Magnea

Auglýsing

Það eru mjög mörg flott skandínavísk merki að gera það gott og við ætlum okkur að komast í þann hóp. Íslenskur markaður er auðvitað fyrsta stoppistöð en við erum að fikra okkur í áttina að þeim erlenda

Sem stendur er Hönnunarmars í algleymingi og SKE horfði til þess við val á viðmælendum vikunnar. Um liðna helgi fór Reykjavík Fashion Festival fram og meðal þess sem þar mátti berja augum var nýjasta lína vörumerkisins MAGNEA, sem hefur vakið athygli fyrir frumlega notkun á prjónuðum efnum. Við spjölluðum stuttlega við hönnuðina, þær Magneu Einarsdóttur og Sigrúnu Höllu Unnarsdóttir. Til að byrja með leikur SKE forvitni á að vita hvaða þýðingu þær stöllur telja RFF hafa fyrir íslenska hönnuði og tískugeira?

Það hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir hönnuði að geta sýnt línurnar sínar í eins fagmannalegri umgjörð og RFF hátíðin er. Það er algjörlega ómetanlegt að geta sýnt vöruna í nákvæmlega þeim hugarheim sem hún er sköpuð í. Þetta skiptir allt svo miklu máli, þetta samspil milli lýsingar, tónlistar, hárs og förðunar og svo mætti lengja telji. Svo stöndum við hönnuðurnir auðvitað sterkt saman en sitt í hvoru lagi.

Hefur íslenskur tískuheimur að ykkar viti breyst mikið á undanförnum árum?

Já, hann hefur breyst töluvert. Það er rosaleg mikil gróska í gangi núna og það er alveg hægt að segja að RFF eigi stóran þátt í því. Þegar hönnuður ákveður að taka þátt í RFF þá er komin ákveðin pressa og góð gulrót að hafa til að stefna að. Svo finnst okkur eins og þeir hönnuðir sem eru starfandi í dag séu djarfari en áður.

Styðjist þið að meira eða minna leyti við aðrar listgreinar í ykkar sköpun? Er yfirleitt mikil skörun við aðrar greinar?
Sköpunarferli okkar hönnuða hjá MAGNEA er mjög breytilegt en við horfum mjög mikið á aðrar listgreinar í ferlinu. Tónlist og kvikmyndir eru sennilega efstar á listanum en í rauninni horfum við á allt í samfélagi okkar mannana. Sem skapandi einstaklingur er maður svo einhvers konar sía sem tekur það sem hefur djúpstæð áhrif á mann og notar það áfram í sköpunarferlinu. Þetta er því einn stór hrærigrautur upplifana sem er svo mixaður saman af tveimur einstaklingum

Nú eruð þið báðar menntaðar erlendis í ykkar fagi, teljið þið það vera mikilvægt í sjálfu sér fyrir upprennandi hönnuði að sækja sér menntun út fyrir landsteinana?

Eins og þú segir menntuðum við okkur báðar erlendis og erum sammála um að það hefur verið ómetanlegt í reynslubankann. Ekki bara sem nemendur í skóla heldur líka sem einstaklingur að búa í öðru landi, vera í annarri menningu en þeirri sem að þú kannast svo vel við. Svo þegar að maður kemur heim aftur þá sér maður allt í nýju ljósi. Það er einn flötur á að því að vera hönnuður, að vera sífellt að sjá, skoða og heyra eitthvað nýtt svo tilbreyting á umhverfinu er algjörlega nauðsynleg.

Stefnið þið að tilteknu marki með vörumerkið MAGNEA?

Það eru mjög mörg flott skandínavísk merki að gera það gott og við ætlum okkur að komast í þann hóp. Íslenskur markaður er auðvitað fyrsta stoppistöð en við erum að fikra okkur í áttina að þeim erlenda, meðal annars í samstarfi við dótturmerki Ralph Lauren sem heitir Club Monaco. Samstarfslína okkar, MAGNEA for Club Monaco, kemur í verslanir keðjunnar í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og víða um Asíu í haust sem verður ákveðinn stökkpallur í áttina að því.

En auðvitað er það raunin hérna á Íslandi að flestir hönnuðir, og við meðtaldar, erum að sinna mörgum hlutverkum; hönnun, sölu, framleiðslu, markaðssetningu, dreifingu og svo mætti lengi telja

– Magnea

Er nauðsynlegt fyrir hönnuði að hafa viðskiptavit jafnframt öðru? Eða er til staðar einhversskonar net sem tekur við hæfileikafólki og sér um þá hlið mála?

Það er alls ekki verra að vera með viðskiptavit, en okkar reynsla er samt sú að hönnuðir eru yfirlett með allt niðrum sig í þeim efnum. Í mörgum skólum er komin inn sú stefna að mennta hönnuði líka í viðskiptahliðinni, en þetta er bara svo ólíkt og það er nauðsynlegt að geta einbeitt sér að því að vera að hanna en ekki að reka fyrirtækið líka. Maður biður ekki tannlækninn sinn að koma og gera við þvottavélina. Þegar að þessir hlutir hafa verið í umræðunni, að maður verði að hafa viðskiptavit ef að maður ætlar að vera góður hönnuður, þá er sú umræða á villigötum því að ef að þú ert góður hönnuður þá ertu að fanga ákveðið zeitgeist og nærð til fólksins sem að þú vilt að taki eftir þér. Það er það sem er mikilvægt. Rekstur á fyrirtæki ætti að vera í höndum þeirra sem eru fagaðilar í því. En auðvitað er það raunin hérna á Íslandi að flestir hönnuðir, og við meðtaldar, erum að sinna mörgum hlutverkum; hönnun, sölu, framleiðslu, markaðssetningu, dreifingu og svo mætti lengi telja. Það er því miður ekki til neitt net sem tekur við manni, það væri algjör snilld ef svo væri.

Ummmmm...

Instagram