Össur & Linda

Dagana fimmta til sjöunda júní næstkomandi fer alþjóðlega húðflúrsstefnan Icelandic Tattoo Convention fram í Reykjavík í tíunda sinn. Fjöldi erlendra húðflúrslistamanna hefur boðað komu sína á ráðstefnuna, sem haldin er í Gamla bíói, og óhætt er að líkindum að segja að ráðstefnan sé mikil hátíð fyrir allt áhugafólk um hina háæruverðugu húðskreytilist. Ske er áhugasamt um allt sem er vænt og setti sig því samband við einn af frumhreyflum ráðstefnunnar, Össur Hafþórsson hjá Reykjavík Ink, og forvitnaðist lítillega um hana og kúnstina.

Til að byrja með spyr ég bara eins og kjáni, hví að halda ráðstefnu sem þessa í Reykjavík? Er það t.a.m. mikilvægt fyrir framgang fagsins, eða er þetta fyrst og fremst skemmtun?

Þegar við byrjuðum með ráðstefnuna fyrir tíu árum var lítil sem engin tattúmenning í Reykjavík og bara einhverjar tvær eða þrjár litlar stofur starfandi. Okkur fannst því vanta meiri fjölbreytni í þessa litlu senu sem þá var í gangi. Ráðstefnan og Reykjavík Ink hafa aukið áhuga almennnings á listinni svo mikið að fordómar gangvart húðflúrum hafa minnkað til muna. Áður fyrr þurfti fólk að fara erlendis til að fara í flúr í ákveðnum stíl, öðrum en þeim sem var í boði í Reykjavík á þeim tíma. The Icelandic Tattoo Convention opnaði áhugafólki um húðflúr alveg nýjan heim og kynnti um leið stíla sem höfðu ekki sést áður hér á Íslandi.

Hvað ber helst að nefna af því sem fram fer á ráðstefnunni?

Á ráðstefnunni getur fólk séð mismunandi stefnur, stíla og strauma. Þetta er í raunininni risastór tattústofa og fólk hefur aðgang að tuttuguogsjö artistum sem koma allstaðar að úr tattúheiminum. Allir eiga að geta fundið eitthvað fyrir sitt hæfi. Fólk getur komið með litlar sem stórar hugmyndir og munu listamennirnir sjá um að teikna og útfæra þær hugmyndir sem fólk kemur með, allt er hægt.

Eins og fram kom að ofan hefur fjöldi erlendra listamanna boðað komu sína, eru þar einhverjir tilteknir sem eru sérstakur happafengur?

Við erum að fá til landsins listamenn sem koma víðsvegar að úr heiminum og eru allir miklir fagmenn á sínu sviði. Við lítum svo á að allir flúrarnir séu mikill happafengur fyrir okkur. En til dæmis má nefna Scott Ellis, Jason June og Erik Axel Brunt sem sérhæfa sig í japönskum flúrum. Holly Ellis, Austin Maples og Simone Capex eru svo í old school. Svona mætti lengi telja en þetta er rosa flott blanda af konum og körlum sem gera flúr á heimsmælikvarða. Listamennirnir koma víða að svo sem frá Þýskaland, Ítalíu, Portúgal og Bandaríkjunum.

Og fyrst við minnumst á húðflúr hérlendis – manni virðist sem húðflúr hafi verið í feykilegri sókn á síðustu árum og jafnvel sperrtustu broddborgarar skarta orðið miklum listaverkum, hverju heldurðu að þetta eigi að sæta?

Jákvæð og opin umræða um húðflúr undanfarin ár og svo eru frægir íþróttamenn og stórstjörnur, bæði tónlistarmenn og leikarar, sem skarta húðflúrum. Allt hefur þetta áhrif.

Afstaða fjöldans til húðflúra hefur talsvert breyst, ekki satt?

Jú, þjóðfélagið er mun opnara fyrir húðflúrum í dag en áður. Það er enginn stéttarskipting þegar kemur að flúrum. Allir fá sér flúr óháð kyni, aldri, þjóðerni, vinnu og öðru. Ef þig langar í flúr þá færðu þér flúr.

Hvað finnst innmúruðum um þessa þróun (burtséð frá viðskiptalegu hliðinni, sem hlýtur að vera gleðiefni fyrir fagfólk)?

Það er auðvitað gleðiefni að fólk viðurkenni flúr sem list, þetta er ekki bara að setjast niður og teikna mynd. Það er gífurleg vinna á bakvið flúrin og ekki má gleyma því að flest allir flúrara mála og teikna sína eigin myndir. Þetta eru listamenn rétt eins og rithöfundar, listmálarar, grafískir hönnuðir og aðrir listamenn.

Sögulega, á síðustu áratugum, hefur húðflúr haft sérstök tengsl við rokk & ról, er það liðin tíð?

Nei, alls ekki. En tattú tengist mun stærri og breiðari hópi í dag.

Ég geri ráð fyrir því að húðflúr sé eins og flest annað undirorpið tíðaranda og tískustraumum, geturðu nefnt mér eitthvað sem er sérstaklega vinsælt þessa dagana?

Já, stór húðflúr eru mjög vinsæl í dag, mandöluflúr sem og nöfn á börnum, foreldrum og mökum og portrettmyndir eru líka alltaf vinsælar.

Er tími ankera á framhandleggjum liðinn?

Nei, það er enn inn og hefur aldrei farið neitt.

Segðu mér nú í fullkominni hreinskilni, eru húðflúr fyrir alla?

Nei, alls ekki, ekki frekar en það að fara í ljós, fá sér gervineglur, lita á sér hárið, vera með ákveðin fatastíl er heldur ekki fyrir alla. Við erum að ,,fegra“ okkur á hverjum degi bara á mismunandi hátt. Hver og einn hefur sinn eigin stíl.

Auglýsing

Instagram