today-is-a-good-day

Sóley

Söngvaskáldið Sóley stökk hálfmótað út úr höfðinu á Sóleyju Stefánsdóttur fyrir nokkrum árum og hefur látið illa síðan. Sóley, sem áður var meðlimur í hljómsveitinni Seabear, hefur á tiltölulega stuttum tíma vakið verðskuldaða athygli fyrir lagasmíðar sínar og ekki síður fyrir útsetningar. Nýjasta plata Sóleyjar, Ask the Deep kom út hjá Morr Music fyrr á þessu ári og SKE hafði samband til að forvitnast dálítið um plötuna og fleira.

Hví byrjaðirðu svo seint að syngja sjálf, í öllu falli opinberlega?

Ég byrjaði nú bara óvart að syngja. Ég var bara að semja lög og svo gerðist fullt á stuttum tíma og ég gaf út smáskífuna Theater Island hjá þýska plötufyrirtækinu Morr Music og svo var ég allt í einu komin uppá svið, syngjandi… og mjög stressuð!

Hljóðheimur þinn er fremur dökkur, dálítið drungalegur; hvert sækirðu áhrif eða hvaðan færðu þau að þér forspurðri?

Ég sæki áhrif í líf mitt og hugsanir að miklu leyti. Til dæmis allt sem ég hræðist finnst mér gaman að skrifa um og svo finnst mér bara svona frekar dimm og drungaleg músík áhugaverð!

Ljóðheimurinn er kannski ekki síður dimmur, hvað um áhrif þar á?

Það er svolítið það sama, bæði hugsanir mínar og svo les ég oft ljóð til að koma mér í skrif-gírinn. Ég held mikið upp á Davíð Stefánsson og Stein Steinarr.

Hver er djöfullinn sem þú syngur stundum um?

Djöfullinn mun vera hugur minn – í þessu tilviki.

Þú gafst út frábæra plötu fyrr á árinu, Ask the Deep, að hvaða leyti er hún frábrugðin fyrri verkum þínum?

Mér finnst hún hafa meiri heildarsvip og ég vissi aðeins meira hvað ég var að gera þegar ég samdi/tók hana upp. Hún er meira drifin áfram af orgelum og synthum frekar en píanói sem var alltaf aðal hjá mér. Ég var líka með svona eitt heildarþema í textum á plötunni en ég skrifaði svolítið um djúpið og hversu djúpt hugurinn getur farið með mann, langt frá rökhugsun.

Hefurðu fylgt henni eftir með miklu spileríi?

Já, ég er nú búin að fara til Japan, Ástralíu og Evrópu það sem liðið er af árinu. Í haust eru svo fleiri tónleikaferðir bókaðar og fram á næsta ár.

Það tekur á að vera svona mikið í burtu frá henni.

– Sóley

Hvað er helst á döfinni í sumar?

Ég verð með útgáfutónleika fimmtudaginn 11. júní í Fríkirkjunni. Ferðinni er svo heitið á Drangsnes þar sem ég mun spila á Sumarmölinni 13. júní. Svo ætla ég að reyna að taka mér smá frí og vera með eins árs dóttur minni og reyna að rækta aðeins sambandið þar. Það tekur á að vera svona mikið í burtu frá henni.

Er tregi fallegri en gleði, heldurðu?

Jah, hann er fallegur en ég held að gleðin þurfi nú að hanga með líka. Lífið snýst allt um jafnvægi!

Og á þeim sumpart jóbimsku nótum látum við staðar numið að sinnu. SKE óskar Sóley að sjálfsögðu kærlega fyrir spjallið og vonar að henni gangi sem best í framtíðinni, hvað svo sem hún tekur sér fyrir hendur.

Auglýsing

læk

Instagram