today-is-a-good-day

Lára Rúnarsdóttir

„Mér finnst ég verða ljóðrænni í íslenskum textum“

Tónlistarkonan Lára Rúnarsdóttir er flestum Íslendingum að góðu kunn enda hefur hún verið áberandi í tónlistarlífi landsins um hríð. Hún gaf út fyrstu plötu sína fyrir tólf árum síðan og nú er að koma út hennar sjötta, sem nefnist Þel. Lára hefur verið óhrædd við nýjungar á ferli sínum og er enn. Tvennt má kannski nefna helst sem sker Þel frá fyrri verkum hennar; annars vegar það að textar plötunnar eru á íslensku, en fyrr hefur Lára einkum samið á ensku; hins vegar það að hún hefur hópfjármagnað útgáfu plötunnar á Karolinafund. SKE setti sig í samband við Láru og spurði hana út í nýju plötuna, ferilinn og hvað væri næst á döfinni.

– Þú hefur fjármagnað væntanlega plötu þína, Þel, með hópfjármögnun á Karolinafund, hvað réði því að þú ákvaðst að fara þá leið?

Landslag tónlistariðnaðarins hefur breyst mikið undanfarin ár með miklu minni þörf tónlistarmanna að gefa út hjá útgáfufyrirtæki. Eina fyrirtækið sem ég gat hugsað mér að vinna með, eftir að hafa upplifað misjafnt og ýmislegt, var Record Records en það gekk ekki upp. Þess vegna var ekkert annað í stöðunni en að gera þetta sjálf. Mér finnst Karolinafund og hópfjármagnanir frábær leið til þess að tengjast fólki. Þetta er í raun bara forsala, þar sem fólk getur tryggt sér ýmist góðgæti og í leiðinni hjálpað verkefnum og listamönnum að klára verkefni. Ég hef sjálf styrkt verkefni inni á hópfjármögnun og fundist ég þannig eiga einhvern lítinn part í verkefninu sjálfu. Síðan er bara svo gaman að sjá hversu margir eru tilbúnir að taka þátt og styðja við bakið á manni. Maður verður hálf meyr bara.

– Nú er þetta fimmta plata þín á tólf árum og á hinum fjórum fyrri hefurðu leitað í ýmsar áttir við sköpun hljóðheima, geturðu lýst heimi Þels dálítið?

Þel er draumkennd og ævintýraleg. Hún er björt og tær en líka dökk og alvarleg. Hljóðheimurinn einkennist af reverbi og synthum en samt er allt mjög náttúrulegt. Stefán Örn Gunnlaugsson pródúser fékk í raun það verkefni að breyta rólegum kassagítarslögunum mínum í raf- og reverbdrifið melankólískt popp og gerði það listavel.

– Hvernig kom samstarf þitt við Stefán Örn Gunnlaugsson, Íkorna, til?

Ég var búin að hlusta yfir mig á plötuna hans Íkorna og fannst hún eitt af því fallegasta sem ég hafði heyrt. Eftir að hafa kynnst honum lítillega fannst mér alveg upplagt að heyra í honum og athuga hvort hann hefði áhuga og tíma til þess að vinna með mér þessa plötu. Ég hafði ekki hugsað mér að gefa út þessi lög þar sem mér fannst þau svo frábrugðin því sem ég var búin að vera að gera en það hefði verið synd að gefa þeim ekki þetta fallega líf sem samstarf okkar Stefáns færði þeim.

– Fram til þessa hefurðu einkum samið á ensku, hvað réði því að nýja platan er á íslensku?

Eftir að hafa siglt hringinn í kringum Ísland á eikarbáti ásamt vinum mínum og spilað í höfnum landsins fyrir fólk fann ég hversu miklu meiri tengingu og dýpt íslensk lög færðu okkur og fólkinu. Ég vildi prófa þetta og gerði. Þó að lögin hafi öll verið samin á ensku þar sem ég samdi þau í lagahöfundaleik með lagahöfundum á norðurlöndunum og í Ameríku þá var bara virkilega gaman að færa þeim íslenskt mál og mér finnst það koma mjög vel út.

„Hugmyndin var þó alltaf að gefa hana út líka á ensku en við sjáum til“

– Lára Rúnars

– Þýða skiptin yfir á íslensku einhverjar breytingar á því hvernig þú nálgast textagerðina?

Já, mér finnst ég verða ljóðrænni í íslenskum textum en ég held að það sé bara vegna þess að ég er búin að lesa ljóð síðan ég var lítil stelpa. En mér finnst skemmtilegra flæði í íslenskunni, ég þekki tungumálið betur og finnst auðveldara að leika mér með orðin og merkingu þeirra. Upphafleg merking og tilfinning laganna eins og þau voru samin á ensku fengu þó að halda sér.

– Er mikið spilerí á döfinni hjá þér í sumar, til að fylgja eftir plötunni?

Útgáfutónleikarnir verða í Fríkirkjunni 4. júní og síðan á Græna Hattinum 5. júní og Mývatni 6. júní. Síðan verð ég á Gærunni og Bræðslunni og mun ferðast um landið í lok júní og í júlí. Ég ætla að heimsækja sem flesta staði á Íslandi á árinu. Elska að spila á Íslandi.

– Ætlarðu að sækja eitthvað útfyrir landsteinana með hana?

Ef tækifæri til þess bjóðast en ég efast um að ég muni sækjast sérstaklega eftir því. Hugmyndin var þó alltaf að gefa hana út líka á ensku en við sjáum til.

– Hvað er svo næst?

Að kynna plötuna en einnig að vinna rannsókn sem styrkt er af Nýsköpunarsjóði námsmanna þar sem ég skoða feminísk rými í tónlistariðnaðinum á Íslandi. Síðan er KÍTÓN, félag kvenna í tónlist, á blússandi siglingu en við stöndum að tímamótaviðburði í Hörpu þann 19.júní, á 100 ára kosningarafmæli kvenna. Síðan er markmiðið að halda áfram í feminísku starfi og vinna kröftuglega að jafnara landslagi í tónlist á Íslandi. Draumurinn er síðan að fara erlendis í doktorsnám ef ég næ að draga fjölskylduna með mér.

Auglýsing

Instagram