„Litið yfir farinn veg:“ SKE fagnar þriggja ára afmæli í dag

Auglýsing

Þann 3. mars 2015 var fyrsta eintak tímaritins SKE gefið út og fagnar tímaritið því þriggja ára afmæli í dag – en fyrir rúmu ári síðan var sú ákvörðun tekin að einblína alfarið á veftengt efni (þó svo að það standi til að snúa aftur til prents einn veðurdaginn). 

Fyrstur til þess að prýða forsíðu SKE var Logi nokkur Pedró og var ritstjórn tímaritsins á þeim tíma í höndum Atla Sigþórssonar – sem er eflaust betur þekktur sem Kött Grá Pje.

Til þess að fagna þessum merka áfanga lítum við hér með yfir farinn veg og rifjum upp það sem hæst bar, að okkar mati, á þriggja ára ævi þessa auðmjúka snepils og heimasíðu. Í ljósi fallegs veðurs er einnig vel við hæfi að rifja upp fyrsta leiðara Kattarins Gráa, áður en lengra er haldið:

“Bráðum á að heita að fari að vora á Íslandi. Það er auðvitað óttalegt bráðræði. Óskhyggja er kannski nær lagi. En látum nú samt í augnablik eins og svo sé, að senn komist sólin á gott ról, brumhnappar séu æðislega spennandi og þar fram eftir götunum. Líf kviknar!” 

Auglýsing

Hefst hér með upptalning á því sem staðið hefur upp úr síðastliðin þrjú ár:

1. Forsíðuviðtölin

Í gegnum tíðina hefur SKE verið þess aðnjótandi að sitja andspænis mörgu merkilegu fólki, hér og hvar í borginni, og skeggrætt lífið og veginn. Meðal þeirra sem hafa fegrað forsíðu SKE á síðastliðnum þremur árum eru Jökull Júlíusson, Hera Hilmarsdóttir, Baltasar Kormákur, Salka Sól, Gísli Pálmi, GZA (Wu-Tang), Aníta Briem, Mugison, Páll Óskar og svona mætti lengi áfram telja. Viðtalið við Gunnar Nelson er enn í ávkeðnu uppáhaldi.

Gunni Nelson: https://ske.is/grein/er-mjog-fe…

Viðtölin: https://ske.is/vidtalid

2. Samstarfið við útvarpsþáttinn Kronik

Útvarpsþátturinn Kronik snéri aftur laugardaginn 26. nóvember árið 2016, eftir um það bil 10 ára hlé. Þátturinn hóf göngu sína árið 1993 á X-inu og vilja sumir meina að hann hafi ruttt veginn fyrir íslensku Hip-Hop senunni á sínum tíma. Frá því að þátturinn hóf göngu sína á ný hefur SKE séð um myndbandsupptökur fyrir þáttinn. Mörg ógleymanleg atvik hafa átt sér stað í hljóðverinu góða og þá sérstaklega lifandi flutningur tónlistarmanna. Neðangreint myndband af heimsókn Arons Can í þáttinn stendur vafalaust upp úr.

3. Bílferðir með góðu fólki (Í BÍLNUM)

Í byrjun október í fyrra fór fyrsti þáttur myndbandsseríunnar Í bílnum í loftið. Fyrsti viðmælandinn var tónlistarmaðurinn Huginn en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Síðustu gestir þáttarins voru Emmsjé Gauti og Þuríður Blær (sjá hér að neðan) og má þess einnig geta að nýjasti þáttur seríunnar mun rata inn á SKE.is í næstu viku, en gestur þáttarins var Helgi Sæmundur úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur.

4. Húðflúr og spjall (SKE BLEK)

Í lok nóvember í fyrra leiddu SKE og húðflúrstofan Memoria Collective (á Klapparstígnum) hesta sína saman og þá undir yfirskriftinni SKE BLEK. Um ræðir myndbandsseríu þar sem SKE fylgir hinum og þessum listamönnum á fyrrnefnda húðflúrstofu og forvitnast um líf þeirra og list á meðan sérfræðingar Memoria skreyta líkama þeirra með flúrum.  

5. Lifandi tónlist (SKE SESSIONS)

Í gegnum tíðina hefur margt hæfileikaríkt tónlistarfólk kíkt við í hljóðver SKE og flutt lög eftir sjálft sig og aðra. Þykir okkur sérstaklega vænt um flutning GDRN og Betu Ey yfir bít frá hinum goðsagnakennda taktsmið Jay Dilla. Lengi lifi minning hans.

6. Tónleikarnir

Það eru forréttindi að mæta á góða tónleika. Frá því að SKE hóf að framleiða myndbandsefni hefur tímaritið verið svo lánsamt að geta gægst baksviðs á marga skemmtilega tónleika og tónleikahátíðir. Hér er brot af því besta:

7. Öll hin vitleysan

Margar hugmyndir hafa kviknað og slokknað í gegnum árin, allt frá því að fá þekkta leikara til þess að lesa upp íslenska rapptexta yfir í það að spjalla við íþróttamenn á meðan á æfingum þeirra stendur. 

Þökkum kærlega fyrir samfylgdina síðustu þrjú árin og vonum innilega að næstu ár verði jafn gjöful. 

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram