today-is-a-good-day

„New School / Old School deilan algjör óþarfi.“ – SKE spjallar við Rari Boys

Viðtöl

SKE: Í gær (5. mars) leit myndband við lagið „Önnur tilfinning“ eftir hljómsveitina Rari Boys dagsins ljós (sjá hér að ofan) og á þeim tæpum sólarhring sem er liðinn frá útgáfu lagsins hefur heil halarófa af enskum slanguryrðum teygt sig neðan úr botni myndbandsins á Youtube, ásamt tilheyrandi tjámerkjum („emojis“); jákvæðar athugasemdir á borð við ‘fire,’ ‘water,’ ‘BNGRRR!,’ og ‘vibes,’ eru ríkjandi meðal himinlifandi áheyranda og er lagið, í þessum skrifuðu orðum, „#1 Trending“ á Youtube – á meðan sigurvegari Söngvakeppninnar sjálfrar, hinn melódramatíski Ari Ólafsson, situr í þriðja sæti listans. Í tilefni útgáfu myndbandsins heyrði SKE í hljómsveitinni og forvitnaðist nánar um lagið, myndbandið og Rari Boys hópinn.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Rari Boys

SKE: Góðan daginn, hvað er að frétta?

Rari Boys: Bara mjög fínt, við erum slakir, stilltir og spenntir fyrir komandi tímum.

SKE: Hverjir eru í Rari Boys, fyrir þá sem ekki vita, og hvernig kom samstarf ykkar til?

RB: Við erum sex samtals í hópnum: Ég (IZLEIFUR), Andri (HLANDRi), Gabríel (Icy G), Funi Kun (BleacheKid), Máni ($leazy) og Dagur (Moscigo). Samstarf okkar kom til á skemmtilegan hátt. Við komum eiginlega hver úr sínu hverfi. Til dæmis er ég úr miðbænum (101) en Andri er úr Mosó. Það er, að ég held, einmitt eitt af því sem veitir okkur sérstöðu: Við erum mjög ólíkir en náum að binda það saman í eina heild og útkoman er skrautleg.

SKE: Myndbandið, sem og lagið, hefur fengið góðar viðtökur á Youtube: Elli Grill, HRRNR og Smjörvi, Geisha, o.fl. hafa hælt laginu. Eru einhverjir listamenn innan íslensku senunnar sem þið væruð til í að starfa með?

RB: Já, maður – bara sem flestum. Íslenska senan er klikkuð og heldur áfram að verða betri og betri. Við erum nýlega búnir að vera vinna með Yung Nigo Drippin og á plötunni okkar kemur hann við sögu á að minnsta kosti einu lagi. 101 hópurinn (Logi Pedro, Sturla Atlas og fleiri) veittu – og veita – okkur mikinn innblástur.

SKE: Er eitthvað eitt lag sem hefur mótað ykkar ‘sound’ umfram önnur lög?

RB: Nei, við myndum ekki segja það; tónlistarsmekkur okkar er mjög mismunandi og kemur úr öllum áttum. 

SKE: Hvernig sjá Rari Boys heiminn?

RB: Heimurinn er stór og tækifærin eru alls staðar. Maður á ekki að vera hræddur við að stíga út fyrir þægindarammann og prufa eitthvað nýtt.

SKE: Hlustið þið alfarið á Nýja skólann eða er hinn Gamli einnig að heilla?

RB: Við hlustum bara á allt – og alls ekki bara hip hop. Okkur finnst þessi „New School / Old School“ deila algjör óþarfi. Tónlist er tónlist og þú mátt hlusta á það sem þú vilt svo lengi sem þú dæmir ekki smekk annarra.

SKE: Myndbandið við Önnur Tilfinning er mjög frumlegt. Hvernig kom samstarf ykkar og Ágústar Elí til?

RB: Lagið fór, í rauninni, óvænt í dreifingu; við hlóðum upp einkahlekk („private link“) á SoundCloud fyrir löngu og svo þegar við skoðuðum hlekkinn síðar var lagið búið að hala inn fullt af spilunum. Einhvern veginn endaði hlekkurinn hjá Águsti Elí og í byrjun desember 2017 sendi hann okkur skilaboð og sagðist vilja gera myndband fyrir lagið. Svo er restin bara algjört vibe.

SKE: Er meira efni í vændum?

RB: Já, algjörlega – þetta er rétt að byrja. Við ætlum að gefa út plötu á næstunni. Við erum að leggja lokahönd á flest lögin ásamt því að skipuleggja útgáfu. Við erum mjög spenntir fyrir því og hlökkum til að sýna ykkur afraksturinn.

SKE: Eitthvað að lokum?

RB: Tjekkið á okkur á Instagram og Spotify! Við erum einnig með Facebook og Youtube síðu. Eternal shoutout á Águst Elí og Yung Nigo Drippin!

(SKE hvetur lesendur til þess að kynna sér tónlist Rari Boys betur og mælum við sérstakelga með lögunum Tracksuit Made of Gold og Swervin (Remix).

Auglýsing

læk

Instagram