Tómas Lemarquis

SKE: Í meistaraverki Þórbergs Þórðarsonar, Bréf til Láru, er að finna eftirfarandi orð: „Líkamsfita og sællegt útlit eru tíðir förunautar andlega dauðans, þegar öll innri barátta er um garð gengin og maðurinn kominn í sátt við eymdina … yfir andlitið sezt sauðarleg ró og friður, eins og títt er um heilaga menn. Sérhver rannsakandi hugsun, sérhver lifandi tilfinning, sérhvert þjáningarspor undan yfirstandandi eymd þurrkast burt.“ Ég sat andspænis leikaranum Tómasi Lemarquis þegar þessi fleygu orð spruttu upp í hugann eins og hvítar fjallarósir. „Hvers vegna?“ jú, vegna þess að Tómas Lemarquis er helber andstæða þessara orða; á beinum Tómasar hangir lítil sem engin fita og er hann „sællegur“ í útliti aðeins í þeim skilningi orðsins að hann lítur út fyrir að vera sæll. Jafnframt býr Tómas Lemarquis yfir ákveðinni ró og ákveðnum friði, en sú ró og sá friður verða seint talin „sauðarleg“: Öllu heldur er þetta ró blettatígursins, áður en hann tekur á rás. Enn fremur eru tilfinningar hans Tómasar lifandi og hugsanir hans rannsakandi, sumsé – hann er eins fjarri andlega dauðanum og Þórbergur forðum, nakinn í fjöru að stunda Müllers-æfingar … Við ræddum X-Men: Apocalypse, perúískan shamanisma, jóga og margt, margt fleira …

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Tómas Lemarquis
Ljósmyndir: Allan Sigurðsson

(Í guðdómlegri sólarblíðu rölti ég upp Öldugötuna líkt og ég sé í eins manns skrúðgöngu, skrúðgöngu sem tileinkuð er lífinu. Gleðin sem býr í brjósti mér á rætur að rekja til þeirrar staðreyndar að í dag, þann 19. maí, 2016, byrjar sú árlega sinfónía „Sumarfrí“ og hefst verkið með forvitnilegum forleik sem ber titilinn „Tómas Lemarquis.“ Ég dingla efstu bjöllunni og dyrasíminn hringir: „Halló,“ segir rödd, væntanlega Tómasar. „Blessaður!“ segi ég, óþægilega kumpánlegur við fyrstu kynni, að vanda. Geng ég síðan upp tröppurnar með loftkenndum skrefum og í dyrunum, á efstu hæð, stendur hann brosandi – einlægnin i mannsmynd. Hann býður mér inn í sérstaklega fallega og bjarta risíbúð sem er í eigu móður hans. Ég segist vera nýfluttur í nágrennið.)

Tómas: Ég skil ekki hvernig hægt er að búa annars staðar.

SKE: Nei, nákvæmlega. Reyndar hef ég búið í Hafnarfirði alla mína ævi, en hef nú svikið lit gagnvart mínu gamla bæjarfélagi.

(Í dag eru allir sebrahestar KR-ingar, en ekki FH-ingar, hugsa ég með sjálfum mér. Ba dum tsss.)

SKE: Þú fluttir nýlega til L.A.?

Tómas: Ég er svona hálffluttur. Hef búið í Berlín síðastliðin 10 ár. Þar á undan bjó ég í París í þrjú ár.

(„Á öllum bestu stöðunum,“ segi ég og reyni að hæla Tómasi fyrir að búa yfir góðum landfræðilegum smekk.)

Tómas: Ég mundi nú ekki segja að París væri besti staðurinn til þess að búa á …

„Ég mundi nú ekki segja að París væri besti staðurinn til þess að búa á …

– Tómas Lemarquis

(Ketillinn byrjar að sjóða. Tómas fær sér te og chia-graut og býður mér chia skál líka – en ég afþakka: „Ég fékk mér Corn Flakes í morgun,“ segi ég eins og asni.)

SKE: Reyndar væri ég til í kaffi, ef þú átt. Ég hef verið hálf lystarlaus síðustu daga. Er með einhverja streptókokka sýkingu.

Tómas: Já.

(Skeiðin hans Tómasar glamrar við diskinn á meðan ég róta í skjalatöskunni. Hann klárar chia-grautinn og hellir upp á kaffi. Ég spyr Tómas hvernig honum hafi gengið á sérstakri frumsýningu Nexus á X-Men: Apocalypse, en hann leikur Caliban í myndinni.)

Tómas: Ótrúlega vel. Þetta er nýr heimur fyrir mér, þessi nördaheimur. Ég fékk smá innsýn inn í hann þegar ég lék í spænsku hrollvekjunni Painless. Við kynningu myndarinnar var ég viðstaddur nokkrar hrollvekjuhátíðir.

(Tómas spyr hvort að ég vilji mjólk út í kaffið. „Já“ segi ég og hann réttir mér fernuna. „Best að þú veljir grátónaskalann sjálfur,“ segir hann skáldlega.)

SKE: Þetta er furðulegur heimur, þessi nördaheimur …

Tómas: Það er mjög áhugavert að fara í bíó með nördum; þeir lifa sig svo innilega inn í þennan heim – öskra í salnum og púa. Stundum fer þetta kannski yfir strikið.

SKE: Var þetta stemningin á Nexus frumsýningunni.

Tómas: Já, það virðast ríkja ákveðnar siðareglur í þessum heimi.

SKE: Góðvinur minn frá Bandaríkjununum, Brian, ætlar ekki að sjá X-Men: Apocalypse fyrstu dagana – sökum þess að nördarnir eru svo kaldranalegir í garð grunnhyggna leikmanna.

(Við hlæjum.)

Tómas: Á frumsýningu myndarinnar í London, á rauða dreglinum, þá var ég gripinn glóðvolgur. Blaðamaður rak hljóðnema nánast framan í mig og spurði mig út í uppáhalds karakterinn minn – en þá var heilt ár liðið frá því að ég hafði pælt í þessum heimi af einhverju viti. Ég reyndi að muna hvað þessir karakterar heita en átti í miklum erfiðleikum. Frekar vandræðalegt. En mínir persónulegu ofurhetjukraftar eru að gleyma fortíðinni. Ég vil meina að það gefi núinu meira pláss. Við skulum vona það. Það gerir mér að minnsta kosti ókleift að vera langrækinn þótt ég vildi það.

„Mínir persónulegu ofurhetjukraftar eru að gleyma fortíðinni. Ég vil meina að það gefi núinu meira pláss.

– Tómas Lemarquis

(Ég spyr hvort að hann hafi fengið fleiri tækifæri eftir myndina.)

Tómas: Ég landaði samning hjá virtum umboðsmanni eftir að ég var ráðinn í hlutverkið. Ég hef reynt, í mörg ár, að komast í þá stöðu. Þetta er strax mjög góð byrjun. Allt svona hjálpar. Í hvert skipti sem þú leikur í stórmynd þá eykst traustið til þín; hver dagur í svona stórri mynd er svo dýr og er því mikilvægt að leikarinn búi yfir góðri reynslu. Þú þarft að vera viss um það að manneskjan sem þú ræður sé starfi sínu vaxin.

SKE: Hittirðu Fassbender?

(Fassbender er „man-crush-ið“ mitt.)

Tómas: Ég var ekki í senu með honum, en við snæddum reyndar hádegisverð saman einn daginn. Annars var ég með Oscar Issac, Jennifer Lawrence og Olivia Munn.

SKE: Hún er víst algjör nördahetja, hún Olivia Munn. Stýrði sjónvarpsþætti um tölvuleiki.

Tómas: Já er það? Ég vissi það ekki – þó svo að hún hafi leikið kærustuna mína.

(Við hlæjum.)

Tómas: Það er svölítið öðruvísi að koma á sett í nokkra daga í aukahlutverki. Þú kynnist þessu fólki mjög takmarkað. Meiri hluta dagsins er maður í karakter. Þetta eru Caliban og Mystique – ekki Tómas og Jennifer.

„Þetta eru Caliban og Mystique – ekki Tómas og Jennifer.

– Tómas Lemarquis

SKE: Hvernig var undirbúningsvinnan? Þú þurftir svolítið að undirbúa þig sjálfur, ekki satt?

Tómas: Jú, ég kafaði ofan í þennan heim en ekki um of. Maður vill hafa ákveðið listrænt frelsi til þess að skapa eitthvað nýtt.

(Tómas gengur að vaskinum og byrjar að vaska upp. Fyrir mér er uppvask, sem og allur frágangur, ákveðin athöfn sem snýst um að koma alheiminum aftur í jafnvægi. Mér sýnist Tómas aðhyllast samskonar hugsun. Hann virðist lifa í samlyndi við umhverfið.)

Tómas: Ég myndi ekki segja að ég hafi einhverja ákveðna tækni, heldur er þetta einhvers konar eðlishvöt. Ég vinn rosalega mikið út frá búningnum, en það á kannski rætur að rekja til shamanismans sem ég hef stundað.

(Ég lít niður á glósurnar sem ég hafði veitt upp úr skjalatöskunni. Þar stendur stórum stöfum: PERÚÍSKUR SHAMANISMI???)

Tómas: Fyrir mér snýst leiklistin um að beina orku í ákveðinn farveg. Ég sótti eitt sinn námskeið í shamanisma þar sem mér var gert að ganga í skó forfeðra minna. Við vorum tveir í hóp. Ég lék forföður minn og félagi minn lék mig – og átti ég að ávarpa sjálfan mig sem þessi ættfaðir. Fyrst fannst mér þetta hálf langsótt, en þar sem ég hafði borgað mig inn á þetta námskeið ákvað ég að prófa þetta. Ég lokaði augunum og horfi niður á skóna mína – og allt í einu var ég orðinn allt annar.

(Tómas setur sig í furðulega stellingu, eins og hann sé skakkvaxinn Víkingur, tilfinningaþrunginn og alvörugefinn.)

Tómas: Líkaminn var ekki lengur ég, þó svo að ég hafi kannski verið að leggja þessum einstaklingi orð í munn. Eftir þessa æfingu grét ég og grét, líkt og ég væri að fá tilfinningalega útrás. Svo var önnur æfing þar sem mér var gert að sviðsetja eigin dauða. Hinir í hópnum settu sig í spor skyldmenna og vina minna og ég ávarpaði fólkið líkt og í hinsta sinn. Markmiðið var að segja það sem mér lá á hjarta – og þetta var það sama og með hina æfingu: Allir sem tóku þátt grétu. Þetta var Óskarsverðlaunaleikur hjá öllu þessu fólki, þó svo að þau hafi alls ekki verið neinir leikarar. Þau voru bara að „channel-a“ ákveðna orku. Að vera listamaður, eða leikari, snýst oft um að beisla utanaðkomandi orku. Það gerist ekki alltaf, en þegar vel tekst til þá er eitthvað svoleiðis að gerast – maður verður að einhverjum öðrum.

SKE: Hvaðan kemur þessi áhugi fyrir Perúískum shamanisma?

Tómas: Ég kem frá mjög ótrúuðu heimili, að minnsta kosti í föðurætt.

SKE: Franskur „intellectual-ismi,“ ekki satt?

(Faðir Tómasar heitir Gérard Lemarquis og er franskur.)

Tómas: Einmitt. Orðið „Guð“ var ekkert inni í myndinni. En svo breyttist þetta. Þótt ég noti kannski frekar orðið alheimsorka í dag til að rugla því ekki saman við gamlan mannn með skegg. Ég varð fyrir andlegri upplifun þegar ég var 19 ára. Var þá að nema leiklist í París og hafði aðeins lesið mig til um jóga og hugleiðslu. Ég var að einbeita huganum að logandi kerti er mér fannst eins og að eldingu lysti niður hryggsúluna. Ég upplifði tafarlausa alsælu sem varði í nokkrar sekúndur, eins og ég væri einn með öllum alheiminum. Mörk sjálfsins hurfu.

„Orðið ,Guð’ var ekkert inni í myndinni.

– Tómas Lemarquis

SKE: Sjálfur hef ég upplifað samskonar tilfinningu. Afi minn, sem er, að eigin sögn, heilari og læknamiðill, kenndi mér jóga þegar ég var ungur. Hann dáleiddi mig einu sinni. Á þeim tíma stundaði ég breakdans af miklum krafti og var að reyna að ná tökum á ákveðinni hreyfingu, þar sem viðkomandi liggur á bakinu og stekkur upp á fæturna með því að halla höfðinu aftur og sparka af miklum krafti upp í loftið. Ég náði þessu bara ekki og var sjáanlega pirraður. Hann tók eftir þessu og bað mig um að leggjast og fór með mig í gegnum öndunaræfingu – og ég fór í hálfgerðan trans. Svo rankaði ég við mér og það var þessi gífurlega orka sem streymdi í gegnum líkamann. Ég velti mér aftur og stökk á fætur eins og að drekka vatn. Þetta var magnað …

Tómas: Er hann á lífi, afi þinn?

SKE: Já, hann er sérstaklega lifandi – og einnig mjög virkur á Facebook. Þar hraunar hann reglulega yfir læknasamfélagið sökum þess að hann trúir ekki á lyfja- né geislameðferðir. Hann fékk krabbamein sjálfur og segist hafa læknað sjálfan sig með jurtum og öðrum náttúrulegum, sem og andlegum, aðgerðum. Hann „add-ar“ öllum á Facebook. Fær alltaf 200 „like“ fyrir hvern status. Mér finnst einhvern veginn eins og að þið séuð vinir.

Tómas: Hvað heitir hann?

SKE: Haraldur Sigfús.

(Tómas fer í símann sinn og skoðar Facebook.)

SKE: Kannski að þið séuð ekki vinir, en mér finnst alltaf eins og í hvert skipti sem ég skoða einhvern þá er hann vinur afa míns.

Tómas: Haraldur Sigfús Magnússon? Jú, við erum vinir!

SKE: Er það ekki!

(Við hlæjum.)

SKE: Djöfull er það fyndið.

Tómas: Flott týpa.

SKE: Já, hann er það. En getur einnig verið mjög erfiður – hefur enga stjórn á skapinu.

Tómas: Þrátt fyrir jógaæfingarnar?

SKE: Þrátt fyrir jógaæfingarnar!

(Við hlæjum.)

Tómas: Hann er eins og Sami í útliti (finnskur þjóðflokkur), er það ekki?

SKE: Mér finnst hann alltaf líta út eins og einhver Víkingur.

(Við tölum meira um shamanismann og Tómas segir mér að markmiðið sé að komast í hálfgerðan trans. „Í gegnum öndunaræfingar þá?“ spyr ég.)

Tómas: Já, þetta er allt náttúrulegt. Trommur. Öndun. Engar plöntur eða neitt þannig. Þetta er ástæðan fyrir því að ég tengdi svo sterkt við X-Men: Days of Future Past, sem snýst um að ferðast til fortíðarinnar til þess að heila framtíðina (Tómas gekk út af myndinni og óskaði sér þess að leika einn daginn í X-Men mynd, en sú ósk rættist.) Í orkuhjúpnum eru alls konar óuppgerð mál, sem eru að aftra okkur. Shamanisminn hjálpar manni að endurskrifa söguna. Þegar maður gengur alltaf sama veginn í snjónum, þá myndast stígur – og það sama gerist í heilanum. Heilinn á það til að fara alltaf sömu leiðina. En það er hægt að búa til nýjan stíg. Þar sem áður var stígur fullur ótta er nú tekin heilbrigðari leið.

„Þegar maður gengur alltaf sama veginn í snjónum, þá myndast stígur – og það sama gerist í heilanum.

– Tómas Lemarquis

SKE: Ég las einmitt greinina sem þú deildir um daginn, um hamingjuna og þessar ómeðvituðu venjur sem maður tileinkar sér. Manni langar svo að brjótast út úr þessu strengjabrúðuleikriti sem lífið er – en það er svo erfitt.

Tómas: Einmitt, en maður getur gert það í gegnum hugleiðslu, sem ég hef stundað mikið. Í shamanismanum segir að iðkandinn eigi aldrei að ganga sömu leiðina tvisvar, og það er út af þessum mekanisma: Þegar þú sérð bíl í fyrsta skiptið þá sérðu bílinn. En svo þegar þú sérð bílinn aftur þá ertu í raun og veru að sjá minninguna um fyrsta bílinn. Heilinn styttir sér leið, sérstaklega þegar við eldumst. En sumir eru ungir í anda og halda sér við – eru opnir og leggja á sig.

(Tómas er sjáanlega í þeim hópi. Hann bætir því við að þetta sé ástæðan fyrir því að honum finnist ferðalög og tungumál svo áhugaverð: þau krefjast þess að maður sé vakandi – og maður verður aftur svo berskjaldaður, eins og lítið barn.)

Tómas: Maður er fullur af fordómum sem brotna þegar maður ferðast. Þegar ég var lítill voru því tveir hlutir sem ég var nokkuð viss um að ég myndi aldrei gera: læra þýsku og búa í Bandaríkjunum – en nú hef ég gert hvoru tveggja.

(Við hlæjum.)

Tómas: Það er þessi dómharka sem er svo mikið eitur. Maður dæmir aðra og sjálfan sig. Ég trúi því að við séum öll eitt. Í hvert skipti sem maður dæmir aðra, er maður að dæma sjálfan sig.

„Ég trúi því að við séum öll eitt. Í hvert skipti sem maður dæmir aðra, er maður að dæma sjálfan sig.

– Tómas Lemarquis

(Þetta er mikill sannleikur. Við ræðum Ísland. Ég spyr Tómas hvernig honum finnist að koma heim eftir að hafa verið úti svona lengi.)

Tómas: Það er alltaf jafn æðislegt. Maður er bæði glaður og uggandi yfir þessum túristum. Það hefur aldrei verið jafn mikið líf í bænum – en þó má þetta ekki vera eitthvað Disney Land. Sjálfur hef ég starfað sem leiðsögumaður og veit hversu viðkvæmt þetta er. Það er okkar að stjórna þessu vel – að beina þessu í réttan farveg.

SKE: Það er okkur mannfólkinu ekki sjálfgefið, að hugsa langt fram í tímann.

Tómas: Skjótur gróði, það er það sem er að varpa plánetunni um koll. Slysið þarf helst að vera búið að gerast áður en fólk vaknar. Viðvörunarbjöllur duga ekki til.

(Sem ritstjóri tímaritsins SKE – forvitnast ég aðeins um það sem er að SKE.)

Tómas: Ég er að fara leika í myndbandi fyrir þekkta íslenska hljómsveit sem lítur dagsins ljós von bráðar. Best að segja ekki meira að svo stöddu. Svo verð ég í dómnefnd í Frakklandi, fyrir svona Mockumentary hátíð, fyrstu sinnar tegundar. Þaðan fer ég til Leipzig að leika í kvikmyndinni Touch Me Not. Síðan í Karíbahafið með föðurfjölskyldu minni. Að lokum kem ég til Íslands og fer svo aftur til L.A.

(Síminn hringir. Tómas biðst afsökunar, svarar og segir við manneskjuna á línunni að hann sé í viðtali.)

SKE: Ég er með nokkrar hraðaspurningar hérna, en þú ræður því hversu hratt þú svarar: Áttu einhverja uppáhalds bók?

Tómas: Úff, það eru svo margar sem koma til greina … (Tómas hugsar sig um) … Þetta er rosalega erfið spurning. Ætli að það sé ekki bara Spiritwalker trílógían eftir Hank Wesselman, því að hún tengist mínu áhugasviði. Söguhetjan kemst í tengsl við annað líf, en í framtíðinni – eftir 2.000 ár. Ég hafði mjög gaman af þeim bókum. Ég veit reyndar ekki af hverju ég minnist á þetta.

(Hugurinn er leyndardómsfullt fyrirbæri, hugsa ég.)

Tómas: Svo er það skemmtileg bók sem ég er að lesa núna sem heitir Iron john. Hún fjallar um manndómsvígslu, sem er eitthvað sem samfélag okkar skortir í dag, að ég held. Það er erfiðara fyrir fólk að taka þetta skref – að verða að manni. Þetta á það til að dragast í nútímasamfélagi.

SKE: Ég var að flytja út úr foreldrahúsum þrítugur – ég tengi.

(Við hlæjum.)

Tómas: Stundum þarf maður bara ákveðið ritúal. Ég fór í þesskonar ferðalag með Annette, en hún er vinkona mín sem sér í gegnum holt og hæðir – er shaman. Mér leið eins og rosalega gömlum strák fyrir þetta ritúal. Svo leið mér eins og ungum manni.

„Mér leið eins og rosalega gömlum strák fyrir þetta ritúal. Svo leið mér eins og ungum manni.“

– Tómas Lemarquis

SKE: Hvernig gekk þetta fyrir sig?

Tómas: Þetta var ferðalag í huganum, þessi vígsla. Ekki ólíkt dáleiðslu. Ég vaknaði upp sem nýr maður. Heimsmyndin breyttist: Ný gleraugu. Í þessari bók, Iron John, segir rithöfundurinn að maður þurfi að komast í tengsl við hinn svokallaða „wild man“ eða „hairy man.“ Hann segir að lykillinn að þeim manni liggi undir kodda móður manns. Það sem hann meinar með því er að við leyfum okkur ekki alltaf að vera þær manneskjur sem við erum. Við erum alltaf að ritskoða okkur. Við erum ekki frjáls. Við erum í felum. Hluti af því sem ég er að gera núna er að stíga fram eins og ég er. En ég þarf ekkert að breyta neinum öðrum, ég hef engan áhuga á að aðrir fari þessa leið sem ég er að fara. Svo lengi sem ég fæ að vera sá maður sem ég er.

(Ég byrja, eins og oft áður, að ræða heimspeki.)

SKE: Mér finnst, er maður þroskast, að heimurinn sjálfur byrji að skipta minna og minna máli. Maður fer meira inn á við. Sjálfur hef ég lesið dálítið af heimspeki í gegnum tíðina, bæði Kant og Berkeley. Ef maður virkilega hugsar út í þessa hughyggju, þ.e.a.s ef maður nær utan um þessa hugmynd, þá breytir hún sýn manns á heiminum fullkomlega. Þetta virkar oft mjög langsótt, að þú getur aldrei snert raunheiminn því að skynfærin hafa ætíð milligöngu. En ef maður leyfir þessu að malla, þá er þetta mjög merkilegt. Maður leitar alltaf meira og meira inn á við … mér er að takast illa að koma þessu í orð …

Tómas: Nei, ég skil hvert þú ert að fara. Það er rosalega áhugaverð bók, sem heitir The Disappearance of the Universe, sem fjallar um þetta – það er ekkert til fyrir utan hugann. Lífið er jafn mikil hugarsýn og draumur um nótt. Við erum öll eitt og þetta eru bara birtingarmyndir af hlutum sem við köllum fram sjálf. Það eru mismunandi tilefni til að fyrirgefa og samþykkja.

(Ég lít á klukkuna og sé að ég er að verða of seinn í flug. Svo bölva ég sjálfum mér í hljóði fyrir að hafa masað of lengi. Tómas spyr hvert leiðin liggi. „Til Flórída,“ segi ég. Hann brosir innilega og við kveðjumst … Nokkrum dögum seinna, er ég sit við himneskan strandbar á Flórída, blasir við mér fagurblátt hafið. Ströndin, óraunveruleg og draumkennd. Orð Tómasar fljóta upp úr undirmeðvitundinni: „Lífið er jafn mikil hugarsýn og draumur um nótt.“ Amen.)

Auglýsing

læk

Instagram