Natalie G. Gunnarsdóttir

Auglýsing

„Það eru alltaf fleiri og fleiri stelpur að fá áhuga og byrja að spila“

Natalie G. Gunnarsdóttir – ef til vill betur þekkt sem DJ Yamaho – er einn eftirsóttasti plötusnúður landsins um þessar mundir. Hún hefur verið áberandi í tónlistarlífinu um hríð, spilað á öllum helstu stöðum landsins og tónlistarhátíðum, en auk þess að þeyta skífum þá hefur hún fengist við að búa til eigin tónlist, meðal annars í félagi við Introbeats. Saman gerðu þau og gáfu út fyrir skemmstu lagið Release Me sem notið hefur mikilla vinsælda. SKE lék forvitni á að vita meira um þessa ungu tónlistarkonu sem virðist eiga svo gott með að tengjast dansfúsum mörlanda og setti sig í samband við hana til að spjalla lítillega um tónlist, næturlíf og Lóu – plötusnúðaveislu sem stendur fyrir dyrum. Við byrjum á byrjuninni og spyrjum Natalie

Hvernig það kom til í upphafi að hún byrjaði að dj-a?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og það kom að því að ég fór að velta því fyrir mér hvernig sum lög myndu passa ef þeim yrði mixað saman. Í kjölfarið keypti ég mér svo tvo plötuspilara og mixer og fór að blanda saman lögum.

Auglýsing

Það var einfalt! En hvernig er að reyna að lifa af því að spila á litlum markaði eins og Íslandi? Er það yfirleitt einhver leið?

Það er náttúrulega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. En það er óneitanlega mjög erfitt og maður þarf að spila mikið til að eiga í sig og á. Til að geta haft gott upp úr þessu þarf maður að róa á erlend mið, held ég. Búa til sína eigin tónlist, gefa hana út og spila.

Hvernig er annars að spila fyrir Íslendinga úti á lífinu, frussandi fulla og trallandi?

Það er bara fínt. Fólk er frekar feimið að dansa þangað til að það er búið að negla í sig nokkrum gráum. En það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru opnari fyrir þvi að heyra eitthvað nýtt í staðinn fyrir að heyra alltaf bara gömlu slagarana. Það gerir starfið miklu skemmtilegra og á sama tíma líka meira krefjandi.

Nú hefur plötusnúðasenan haft það orð á sér að vera fremur karllæg, hver er þín reynsla af því?

Jú, hún er frekar karllæg og ekki veit ég af hverju. Kannski tengist það því að maður þarf að hafa áhuga á græjum og öllu sem tengist þessu. En það eru alltaf fleiri og fleiri stelpur að fá áhuga og byrja að spila sem er ekkert nema æðislegt.

Já, síðustu misseri virðist manni fleiri reykvískir kvenplötusnúðar hafa verið að vekja athygli en oftast áður, er einhver vakning í gangi eða eru tímarnir bara að breytast?

Tímarnir eru sem betur fer að breytast að einhverju leyti. Og kannski af því að það eru miklu fleiri kvenfyrirmyndir í bransanum og ekki af verri endanum. Sem sýnir manni það að það eru að opnast fleiri og fleiri tækifæri fyrir kvenþjóðina.

Þú hefur dálítið verið að syngja með Adda Intro og gerir það, leyfi ég mér að segja, frábærlega. Mega tónlistarunnendur eiga von á því að heyra þig gera meira af því í framtíðinni?

Takk fyrir það, kærlega. Ja, við erum með lag í vinnslu sem við klárum vonandi fljótlega. Svo er ég sjálf með annað hliðarverkefni sem heitir Dark Features þar sem ég syng. En annars þá er mjög stutt síðan ég byrjaði að syngja og ég er í raun að feta mín fyrstu spor á því sviði. Það er alltaf gaman að ögra sér og prófa eitthvað nýtt og ég held eiginlega að það sé nauðsynlegt.

Ég held að aldrei hafi fleiri plötusnúðar komið saman á einu kvöldi til að gera allt vitlaust. Ég hlakka vægast sagt mikið til.

– Yamaho

Hvað er annað á döfinni hjá þér, hvort sem er í tónlistinni eða almennt talað?

Það sem er næst á dagskrá er magnað kvöld sem ég er að taka þátt í ásamt helstu plötusnúðum landsins. Það er næstkomandi laugardag í Gamla bíó og nefnist kvöldið Lóa. Ég held að aldrei hafi fleiri plötusnúðar komið saman á einu kvöldi til að gera allt vitlaust. Ég hlakka vægast sagt mikið til. Svo rakleiðis eftir það er næst á dagskrá að undirbúa live sett fyrir Secret solstice. Það er aldrei lognmolla á þessum bæ. Mig langar að lokum að segja að ég hlakka til að sjá sem flesta næstkomandi laugardag og svo óska ég bara öllum gleðilegs sumars!

Þakka þér sömuleiðis! SKE þakkar Natalie kærlega fyrir spjallið og óskar henni alls hins besta í hverju því sem hún tekst á hendur – eða tekur höndum.

Ummmmm...

Instagram