Jóhannes Haukur Jóhannesson

„Ég veit nú samt ekki hvort maður fer nokkuð að flytja út til þess að eltast við þetta.“

„Ég einbeiti mér bara að hundauppeldi þessa dagana.“

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson er flestum Íslendingum að góðu kunnur. Hann hefur verið áberandi í íslensku menningarlífi síðustu ár og látið að sér kveða hvort tveggja á leiksviði og fyrir framan myndavélar. Skemmst er að minnast eftirminnilegs þáttar hans í kvikmyndinn Svartur á leik sem hrotta af allra fínustu gerð. Sem stendur er hann í fríi eftir alllanga tökutörn við þáttaröðina A.D. fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina NBC. Það er stórt verkefni, sama hvaða mælikvarða maður leggur á það, sögulegt búningadrama sem gerist á Biblíuslóðum í Palestínu og fylgir eftir lærisveinum Jesús Jósepssonar þegar hann hefur stigið aftur upp til sjálfs sín á himnum. Tökur fara að miklu leyti fram í Marokkó þar sem byggð hefur verið gríðarstór sviðsmynd í líki fornaldarborgar. Það gefur því auga leið að Jóhannes Haukur hefur verið á ferð og flugi. Hann hljómar þó öldungis afslappaður þegar blaðamaður hringir í hann upp úr hádegi í miðri viku. Blaðamaður byrjar á því að spyrja, með leyfi, hvað hann sé að fást við sem stendur:

Ég er bara í fríi eins og er. Er með átta vikna hvolp, að reyna að ala hann upp. Hann hleypur og mígur út um allt hús. Það er nú það sem ég er helst að fást við.

Það er ærið verk. En þú ert líka tiltölulega nýkominn úr tökum á þáttaröðinni A.D. sem kunnugt er. Hvernig er að vinna við svoleiðis batterí?

Það er óneitanlega töluvert öðruvísi en að vinna heima. Það er afskaplega mikið lagt í þetta allt saman og passað upp á smæstu smáatriði. Ýmislegt sem ekki er möguleiki að koma auga á í mynd nema vita af því. En ég hafði heldur aldrei komið til Marokkó áður og þetta er búið að vera heilmikið ævintýri. Tökur stóðu frá september síðastliðnum og núna fram í miðjan mars, með hléum auðvitað. Ég kom til dæmis heim í desember og var heima fram í febrúar. Svo hef ég verið á talsverðu flakki á milli. Í eitt skipti flaug ég út til að vera við tökur í einn dag og svo bara aftur til baka.

Og rullan hefur orðið dálítið umfangsmeiri en til stóð í upphafi.

Jú. Þetta er tólf þátta sería og ég var upphaflega ráðinn til sex þátta. Svona er þetta oft gert þarna úti. Í þáttunum er lærisveinunum fylgt eftir og þegar hópurinn tvístrast er sjónum sérstaklega beint að sumum þeirra. Og þeir ákváðu semsagt þarna úti að fylgja Tómasi, sem ég leik, frekar eftir.

Er það ekki ánægjulegt fyrir þig sem leikara?

Jú, það er auðvitað viss viðurkenning. Staðfesting á því að maður sé að gera eitthvað rétt.

„Það voru tæpar tíu milljónir sem horfðu á fyrsta þáttinn.“

– Jóhannes Haukur Jóhannesson

Kom þér eitthvað við þetta verkefni spánskt fyrir sjónir, annað en bara umfangið?

Svosem ekki fyrir framan myndavélarnar, þá er þetta ósköp svipað og heima. Þessi bransi stendur mjög vel á Íslandi og það er gríðarlega fært fólk í honum. En það var ýmislegt við umgjörðina sem var dálítið nýtt fyrir manni, trailerinn og bílstjórinn og það allt saman. Svo er náttúrulega ótrúlegt hvernig þessi borg hefur hreinlega verið reist úti í eyðimörkinni, allt niður í ótrúleg smáatriði eins og ég segi. Það sem kom mér kannski helst á óvart var það hversu snúið var að leika á ensku þegar til kastanna kom! Þarna voru náttúrulega mikið til breskir leikarar sem höfðu hana auðvitað alveg upp á tíu og maður var ekki á alveg sama stað og dálítið óviss til að byrja með. Svo var manni útvegaður talþjálfari til að vinna með og það gekk mjög vel. Þegar eitthvað gerist í fortíðinni vilja Bandaríkjamenn oft enskan hreim, hvernig sem á því stendur, eða svokallaða standard english. Þetta hafðist svo allt saman.

Blessunarlega. Og stendur hugur þinn til þess að stefna frekar á þessi mið?

Það væri ekkert verra. Ég veit nú samt ekki hvort maður fer nokkuð að flytja út til þess að eltast við þetta. Ég er með umboðsmann sem sér um þetta og hann til dæmis kom mér í prufuna fyrir þetta. Aðstandendur þáttanna vilja auðvitað gera aðra seríu og horfurnar eru góðar. Þeir koma vel út í áhorfsmælingum en það voru tæpar tíu milljónir sem horfðu á fyrsta þáttinn. Mér skilst að það sé stærsta frumsýning í sjónvarpi síðan West Wing hóf göngu sína árið 1999. Ef af verður þá fer ég aftur út í september og ferlið hefst á ný.

Þú þarft væntanlega að gera hlé á leik í leikhúsum vegna þessa?

Það er allt allt á pásu eins og stendur. Ég er náttúrulega fastráðinn hjá Þjóðleikhúsinu og þar hafa menn sýnt þessu mikinn skilning. Ari [Matthíasson, Þjóðleikhússtjór, innsk.blm.] hefur stutt vel við bakið á mér. Ég einbeiti mér bara að hundauppeldi þessa dagana. Er með þennan litla bómullarhnoðra upp á arminn eins og Paris Hilton og á fullt í fangi með það.

Jóhannes Haukur hlær en blaðamaður hlakkar til þess að sjá myndirnar í slúðursneplum. Við svo búið látum við hins vegar viðtalinu lokið, þökkum Jóhannesi kærlega fyrir og óskum honum velfarnaðar í bæði hundahaldi og listum.

Auglýsing

læk

Instagram