breyta til. Mig langar að koma meira fram í háskólum og vinna í alvöru bókmenntum.

Ég: Áttu þér einhverja uppáhalds penna?
GZA segist ekki eiga neinn uppáhalds. Hann er meira í vísindunum eins og stendur. Í gegnum árin hefur hann aðallega verið að …
ÉG: Tjá þig?
GZA: Já. Í mínum textasmíðum hef ég aðallega verið að skapa út frá mínu eigin hugmyndaflugi og stundum er ég undir áhrifum annarra.

Ég: Þú ert þekktur fyrir að vera mikill skákmaður. Hver er besti rapparinn/skákspilarinn? Ég veit að þú hefur spilað á móti Jeru the Damaja, Afu-Ra og RZA. Hver stendur upp úr að þínu mati?
GZA: Hmm. RZA. RZA stendur upp úr. Killa (Masta Killa) er einnig mjög fær. Ég spila mest á móti honum. Við teflum oft gegn hvor öðrum þegar við erum að ferðast. Stundum vinnur hann, stundum vinn ég. En RZA er mjög klókur. Ég hef ekki teflt við Afu-Ra né Jeru síðan ’93. Ég efast um að þeir tefli jafn mikið og ég. Ég er alltaf að æfa mig. Ég nýti hvert tækifæri. Ég hef teflt við marga góða, t.d. stórmeistara á borð við Maurice Ashley. Ég hef einnig spilað á móti nokkrum meisturum í almenningsgörðunum í New York. Ég hef spilað á móti Killa og Arabian Knight, sem pródúseraði nokkur lög á Wired Beneath the Surface (plata sem GZA gaf út 1999). Ég hef teflt í áraraðir. Ég er alltaf að tefla, hvort sem það er á netinu eða í almenningsgörðum New York.

Ég: Hvernig gengur Dark Matter (væntanleg plata frá GZA)?
GZA: Hægt, en þó – þetta er allt að koma. Ég stefni að því að gefa hana út í lok árs 2015. Ég hef þurft að fresta útgáfu plötunnar vegna tónleikahalds og ferðalags. Svo hefur reynst erfiðlega að finna tónlist sem rímar við textana og textastílinn sem ég er að vinna með. Með tímanum koma svo nýjar hugmyndir. Ég er alltaf að þróast. En platan gengur vel textalega séð. Ég er bara að reyna að finna rétta hljóminn.

Ég: Þú nefndir að Dark Matter væri innblásin af alheiminum, sem mér fannst fallegt. Ég hugsaði strax til Bjarkar, en hún gaf út plötuna Biophilia fyrir ekki svo löngu. Biophilia var stórt verk, sem tengdist náttúrunni og alheimnum á einhvern hátt. Ert þú aðdáandi Bjarkar? Hefur þú hlustað á Biophilia?
GZA: Það minntist einhver á þetta um daginn. En ég er ekki aðdáandi, þannig séð. Ég þekki tónlistina ekki nógu vel til þess að geta kallað mig aðdáanda. Ég veit að RZA hefur unnið með henni (RZA endurblandaði Bachelorette). Ég sá hana spila á einhverri hátíð um daginn. Svo horfði ég einnig á tvenna tónleika með henni fyrir ekki svo löngu, á netinu. Mér finnst hún mjög, mjög áhugaverð. Hún hefur frábæra rödd og er áhugaverð manneskja og listamaður. Mér þætti gaman að hlýða á gripinn og geri það eflaust einhvern tímann. Ég segi GZA að hann gæti eflaust fengið ákveðinn innblástur þaðan.

Ég: En hvað ertu annars að baksa við þessa daganna? Svona fyrir utan það að vera á túra með klaninu?
GZA: Ég hef verið að skrifa. Svo spila ég skák. Um daginn tók ég upp prufuþátt fyrir sjónvarp. Þátturinn ber nafnið That’s Genius. Ég ferðast á milli staða, og vonandi á milli heimshluta, og spjalla við vísindamenn. Fyrir prufuþáttinn fór ég til Fíladelfíu í Háskólann í Pensilvaníu fylki, og spjallaði við vísindamenn og eðlisfræðinga. Þeir voru að kynna mér fyrir Graphene, en það er léttasta og sterkasta efnið sem fyrirfinnst; einungis eitt atóm á þykkt, en er jafnframt 10-20 sinnum sterkara en stál. Það var mjög áhugavert. Þeir eru að þróa það áfram í þágu samfélagsins. Þetta verður skemmtilegur þáttur og vonandi að hann gangi eftir.

Ég: Hvenær kæmi hann út?
GZA: 2016, ef þeir ákveða að skjóta fleiri þætti.

Ég: Ég sá þig á TED-X um daginn. Eru fleiri fyrirlestrar á dagskrá?
GZA: Já, reyndar. Ég átti að halda fyrirlestur í maí, en við þurftum að fresta honum þar sem ég komst ekki. Ég átti að halda erindi í MIT. Ég hef áður talað þar. Ég hef haldið fyrirlestra í Harvard ásamt öðrum háskólum. Það er eitthvað á dagskrá núna á þessu ári og á næsta ári líka.

Ég: Hvernig gekk í Harvard?
GZA: Það gekk vel. Það var fyrsti fyrirlesturinn sem ég hélt. Þeir voru fyrstir til þess að bóka mig, af þessum háskólum. Þeir tóku vel í þetta, en þetta var hálf stressandi því ég er ekki vanur þessum vettvangi. Þetta er ekki eins og að rappa á sviði, að flytja lög, og að reyna að fá áheyrendur með sér. Fólk er yfirleitt drukkið eða freðið á tónleikum. En þarna ertu komin í allt annað. Áheyrendurnir eru virkilega að hlusta á það sem þú ert að segja. Sumir glósa meira að segja, stundum á ipad. Svo eru spurningar sem fylgja. Þetta er erfitt en gaman.

Ég: Já, ég get ímyndað mér það. Verðurðu oft stressaður?
GZA: Já. Því ég er svo afslappaður og geri allt á síðustu stundu. Stundum gefst mér ekki tækifæri til þess að undirbúa mig fyrr en kvöldið áður, þó svo að ég hafi haft marga daga eða vikur til þess að æfa mig (hlær), en ég er alltaf svo upptekinn. Það voru þó nokkuð margir fyrirlestrar þar sem ég vakti alla nóttina og var að æfa mig, og oft er ég að leggja lokahönd á ræðuna baksviðs – 5 mínútum fyrir. Svo þetta er vissulega stressandi en jafnframt eitthvað sem ég stefni á að gera í framtíðinni eftir að ég legg míkrafóninn á hilluna.

Ég: Þegar þú vakir á næturnar, ertu að fá þér kaffi? Ég hugsa oft um senuna í Coffe and Cigarettes (kvikmynd eftir Jim Jarmusch) með þér, RZA og Bill Murray.
GZA: Reyndar drekk ég ekki kaffi. Mér finnst kaffi gott og drakk kaffi þegar ég var snáði. Mamma drakk alltaf kaffi og ég drakk einu sinni Sanka eða Maxwell House. Kaffi er stórfínt. Þegar ég var lítill þá hellti ég stundum upp á bolla af og til. En ég er ekki mikill kaffi-karl í dag.
Ég: Nei, þú virðist vera meiri svona jurta-te kall?
GZA: Já, vissulega. Ég er líka mikill djús karl. Ég drekk mikið af hráum djús. Svo drekk ég te, oftast kalt te eða ís-te, og þá án sykurs. En ekkert kaffi.

Það er hluti af lífinu; að lifa, eldast og þróast. Þú verður að vaxa og þróast. Þetta snýst allt um framþróun.

– Gza

Ég: Þú hefur verið viðriðinn rapp-leikinn í þó nokkurn tíma; hefur skilningur þinn á Hip-Hopi breyst í gegnum árin?
GZA: Vissulega. Ég held það. Það er hluti af lífinu; að lifa, eldast og þróast. Þú verður að vaxa og þróast. Þetta snýst allt um framþróun. Sama hvað þú gerir þá verðurðu að þróast. Sem tónlistarmenn byrjuðum við að tala um þetta, en svo í dag tölum við um hitt, vegna þess að við erum að eldast og erum að læra nýja hluti og erum að ferðast til nýrra landa og fáum innblástur frá nýjum áttum. Þannig já, skilningur minn á rappinu hefur breyst heilmikið. En tónlistarferlið hefur lítið breyst.

Ég: Hver er afstaða þín til brjálæðinnar sem er að eiga sér stað í Bandaríkjunum, þ.e.a.s. í sambandi við Ferguson? Ég er frá Íslandi og við eigum erfitt með að skilja þennan heim. Þetta er allt svo sturlað. Hvað er að gerast?
GZA: Þetta er sturlun. Þetta byrjaði ekki í Ferguson. Þetta á rætur að rekja langt aftur í tímann. Þú getur rakið þetta aftur til þrælahaldsins og báráttunnar gegn kynþáttamisrétti á sjöunda áratugnum. Þetta er eitthvað sem heldur bara endalaust áfram. Ég skil þetta ekki. Þetta er virkilega brenglað. Ég veit ekki hvar ég ætti að byrja eða hvað ég get gert til þess að breyta þessu. Ef breytingin á sér ekki stað meðal þeirra sem eru í lögreglunni, gerist aldrei neitt. Svo lengi sem þú ert með lögreglumenn sem eru ofbeldissjúkir og vilja beita sér gegn svörtum og dökkum, og oft gegn hvítum líka. Þetta er svo brenglað. Ef þeir eiga að þjóna og vernda, þá ættu þeir að þjóna og vernda. En ég þekki fólk, svart og hvítt, karlkyns og kvenkyns, á sakaskrá og ekki á sakaskrá, sem kann illa við lögguna. Þeim er meira að segja illa við að vera stöðvað í umferðinni. Þetta getur verið maður sem hefur aldrei á ævinni verið stöðvaður af löggunni. Þetta getur verið hvítur maður sem hefur aldrei komist í kast við lögin, en þó segir hann ég er stressaður, vegna þess sem er að gerast. Þeir verða að finna nýjar leiðir til þess að tækla vandann. Ég held að rót vandans felist í þjálfunarferlinu. Ég held að þjálfun lögrelgumanna sé kolröng. Það eru margar leiðir til þess að vinna bug á glæpamönnum án þess að kyrkja viðkomandi. Á sviði vísinda og tækna höfum við séð mikla framþróun. Þú getur til dæmis flækt menn í neti, án þess að gefa þeim lífshættulegt rafstuð. Það er ýmislegt sem hægt er að gera, til dæmis gúmmískot, sem meiða menn, vissulega, en drepa ekki. Það eru svo margar leiðir til þess að yfirbuga menn án þess að kyrkja eða drepa. Þetta er allt svo brenglað, maður.

Ég: Já, og einmitt eins og þú segir: Það eru ótakmarkaðir möguleikar. Það er hægt að tækla hlutina svo miklu betur, og maður skilur þetta ekki.
GZA: Einmitt. Því fleiri sýknanir sem við sjáum, því fleiri óeirðir. Ég læt þetta ekki óátalið, þessar óeirðir, það er að segja, þegar það kemur að þeim sem eru að ræna og rupla. Það er ekki réttlætanlegt. Að brjóta og bramla og ræna er ekki leiðin til þess að mótmæla. Það vantar eitthvað í svoleiðis menn. Skilurðu? En ég held vissulega að menn séu orðnir langþreyttir á þessu ástandi og að þeir vilji marséra gegn óréttlætinu. Menn hafa fengið nóg. Það eru ekki bara þeir sem eru þeldökkir, það eru líka hvítir sem mótmæla. Þeir eru líka þreyttir. Þeir sjá þetta misrétti. Fólk er bara búið að fá andskotans nóg.

Ég: Ég bjó sjálfur í Bandaríkjunum og það er rétt sem þú segir um þennan kvíða sem ríkir meðal manna gagnvart löggunni. Þetta er okkur svo fjarlægt. Á Íslandi, ef löggan stöðvar þig í umferðinni þá er þetta yfirleitt á frekar vinalegum nótum. Þeir eru hér til þess að þjóna og vernda. En í Ameríku, þá herpist maður allur saman og það er ákveðið valdasamband í gangi. Fáránlegt.
GZA: Já, þetta kallast að vera valdafreðinn, eða freðinn á einkennismerkinu. Þú gengur um með einkennismerki og byssu. Þú getur horft á þetta eins og blýeitrun. Ef lítið barn borðar gamla málningu þá getur barnið fengið blýeitrun. Svo ertu með þessar löggur sem ganga um með blýbelti, átta tíma á dag, allt árið í kring, í 30 ár. Og veistu hvað? Eitthvað fer úrskeiðis.
Ég: Mér datt þetta ekki í hug.

Svo spyr ég GZA hvort að hann sé nokkuð tæpur á tíma. Hann segist geta spjallað aðeins lengur.

Ég: Ég er með eina fyrirspurn að lokum, ég stenst ekki mátið. Ég hef verið að rappa í mörg ár og langaði að spyrja, þú mátt að sjálfsögðu segja nei, hvort að þú hefðir áhuga á að skiptast á 16 börum?

Hmmm. Wow (hlær). Ég er ekki með neitt tilbúið. Ég þyrfti að kíkja aðeins á rímnabókina mína. Ég myndi ekki vilja koma með eitthvað gamalt, en samt, ég vil ekki vera að frumflytja nýtt efni strax. En tökum þetta þegar við hittumst.

– Gza

GZA: Hmmm. Wow (hlær). Ég er ekki með neitt tilbúið. Ég þyrfti að kíkja aðeins á rímnabókina mína. Ég myndi ekki vilja koma með eitthvað gamalt, en samt, ég vil ekki vera að frumflytja nýtt efni strax. En tökum þetta þegar við hittumst.

Ég: Já, hljómar vel.

Ég þakka GZA fyrir gott spjall og vonast eftir því að hitta á hann.

GZA: Takk, bróðir. Ég kann að meta þetta.
ÉG: Njóttu dagsins.
GZA: Sjálfsagt, bróðir, friður!

Þvílíkur snillingur (GZA er oft á tíðum kallaður the genius, og ber nafn með rentu).

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram