„Sjáum ekki kjarna málsins þar til ástandið er orðið óbærilegt“—GRINGLO gefur út “Human” (Viðtal)

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Í bókinni Sérherbergi eftir enska blekberann Virginía Woolf veltir höfundur fyrir sér hvers vegna flestir kvenhöfundar í upphafi 19. aldarinnar hafi kosið að rita skáldsögur en ekki ljóð. Var það kannski vegna þess að þær—Jane Austen, Brönte systurnar, George Eliot, t.d.—voru allar úr millistéttinni þar sem aðeins ein setustofa var á heimilinu: „Ef konan skrifaði varð hún að draga til stafs í setustofunni … og naut hún vart hálftíma í einrúmi án þess að vera ónáðuð. Þó væri það auðveldara, undir slíkum kringumstæðum, að rita prósa frekar en ljóð eða leikrit. Það krefst ekki eins mikillar einbeitingar.“ Ef Virginíu Woolf hafi þótt lítið til hálftímans koma árið 1929 (útgáfuár Sérherbergis) hefði henni eflaust hryllt við tilhugsuninni að árið 2019 yrði kyrrlát hálf klukkustund hreinn munaður í augum flestra listamanna; ef síminn pípir ekki á hverri mínútu þá blikkar skjárinn. Fóru þessar hugleiðingar í gegnum huga undirritaðs er hann hlýddi á lagið “Human” eftir akureyrsku hljómsveitina GRINGLO. Í laginu eru mannleg samskipti til umfjöllunar. Í texta sem fylgir myndbandi lagsins á Youtube spyr textahöfundur: Hvað gera mannleg tengsl svona sérstök … er það kannski þetta undraverða augnablik sem myndast í tíma og rúmi þegar við gefum hvort öðru óskipta og einlæga athygli?“ Verður þetta að teljast sérstaklega ákallandi spurning í dag, þar sem athyglisgáfunni fer versnandi. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í GRINGLO og forvitnaðist um lífið og listina. GRINGLO var upprunalega einstaklingsverkefni Ivan Mendez sem vatt síðar upp á sig. Í dag samanstendur hljómsveitin af þeim Guðbirni Hólm, Guðjóni Jónssyni, Arnari Frey Scheving og fyrrnefndum Ivan Mendez. Meðlimir sveitarinnar lýsa tónlistinni sem “ambient folk-rock” (svo að maður leyfi sér aðeins að sletta) og leggur GRINGLO mikið upp úr þýðingarmikilli textagerð. Gjörið svo vel.  

Viðtal: RTH
Viðmælandi: GRINGLO

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segir GRINGLO þá?

Auglýsing

GRINGLO: Góðan daginn. Við höfum bara sjaldan verið betri! 

SKE: Þið voruð að gefa út lagið Human. Hvernig kom lagið til? 

Ivan: Þetta er lag sem ég kom með á æfingu snemma í fyrra. Partarnir voru allir nokkurn veginn klárir en við púsluðum þeim síðan saman í rólegheitum. Textinn er, eins og svo oft áður, sprottinn frá hugleiðingum mínum um vitund mannsins. Nú má segja að mannleg tengsl og samskipti séu í kastljósinu. Það var pínu fyndið með þennan texta: Ég kláraði hann nánast allan í einni setu, fyrir utan tvær til þrjár línur. Síðan höfum við verið að spila þetta á tónleikum hér og þar undanfarið. Einvern veginn gleymdi ég alltaf þessum línum sem átti eftir að semja—þar til á sviði í miðjum flutningi; í nokkur skipti varð ég að spinna upp nýjar línur á staðnum! 

SKE: Í viðlagi lagsins lofar höfundur að viðhalda mannúðinni (“stay human”). Er þetta skot á snjallsímavæðingu íslensks samfélags?

GRINGLO: (Hlátur). Kannski ekki beint en það má vissulega skilja það þanning. Snjallsíminn étur vitaskuld upp stóran part af athygli fólks og er að einhverju leyti að gera okkur vanhæfari í eðlilegum samskiptum. Símarnir eru samt ekki aðalvandamálið. Það er frekar óttinn sem er að halda okkur frá hvor öðru. Óttinn við því að vera misskilinn, óttinn við að vera afneitað, eða óttinn við hvað öðrum finnst.

Þessi snjallsíma(of)notkun er bara eitt þessara einkenna sem sprettur frá dýpri orsökum.

SKE: Í texta sem fylgir myndbandinu á Youtube spyr hljómsveitin einmitt: „Hverjar eru forsendur ósvikinna mannlegra tengsla? … hið einstæða rými sem skapast þegar við veitum hvort öðru óskipta athygli?“ Þetta hlýtur að vera sérstakt áhyggjuefni fyrir listafólk, sem stólar á athyglisgáfuna í sköpun sinni?

GRINGLO: Við teljum að það sé í raun lítil ástæða til að hafa áhyggjur. Mannkynið heldur ávallt áfram að skapa—sama hvert ástandið er hið ytra. Hins vegar er það alveg tvímælalaust rétt að með kyrrum huga er athyglin skarpari og í slíku ástandi virðist sköpun flæða betur til manns. Það getur oft verið snúið að komast í það hugarástand þegar umhverfið er fullt af áreiti og hver einasta auglýsing, smáforrit og sjónvarpsefni byggir á því að grípa athygli okkar í tíu sekúndur og síðan er næsti rammi tekinn við. Það gerir það að verkum að athyglisgáfa okkar slappast enn frekar og þanning myndast vítahringur. En þessi klemma mun líka vekja okkur fyrir eigin atferli á endanum. Við höfum þó tilhneigingu til þess að sjá ekki kjarna málsins fyrr en ástandið er orðið algerlega óbærilegt. 

SKE: Í myndbandinu sinna Akureyringar sínum daglegu störfum. Í ljósi þess—og í ljósi titil lagsins—hugsuðum við til viðtals 60 Minutes við Kai Fu Lee, sérfræðings á sviði gervigreindar. Hann trúir því að gervigreind komi til með að sinna 40% af störfum venjulegs fólks á næstu 15-25 árum (þá aðallega störfum bílstjóra). Er þá ekki fínt að hafa lífsviðurværi sitt af tónlistinni í framtíðinni? Varla eru tölvurnar að fara spila
á tónleikum?

GRINGLO: (Hlátur) það er góð spurning. Gervigreindin getur eflaust tekið við ýmsum störfum og það er sennilega hið besta mál—svo lengi sem að við sem samfélag finnum lausn fyrir þá sem missa vinnuna. Kanski höfum við þá bara öll meiri tíma til þess að njóta tilverunnar og getum skapað meira, bæði af list og ánægjulegum augnablikum með hver öðru. Hlutverk listafólks er að stórum hluta að vera spegill fyrir samfélagið— svo að við getum skilið okkur sjálf betur. Við erum oft blind á eigin hegðun þangað til að henni er stillt upp fyrir okkur á einhvern ýktan hátt, eða sett í annað samhengi.

Gervigreindin kemur ekki til með að taka við því starfi, alla vega ekki í náinni framtíð. 

SKE: Lokakaflinn (03:06) hljómar eins og hljómsveitin sé að kinka kolli (“nod”) til gítarleikarans Andy McKee (Drifting). Eruð þið aðdáendur McKee?

Ivan: Vel athugað! Ég held að ég sé sá eini sem gæti kallast einhver aðdáandi. Ég horfði mikið á Youtube-myndböndin hans þegar ég var að byrja að færa mig meira frá rafmagnsgítarnum yfir á kassann. Það eru margir svona listamenn, sem notast við óhefðbundnar stillingar og aðferðir við að spila, sem heilla mig. Þetta er samt í fyrsta skipti sem ég nota over-top playing í lagasmíðum.

Fyrir áhugasama þá er kassagítarinn í Human stilltur í D-A-D-D-A-D og síðan er ég með afsagað capo á neðstu fjórum strengjum á sjöunda bandi, þanning að efstu tveir bassastrengirnir eru lausir. 

SKE: EP platan To the Ocean er væntanleg í vor. Hvað getið þið sagt okkur um plötuna?

GRINGLO: Platan er framhald EP plötunnar From Source sem kom út í fyrrasumar. Hún er í raun seinni partur sögunnar sem fyrri platan byrjar á. Hún kemur út í byrjun sumars á Spotify en síðan verða báðar plöturnar gefnar út á geisladisk sem ein LP og mun þá lokaverkið heita From Source, to the Ocean—a Tale of Two Rivers.

Platan í heild sinni er einskonar concept plata. Hún er samin á fjórum mjög atburðaríkum árum. Tónlistin á þessari plötu var mín leið til að lækna hjartasár og skilja sjálfan mig betur. Hvert einasta lag er partur af ferðalagi mínu, frá algeru niðurbroti og til mannsins sem ég er í dag.

SKE: Undirritaður er ástfanginn af laginu Strasbourg St. Denis eftir Roy Hargrove (hvíl í friði). Vill hann jafnframt meina að allir ættu að gefa sér tíma til að hlýða á lagið. Að ykkar mati: eitt lag sem allir verða að heyra—og hvers vegna?

GRINGLO: Það gæti verið erfitt að komast á eitt með það! Við höfum allir nokkuð ólíkan og breiðan tónlistarsmekk. Það fyrsta sem kemur í hugan er alltaf lagið September með hljómsveitinni Earth, Wind and Fire. Það er tímalaus snilld og kemur manni alltaf í gott skap. 

SKE: Eitthvað að lokum?

GRINGLO: Á næstu mánuðum hrindum við af stað söfnun á Karolina Fund þar sem við munum safna fyrir bæði útgáfu á plötunni From Source, to the Ocean—a Tale of Two Rivers og útgáfutónleikunum okkar. Það verða alls konar pakkar til sölu: miðar á tónleikana, diskar, bolir og síðan einhverjir sérstakir pakkar í takmörkuðu upplagi. Við mælum auðvitað með því að fólk leggi okkur lið í því.

Við mælum einning með því að allir leggi leið sína norður fyrir útgáfu tónleikana okkar í Hofi næstkomandi 8. júní. Þetta verða metnaðarfyllstu tónleikar okkar fram að þessu og engu til sparað. Við erum staðráðnir í að skapa einstaka upplifun fyrir áhorfendur.

Ást og Friður,
GRINGLO

(SKE þakkar GRINGLO kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á lagið “Human,” sem og að skella sér á tónleika með sveitinni sem allra fyrst.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram