Hera Hilmars

SKE:
Það krefst hugrekkis að spyrja Hvers vegna: „Hvers vegna er ég
í þessari vinnu?“ „Hvers vegna er ég í þessu sambandi?“
„Hvers vegna reyki ég?“ „Hvers
vegna er hugur minn, fullkomlega, á valdi símans?“ Aðeins hið
rétta og hið nauðsynlega stenst máttar þessarar spurningar –
og ekkert það sem óþarft er lifir hana af. Í raun má segja að
spurningin sé yfirleitt annað hvort fæðingarvottorð eða
legsteinn, alltént orsakar hún, almennt, breytingar. Og segðu mér:
Er það eitthvað sem maðurinn hræðist meira en breytingar? Er
lífið ekki látlaus leit að öryggi, vanagangi og staðfestu? Er
þessi Hvers vegna leikur því ekki sérdeilis hættulegur? Kannski
– en fullviss er ég um það að betra sé að spyrja Hvers
vegna
og bregðast við merkingarleysinu á eigin frumkvæði, heldur en að
leyfa lífinu að svara Hvers
vegna EKKI
og þurfa síðan að lúta merkingarleysinu flatfóta og á
forsendum annarra … Þessar hugmyndir lágu að hjarta samræðu
minnar og leikkonunnar Heru Hilmarsdóttur, en hún leikur eitt af
aðalhlutverkunum í nýjustu mynd Baltasars Kormáks, Eiðurinn. Við
ræddum lífið, leiklistina og Ben nokkurn Kingsley.

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Hera Hilmarsdóttir
Ljósmyndir
: Allan Sigurðsson

(Það er föstudagur. Það er rigning. Ég hraða mér inn um dyr Café Babalú á Skólavörðustígnum klukkan korter í eitt. Eftir rétt rúmar fimmtán mínútur á ég von á því að leikkonan Hera Hilmarsdóttir gangi í gegnum þessar sömu dyr, og hef ég því ákveðið að mæta snemma til þess að ná góðu borði. Svolítið stressaður sest ég einn í fjögurra manna bás og fæ fljótt hornauga frá hópi af ráðvilltum túristum – en hverjum er ekki skítsama um túrista? Baktal er bitlaust á útlensku. Rétt eftir klukkan eitt gengur Hera inn og vinkar mér í gegnum þvöguna. Hún er í gráum leðurjakka og grænum kjól, svolítið vot um hárið – en hress. Ég spyr hvort að ég megi ekki bjóða henni kaffi. Hún þiggur Soya Latte. Á meðan ég stend í röðinni spjalla ég við Heru sem situr á móti afgreiðsluborðinu og einhverra hluta vegna myndast skrítin stemning; við erum eins og tveir leikarar að klúðra senu. Hera kann ráð við þessu, stendur á fætur og tekur sér stöðu við hliðina á mér í röðinni. Fyrir vikið verða samskiptin mun eðlilegri. Þetta var leiklist.)

SKE:
Hvernig voru viðbrögðin við Eiðinum?

Hera:
Rosalega góð. Hún er líka svo ný að
mörgu leyti.
Ég hef ekki séð aðra íslenska mynd sem er í senn spennumynd og
dramatísk mynd og sem er útfærð á þennan hátt. En það er
erfitt fyrir mig að segja hvernig þetta kemst til skila því að
ég er í svo mikilli nálægð við myndina. Viðbrögðin
sem ég hef fengið hafa þó verið sterk. Þannig að ég er

mjög
stolt af henni.

SKE:
Nágrannar mínir voru mjög ánægðir með hana.

Hera:
Frábært! Alltaf
gott að heyra svoleiðis.

En
svo er það líka þetta: Þegar fólk er að hrósa manni fyrir
myndina veit maður ekki alltaf

hvort
að það sé, kannski,
vegna
þess að þau þekkja mann. Lítið land og svona. En annars held ég að við Íslendingar séum
frekar gagnrýnin á vinnuna okkar yfir höfuð, svo ég tek áliti
nágrannana, í raun, mjög alvarlega. Ég held allavega að þetta sé
mynd sem nái til margra.

(Við göngum frá pöntuninni og fáum okkur sæti. Samtalið tekur beygju í átt að fyrirbærinu „umboðsmaður,“ en Hera segir mér að umboðskonan hennar sé rétt rúmlega þrítug. Það kemur mér á óvart.)

Hera: Umboðsmenn eru rosalega ungir yfir höfuð. Nema að maður sé hjá einhverjum gamalli „legend.“ Þetta er mikið til fólk á okkar aldri.

SKE: Maður hefur alltaf þessa gömlu mynd í huganum af hinum sígilda umboðsmanni: miðaldra gyðingur með kjaft.

(Við hlæjum. „Ég er með helling af spurningum,“ segi ég er ég fletti í gegnum minnisbókina eins og alger amatör.)

SKE: Hér er ein, hugsanlega mjög sýrð …

Hera: Komdu með þetta.

SKE: Ef líf þitt væri kvikmynd og þú yrðir að lýsa kvikmyndinni í stuttu máli – hvernig mundi sú frásögn hljóða?

Hera: Svona „synopsis“ á lífi mínu!?

(Hera hlær. Þetta er heillandi hlátur, áhyggjulaus og ástleitinn.)

SKE:
Þú ert náttúrulega aðalpersónan en hver er helsta togstreitan í
lífi þínu?

Hera:
Vá! Þetta er rosalega persónuleg spurning, því ef ég yrði að
gera kvikmynd um líf mitt þá mundi ég einblína á mestu
dramatíkina og
forðast að fegra hlutina …

„Ef ég yrði að gera kvikmynd um líf mitt þá mundi ég einblína á mestu dramatíkina og forðast að fegra hlutina …“

– Hera Hilmars

SKE: Komdu með þetta.

Hera: Ég mundi örugglega lýsa þessu á þennan veg: Stelpa, sem kemur frá einangraðri eyju, ákveður að halda út í hinn stóra heim og elta draumana. Á sama tíma er lífið að gerast. Æskuástin er þarna. Stelpan eldist. Á milli tvítugs og þrítugs byrjar hið svokallaða „quarter-life crisis“ og hún áttar sig á því að hlutirnir eru ekki eins skipulagðir og þeir áttu að vera. Þá fer allt að breytast. Nýir vegir opnast, nýir karakterar birtast, henni finnst hún vera leidd áfram af einhverju sem hún skilur ekki hvað er …

(Hera nefnir kvikmyndina Annie Hall eftir Woody Allen, sem er ein af hennar uppáhalds kvikmyndum. Hún segir jafnframt að myndir í þeim anda eigi vel við hennar líf. „Eins og einmitt margra, bætir hún við.)

Hera: Þannig myndir, yfir höfuð, þar sem fólk gengur í gegnum mismunandi hluti og aðstæður þar sem það þarf að taka ákvarðanir og standa með þeim: Það efast, hlær og grætur. Maður heldur að ein leið sé rétt en áttar sig síðan á því að lífið er flóknara. Seinna gæti maður jafnvel efast um að hafa valið rétt, en maður þarf, samt sem áður, að lifa með ákvörðuninni. Mögulega stendur maður því algjörlega með henni. Það er í raun það eina sem maður getur gert. Og hvað er í raun rétt og rangt? Ég hef pælt mikið í þessu: Hvaða ákvarðanir höldum við að við séum að taka þegar þær hafa í raun verið teknar fyrir okkur vegna svo margra annarra þátta í lífinu?

SKE: Áhugavert.

Hera: Við eigum ósjaldan erfitt með að taka breytingum sem við sáum ekki fyrir, vegna þess að við erum svo mótuð af ævintýrum og sögum ákveðinna hugsunarhátta, bæði hvað varðar hluti eins og Disney og augljóslega sum trúarbrögð líka. Ég held, að minnsta kosti, að mín mynd mundi hafa jafn opinn endi og Annie Hall – frekar en Öskubuska.

(Þjónustustúlkan
leggur Soya Latte á borðið.)

SKE:
Maður er náttúrulega söguhetjan í þessu lífi og er fullviss um
að maður eigi eftir að takast það sem öðrum tekst ekki. En svo
gerist það auðvitað ekki og maður hugsar: „Djöfullinn, ég er
ekkert betri en aðrir!“

Hera:
Nákvæmlega!

(Við
hlæjum.)

Hera:
Fólk segir oft við mig: „Svona er bara lífið!“ Og ég hugsa:
„Okay, bíddu er það kannski bara málið? Er lífið í rauninni
þannig að maður veit ekki baun?“

SKE:
Manneskjan virðist einmitt

vera
þannig gerð að þegar hún tekur ákvörðun og lítur til
baka eftir ákveðin ár þá er hún yfirleitt viss um að
hlutirnir fóru á besta mögulega veg – sama hvað gerðist. Eins
og Pete Best, til dæmis, sem var rekinn úr Bítlunum. Hann
er, eða var, sannfærður um að þetta hafi verið fyrir bestu.
Hefði hann haldið áfram þá hefði hann eflaust einnig litið til
baka og verið sannfærður um að þetta hafi verið það eina
rétta. Mannveran hefur sérstakan hæfileika fyrir því að
réttlæta fortíðina.

Hera:
Þetta er kannski einhvers konar „survival-ismi?“

SKE:
Gæti verið … En yfir í annað: Mér finnst svo áhugavert þegar
fólk öðlast einhverja sérþekkingu og þegar sú sérþekking breytir svo sýn þeirra
á lífið. Hvað hefur leiklistin kennt þér um lífið?

Hera:
Hún hefur opnað augu mín fyrir svo mörgu. Upp á síðkastið
hef ég ferðast mikið, til dæmis. Ég var að leika í kvikmynd á
Indlandi í vor.

SKE:
Já, bíddu með Ben Kingsley?

Hera:
Nei, reyndar ekki með Kingsley – en það hefði verið fyndið
þar sem hann lék Gandhi.

(Við
hlæjum.)

Hera:
Sem leikari heimsækir maður oft staði sem maður kæmi ekki
endilega á sem túristi. Ég fór til dæmis til Belgrad
til
þess að leika í An Ordinary Man
með
Ben Kingsley og ein senan var tekin upp fyrir
utan útidyr heimilis eins gamals rétttrúaðs
Serba.
Við fengum að bíða inni hjá honum milli taka en hann
bjó í einu herbergi með lítið sjónvarp og lítinn eldhúskrók.
Þessi maður var sjáanlega mjög fátækur en samt sem áður
ótrúlega glaður. Hann bauð mér sæti á eina stólnum í
herberginu og keðjureykti síðan á
rúminu er
hann horfði á ótrúlega
skrítinn
sjónvarpsþátt. Hann gekk um í plastinniskóm og drakk úr
tinbolla
frá þriðja áratugnum, sennilega. Sem túristi hefði maður
líklegast ekki bankað upp á hjá svona manni.

SKE:
Frekar ólíklegt.

Hera:
Einnig finnst mér leiklistin vera mjög gefandi. Í þessari mynd
lék ég stúlku sem missti foreldra sína í stríðinu í Serbíu.
Ég þurfti að kynna mér þessa sögu vel. Á hverju einasta kvöldi
horfði ég á heimildarmyndir um stríðið og
ræddi þess á milli við innfædda um áhrif þess á samfélagið.
Þessi mynd er í raun svartur, kómískur dramaþriller. Ég og Ben
unnum mikla rannsóknarvinnu fyrir hlutverkin og ég held að
kómíkin í henni kæmist ekki til skila ef við hefðum ekki unnið
þessa vinnu; húmorinn kemur frá nauð karakteranna. En þetta er
það sem mér finnst merkilegt við leiklistina, maður tekur þátt
í því að segja sögu sem síðan, mögulega, fer um allan heim.

SKE:
Hvað er leiklist, fyrir þér?

Hera:
Ég hef oft pælt í því hvað leiklist er – ekki það að ég
sé eitthvað nær. Þegar ég lék í An Ordinary Man þá var þessi
spurning mér sérstaklega hugleikin. Við Ben enduðum sérhverja
viku með því að setjast niður og dreypa á Vodka er við ræddum lífið
og listina.

SKE:
Hvernig var það?

Hera:
Það var magnað. Þessi
mynd hafði mikil áhrif á mig á svo mörgum sviðum – og gerir
ennþá. Einnig þar sem við Ben urðum góðir vinir við tökur og
höldum enn sambandi. Mér þótti líka sérstaklega
vænt um það að hann sjálfur bað mig upprunalega um að leika í
myndinni á móti sér og kom leikstjóranum Brad Silberling í
samband við mig.

SKE:
Eftir að þú lékst á móti honum í
The
Ottoman
Lieutenant?

Hera:
Já.

SKE: Það hefur eflaust verið mikill heiður?

Hera:
Algjörlega. Við
vorum líka á sömu bylgjulengd í sambandi við hvernig við vildum
segja þessa sögu og nálgast vinnuna. Við gerðum plan í
flugvélinni á leiðinni til Belgrad og ákváðum að einangra
okkur sem mest í borginni og sósíalísera sem minnst; við urðum
að setja okkur í spor tvo einangraða einstaklinga í þessu landi.
Ég held að það sé oft léttara að finnast maður þurfa að
leika á alls oddi ef maður er ungur leikari en eldri og vera alltaf
tilbúinn í alls kyns stuð með samstarfsfólki sínu, hvar og hvenær sem
er. En þar sem við vorum bæði á því að fara þessa leið þá
gerðum við það bara, og leikstjórinn var algjörlega á sömu
síðu. Í þessari einangrun velti ég því fyrir mér við hvað
það er í raun að leika.

„Ég held að það sé oft léttara að finnast maður þurfa að leika á alls oddi ef maður er ungur leikari en eldri og vera alltaf tilbúinn í alls kyns stuð með samstarfsfólki sínu, hvar og hvenær sem er.“

– Hera Hilmars

(Hera fær sér sopa af Soya Latte-inu og verður hugsi.)

Hera: Svo kom tími þar sem þessi spurning helltist yfir mig: „Hvað erum við að gera!? Hér erum við í þessari íbúð og heimurinn er svona og hvað getum við gert!? Erum við bara hérna að leika okkur og velta okkur upp úr einhverju sem kom fyrir einhvern annan og hefur ekkert með okkur að gera?“ Ég upplifði ákveðið panikk. Þá settumst við Ben niður og fórum yfir málin, og hann benti mér á að það að eins og hann sæi heiminn þá skipti það sem við værum að gera máli: Sumir eru á staðnum og leggja sitt af mörkum í eigin persónu, í gegnum hjálparstarf til dæmis, aðrir með því að rita niður sögur fólks, sumir í kjarnaðri mynd með því að hlúa að nánustu fjölskyldumeðlimum – maður getur ekki gert allt – en hlutverk okkar sem leikarar er að gefa okkur sjálf til þess að endurlífga manneskjur, þeirra sögur, segja þær öðrum og upplifa sjálf til að deila reynslunni á sem sannasta máta. Þetta skiptir máli.

„Svo kom tími þar sem þessi spurning helltist yfir mig: Hvað erum við að gera!?“

– Hera Hilmars


SKE: Að koma sögunum til skila þá?

Hera: Já, finna þessar sögur og gefa þær frá okkur eins einlægum og mögulegt er. Koma þeim til annarra. Og þetta snýst ekki um að taka vinnuna sína ótrúlega hátíðlega heldur frekar … (Hera hugsar sig um) … fyrir mér, er það svo mikilvægt að bera virðingu fyrir því sem þetta gæti verið og hver krafturinn í því er – því annars nær það sem þú ert að gera kannski aldrei að verða eitthvað sem skiptir máli. Vinur minn lék t.d. írskan hermann í stríðsmynd sem gerist í Suður-Afríku á sjöunda áratugnum. Hann lék á móti afrískum aukaleikurum sem börðust gegn írsku hermönnunum og margir af þessum afrísku hermönnum dóu í stríðinu. Eftir tökur þá dönsuðu og sungu afrísku aukaleikararnir af mikilli innlifun og írsku leikararnir veltu því fyrir sér hvað þeir væru að gera. Þá var þetta ákveðið ritúal, þ.e.a.s. ákveðinn dauðadans sem þeir stíga þegar fólk deyr; fyrir þeim voru þeir búnir að ganga í gegnum dauðann. Það hljómar auðvitað skrítið á einhvern hátt en mér fannst þetta fallegt. Hvað er veruleiki og hvað er ímyndun? Hvað er að leika og hvað ekki? Ef þú ert að mála eða skrifa, þá ertu að upplifa þessa hluti í alvörunni að einhverju leyti, þú stendur þarna í þessari íbúð og horfir á manninn fyrir framan þig …

(Blaðamaður hugsar til Þórbergs Þórðarsonar, sem sagðist aldrei skemmta sér neitt sérstaklega vel á böllum – á meðan þau stæðu yfir, en skemmti sér, hins vegar, konunglega eftir að böllunum luku, þegar hann rifjaði þau upp skáldlega og ritaði upplifun sína á blað.)

Hera:
Þessir atburðir eru að endurtaka sig í
einhverju formi í raunveruleikanum, því hvað annað er til en það
sem við erum að gera akkúrat núna? Og ég held að ef einhver
verknaður, hvort sem hann er leiklist, myndlist, tónlist, ritlist,
ef þessi verknaður birtist þér sem áhorf-/heyranda sem sannur,
ef hann hreyfir í alvörunni við þér og sýnir þér eitthvað,
þá held ég að það megi deila um að hann sé í raun
raunverulegur. Mér fannst þetta allavega falleg pæling með
dauðadansinn og mikil virðing fólgin í honum fyrir því sem hver
og ein manneskja gerir og gengur í gegnum hvern dag. Í stað þess
að sötra kaffi og taka því rólega eftir senuna eins og margir
aðrir leikararnir gerðu, að horfast í augu við og bera svona
mikla virðingu fyrir því sem þú varst að gera og fyrir því sem aðrir höfðu
gengið í gengum áður.

SKE:
Og lifa þig þar af leiðandi mun dýpra í hlutverkið? Þessi
nálgun hlýtur að skila sér á skjáinn?

Hera:
Algjörlega.
Ég er ekki að segja samt að það sé bara bókað enginn munur á
raunveruleikanum sem þú „ert í í alvörunni” og þeim sem þú
stígur inn í eða ímyndar þér, en ég held að línan þarna
milli liggi oft á einhverju gráu svæði sem við skiljum kannski
ekki alveg.

SKE:
Ég held að það séu ekki endilega margir sem spyrja sig Hvers
vegna? Ég stóð sjálfan mig að því um daginn að vita ekki
fullkomlega af hverju ég væri að skrifa: „Hvers vegna er maður
eiginlega að þessu?“ Og þeir listamenn sem svara ekki þeirri
spurningu, þú skynjar það í verkum þeirra. Ef þú ert ekki með
sannan og vel ígrundaðan tilgang þá verður þetta, kannski,
ósjálfrátt, að einhverju léttmeti. Ég held að það sé
mikilvægt fyrir alla listamenn að svara þessari spurningu.

Hera:
Og það þarf ekki að vera of vitsmunalegt svar.

SKE:
Alls ekki.

Hera:
Það getur bara verið: „Ég þarf að segja þessa sögu.“

SKE:
Ég var einmitt að horfa á heimildarmynd um sjálfshjálpargúrúinn
Tony Robbins. Ég var löngum með mikla fordóma fyrir honum. En hann var einmitt að ræða þessa
spurningu – Hvers vegna gerirðu það sem þú gerir? Út frá
þessu fór maður að pæla mikið í þessu. Ég hef gaman af
skrifum, og list, og hef þörf til þess að tjá mig en hafði
aldrei pælt, virkilega, í því: AF HVERJU?

Hera:
Þegar
ég var í leiklistarskólanum þá fór ég að velta þessu fyrir
mér og gekk svolítið á vegg. Mér fannst eins og að allir væru
með rosalega góð svör en ég var ekki með neitt skýrt svar og
hugsaði: „Bíddu, vó, veit ég þá ekkert af hverju ég er að
þessu? Er ég að þessu af einhverjum verri eða síður mikilvægum
ástæðum heldur en næsti maður?“ Ég held að maður þurfi
stundum að þroskast og öðlast aðeins meiri reynslu til þess að átta sig á því hvað þessi
tilfinning er. En svo stundum er þetta líka bara tilfinning – og
hún þarf ekki að vera síður mikilvæg. Því orð geta líka
verið innihaldslaus eða afvegaleitt mann.

SKE:
Örugglega rétt. En ég held að það sé líka mikilvægt að
maður finni sitt svar. Það eru svo margir sem fá svörin lánuð
… en segðu mér meira frá Kingsley.

Hera:
Myndin
gerist nær öll í einni íbúð og í einum bíl. Við deildum alls
konar litlum augnablikum, hvort sem það tengdist leiklistinni eða
lífinu – eða hvort að við ákváðum að fá okkur blund í
hádeginu. Við áttum til dæmis gott móment í svona húsbíl, með
eldhúsi og tveimur rúmum, þar sem við ákváðum bæði að fá
okkur smá blund. Mér fannst svolítið fyndið að horfa á hann
hinum megin í húsbílnum …

SKE:
„Þarna sefur Ben Kingsley?“

Hera:
Já, en samt er þetta líka bara eldri maður sem gæti alveg eins
verið afi minn. Þetta var svolítið eins og við værum í útilegu
saman.

„Þetta var svolítið eins og við værum í útilegu saman.“

– Hera Hilmars

SKE: Ég man einmitt eftir því þegar Jason Schwartzmann var að lýsa því þegar hann lék á móti Bill Murray. Á einhverjum tímapunkti fóru þeir saman í limósínu og Murray-inn sofnaði á leiðinni. Schwarztmann starði bara á hann: „Þarna er Bill Murray að fá sér blund.“

Hera: Maður verður líka svo berskjaldaður þegar maður sefur.

SKE: Þú hefur lært mikið af Ben Kingsley?

Hera: Já, vissulega, ég varð til dæmis betri í að treysta ávallt eigin tilfinningum og vinna með þeim í aðstæðum sem virðast ganga gegn þeim. En eitt ráð sem hann gaf mér líka var þegar ég var að velta því fyrir mér hvað maður ætti að gera þegar maður léki á móti einhverjum sem maður tengdi bara ekki við í mómentinu, hefði kannski aldrei hitt áður og finndist einfaldlega bara ekki skilja senuna, sem er auðvitað afar sjálfhverf hugsun en getur gerst, sérstaklega í bíói. Þú upplifir það þannig að þú sért búin að reyna allt sem þér dettur í hug til að ná sambandi við manneskjuna. Hún er bara á öðrum stað – og á stað sem gengur gjörsamlega gegn allri þinni eðslisávísun að fara á sjálfur. Það sem maður virðist oft reyna í svoleiðis aðstæðum er að koma til móts við manneskjuna eins og maður getur, því hver hefur í raun rétt fyrir sér? Fara inn í hennar orku og reyna að finna jafnvægi við hana einhvern veginn. En oft getur það leitt mann á ranggötur og til ofleiks, sannleikurinn úr senunni hverfur, þar sem þú ert að reyna að finna eitthvað ígrundað í óöryggi sjálfs þíns og orku einhvers annars en þinni. Við sumsé ræddum að þar lægju yfirleitt mistökin.

SKE: Hvað gerir maður í þannig aðstæðum?

Hera: Hann sagði sumsé þetta: „Það besta sem þú getur gert að er meðtaka nákvæmlega það sem er að gerast, bregðast við nákvæmlega því og vera eins líkamlega kyrr eins og þú getur verið.“ Og það fannst mér brilljant. Að vera kyrr, þó þú sért kannski að meðtaka sprengingu. Af hverju sagði þetta enginn í skólanum? Ég held að það sé mikið til í þessu og hvað varðar lífið, yfir höfuð. Í stað þess að bregðast við frá þessum fyrirframákveðna stað og enda á því að gjörsamlega fara yfir um og skapa einhverja hræðilega senu, frekar að slaka á, vera kyrr og horfa á manneskjuna …

„Og það fannst mér brilljant. Að vera kyrr, þó þú sért kannski að meðtaka sprengingu. Af hverju sagði þetta enginn í skólanum?“

– Hera Hilmars

SKE: Mikil viska. Ég lenti í svipuðu á djamminu um daginn þegar ég hitti kunningja minn sem var svo ýktur að ég náði engri tengingu við hann. Í stað þess að reyna spegla mig í honum hefði ég átt að slaka á og vera kyrr – meðtaka það sem var í gangi.

Hera: Ég veit það ekki, ég fór í gegnum þriggja ára langt leiklistarnám en hef aldrei fengið jafn „fundamental“ ráð. Það er leiklistarbók eftir Michael Caine þar sem hann veitir lesendum alls kyns praktísk ráð sem ég hef mjög gaman af líka, t.d. eins og „Ekki blikka of mikið þegar þú ert í mynd.“ Þetta útskýrir svo margt en setur það fram á svo einfaldan hátt.

SKE: „Simplicity is the highest form of sophistication?“

Hera: Svoleiðis hlutir lifa líka svo miklu lengur. Maður hugsar til Grikkjanna og Rómverjanna og þær bækur sem þeir rituðu, sem eru enn viðeigandi í dag – vegna þess að þetta er svo einfalt þó það risti djúpt. Maður skilur: „Ekki vera að blikka augunum of mikið.“ Af því það eru svo skýrar afleiðingar og einfalt að breyta því sem þú ert að gera. Þú gætir náttúrulega útskýrt pælingar á bak við það með mörgum öðrum leiðum en stundum er ástæðan svo skýr í einhverju jafn líkamlega einföldu.

SKE:
Ég hef reynt að drýgja tekjurnar með því að leika í
auglýsingum – en ég er svo skelfilegur leikari. Ég fór í prufu
um daginn þar sem ég átti að leika mann sem var að upplifa ást
við fyrstu sýn. Ég lék þetta eins og ég væri í spænskri
sápuóperu. Ég var að spá hvort að þú sért með eitthvert
gott ráð fyrir byrjendur?

Hera:
Í fyrsta lagi, taktu
því rólega og ekki vera of harður við sjálfan þig. Þú
klúðrar alltaf einhverju í byrjun, og líka seinna. En það er
ekki þar með sagt að þú sért ömurlegur leikari. Ég mundi
segja að þetta byrjar allt með stað og stund, sögunni, eigin
reynslu og líkama. Það ert þú sem þarft að vera þarna,
skilurðu? Ef þú átt að leika strák sem er að verða ástfanginn
þá mundi ég byrja á því að spyrja sjálfan þig: „Hvernig
líður mér þegar ég er ástfanginn?“ Þú þarft ekki að reyna
leika Sigga sem þú sást um daginn verða ástfanginn. Þú þarft
í augnablikinu að verða ástfanginn í alvörunni.

(Allan
ljósmyndari hringir. Ég segist ætla hitta hann eftir 10-15
mínútur.)

SKE:
Hvað hefur komið þér mest á óvart í lífinu?

Hera:
Hmmm … Hvað lífið er ótrúlega
ófyrirsjáanlegt. Í alvörunni. Og maður veit það – en það
er samt allt annað að vita það og upplifa það. Eins og að
missa fjölskyldumeðlim. Eða bara það að þú gætir fótbrotnað,
allt í einu!

(Hera
hlær.)

Hera:
Hvað lífið leiðir mann á skrítna staði, allt í einu hittirðu
einhvern eða ekki …

SKE:
Eru einhverjar hugmyndir, hugsjónir eða prinsipp sem þú reynir að
lifa samkvæmt?

Hera:
Ég hef það fyrir reglu að af tveimur valkostum þá geri ég
alltaf það sem hræðir mig meira – svo lengi sem mér finnst það
spennandi. En það er munur á því að vera ógnvekjandi og svo
bara hættulegt.

SKE:
Eitthvað að lokum?

Hera:
Nei, nei.

SKE:
Ef þú ættir að velja fyrirsögn þessa viðtals?

Hera:
Hmmm … Ég veit það ekki. Ef ég reyni að vera fyndin þá
verður þetta bara eitthvað skrítið …

(Við
stöndum upp og röltum í átt að Petersen svítunni, þar sem
Allan ljósmyndari bíður eftir okkur. Á leiðinni heilsar Hera
tveimur manneskjum sem óska henni til hamingju með myndina. Hún
brosir: „Takk!“ Á Svítunni stillir Hera sér upp og ég fylgist
eftirtektarsamur með myndatökunni. Á meðan hún rifjar upp gamla
tíma í Óperunni velti ég því fyrir mér Hvers vegna? Hvers
vegna öll þessi viðtöl? Öll þessi skrif? Straumþungt fljót
orða rennur í gegnum huga minn en ég átta mig síðan á því að
uppspretta fljótsins er tilfinning: Ástríða – sem síðan getur
af sér mergð jákvæðra afleiðinga. Ég er fullviss um að hið
sama gildi fyrir Heru og leiklistina … SKE hvetur alla til þess að
sjá Eiðinn; frábær mynd sem er frábærlega leikstýrð og vel
leikinn.)

Auglýsing

Instagram