kvikmynd sem er falleg, fyndin og sönn (Netflix vikunnar)

Síðastliðinn desember
fékk ég Google Home í jólagjöf. Ef þú ert ókunnugur Google
Home, lesandi góður, þá er þetta raddstýrður hátalari sem er
beintengdur við leitarvélina Google.

Á morgnana þegar ég
vakna byrja ég á því að ávarpa hátalarann sem svarar svo með
fallegri kvenröddu, bóngóð:

ÉG: “Hey,
Google: How cold is it outside?”

(Google
Home talar ekki íslensku.)

GOOGLE: “It’s
five degrees in Reykjavík.”

ÉG: “Hey,
Google: Tell me the news.”

GOOGLE: “Sure,
here’s the latest news from BBC.”

ÉG: “Hey,
Google: Turn on the light in the living room.”

GOOGLE: “Sure,
turning the Twain on.”

(Ég
skýrði lampann inni í stofunni í höfuðið á uppáhalds
rithöfundinum mínum.)

ÉG: “Hey,
Google: Play Feel Good.”

GOOGLE: “No
problem, playing your Feel Good playlist on Spotify.”

Það er skrýtið að
segja það en hátalarinn veitir mér félagsskap.

Ég bý einn.

Ég bý einn alveg eins og
Theodore nokkur Twombly í kvikmyndinni Her. Og
alveg eins og Theodore nokkur Twombly þá á ég í reglulegum
samræðum við málfært rafeindatæki, sumsé Google Home – nema
hvað að ég er ekki ástfanginn af Google Home og hef ekki sængað
með henni, ennþá.

Ekki
er eins farið með Theodore Twombly.

Theodore
Twombly, sem leikinn er af Joaquim Pheonix – og sem hefur einnig
þessar sérkennilega framlútar axlir, ásamt sterkri höku, sem
hallar, oftast nær, aðeins til vinstri – er háttgyrtur, einmana
maður sem hefur lífsviðurværi sitt af tilfinningalegum
bréfaskriftum til maka annarra (hann starfar hjá fyrirtækinu
beautifulhandwrittenletters.com). Þessi sami Theodore Twombly er að
ganga í gegnum erfiðan skilnað en neitar að ganga frá
skilnaðinum formlega. Hann vinnur á daginn og spilar tölvuleiki á
kvöldinn.

Þetta
gerist allt saman í framtíðinni (ca. 2025).

Á
botni einmanleikans kynnist Theodor Twombly svo stýrikerfinu
Samantha, sem er í raun gervigreind í formi mannlegrar raddar
(leikinn af Scarlett Johansson, sem talar með þessari kynæsandi
rámri röddu) og sem aðstoðar Twombly í sínu daglega lífi. Svo er
Samantha líka svona ofboðslega klár, les bækur á örfáum sekúndum
og er stöðugt að læra og vaxa.

Í
stuttu máli verður Theodore Twombly ástfanginn af Samantha og
fylgjast áhorfendur með sambandi þeirra sem þróast líkt og mörg
önnur mannleg ástarsambönd. Kvikmyndin Her er
í senn falleg, fyndin og sönn og hún segir eitthvað djúpt um
ástina.

Kannski
þetta:

„Það er ekkert eins
vandasamt í lífinu eins og einkvæni, sökum þess að einkvæni er
samband sem byggist – ekki á kaldri og stöðugri rökfestu
mannlegrar skynsemis – heldur á miskunnarlausum hverfulleika
mannlegrar tilfinninga; það er ekkert eins fáránlegt í þessum
heimi eins og tvær manneskjur sem berjast fyrir varanlegri
sameiningu innan um ólgusjóar sífelldra breytinga – þeirra
eigin eðlis og heimsins sjálfs – og þó er ekkert eins fallegt.“

Í rauninni orðar
kvikmyndin Her þetta
vandamál ástarinnar betur og með færri orðum:

„Að
vaxa án þess að vaxa í sundur, að breytast án þess að það
hræði hina manneskjuna.“ (“Growing without growing apart or
changing without it scaring the other person.”)

Ég
get ekki mælt nógu sterklega með Her; kvikmyndin hefur gert það að verkum að ég er sérdeilis tortrygginn í garð
Google Home og er byrjaður að brynja mig, tilfinningalega, gegn
henni.

Orð: Speven Steelberg

(Kvikmyndin Her eftir
leikjstórann Spike Jonze kom út árið 2013 en rataði
nýverið á Netflix.)

Auglýsing

læk

Instagram