today-is-a-good-day

Tvítugur með „sköpunaráráttu og Tourette-heilkenni“—SKE spjallar við Tómas Welding

Viðtöl

SKE: Í heimildarmynd sem var frumsýnd á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4 árið 2004 hélt tónskáldið James McConnel því fram að austurríska séníið Wolfgang Amadeus Mozart hafi verið með Tourette-heilkenni. Máli sínu til stuðnings vísaði McConnel—sem er einnig með Tourette—í blótsyrðin sem eru að finna í bréfum Mozart, sem og í hvatvísi hans; sagan segir að Mozart hafi eitt sinn yfirgefið flygilinn í miðjum einleik, í hirðsamkomu, til þess að leika sér við kött sem hafði ráfað inn í salinn. Samkvæmt Vísindavefnum einkennist Tourette af kækjum: „ósjálfráðum, hröðum, skyndilegum hreyfingum, eða hljóðum sem koma endurtekið fyrir á sama hátt. Algengt er að sjúkdómnum fylgi einnig áráttu- og þráhyggjueinkenni. Fyrrnefnd árátta er íslenska tónlistarmanninum Tómasi Welding vel kunnug. Tómassem gaf nýverið út lagið „Sideways“ í samstarfi við systur sínasegir að Tourette-heilkennið hafi ómeðvituð áhrif á allt það sem hann gerir. SKE spjallaði við Tómas í vikunni og forvitnaðist um listina og lífið. Gjörið svo vel.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Tómas Welding Sigurðarson
Ljósmynd: Tara Ösp

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segirðu þá?

Tómas Welding: Ég segi sæll og gleðilegan þriðjudag!

SKE: Fyrir þá sem ekki þekkja til Tómasar Welding: „Who the fuck is that … guy?“ Líkt og einn Klausturmannanna orðaði það, svona næstum því.

TW: Ég er tvítugur drengur með ákveðna sköpunaráráttu og Tourette-heilkenni. Ég hef skapað hitt og þetta, hér og þar, sem fólk hefur kannski tekið eftir. Ég lék t.d. í myndbandinu við lagið Glósóli eftir Sigur Rós þegar ég var sex ára. Þá var ég einnig titlaður „íslenskur tvífari Brooklyn Beckham“ árið 2015. Svo hef ég unnið þó nokkur tónlistarmyndbönd fyrir listamenn eins og JóaPé, Króla, Chase, YXY og fleiri. 

Nánar: https://menn.is/islenskur-tvifa…

SKE: Hvernig lýsir Tourette-heilkennið sér, í þínu tilfelli, og hvaða áhrif hefur það haft á þína sköpun?

TW: Tourette hjá mér kemur í bylgjum. Stundum er það auðveldlega bærilegt en á öðrum tímum alls ekki. Þetta hefur auðvitað áhrif á allt það sem ég geri ómeðvitað en ég held að það sé ekki eitthvað sem heyrist í lögunum mínum. Nema kannski uppi á sviði —hver veit!

SKE: Okkur skilst að þú sért úr Hafnarfirðinum. Hvaða kosti hefur Fjörðurinn umfram önnur bæjarfélög (mikilvægt að svara þessu rétt)?

TW: Hafnarfjörðurinn er fyrst og fremst bara bærinn minn. Ég ólst þar upp en flutti síðar til Selfoss í smá tíma og svo aftur til baka. Það helsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um kosti Hafnarfjarðar er fólkið—allir hérna eru voða næs! 

SKE: Rithöfundurinn George Orwell sagði eitt sinn að það að skrifa bók væri líkt og að þjást af alvarlegum og sársaukafullum sjúkdómi. Þú varst að gefa út lagið Sideways. Eiga þessi ummæli einnig við tónlistina? Hvernig var sköpunarferlið?

TW: Gaman að þú skildir spyrja út í ferlið á bak við lagið vegna þess að ég skrifaði engan texta (eins og þú kannski heyrir ef þú hlustar aftur). Öllu heldur ýtti ég bara á record og samdi textann af munni fram. Þegar þú hlustar á lagið heyrir þú fyrstu tökuna nema saturated, svo að maður sletti aðeins (um er að ræða einskonar hljóðbrellu þar sem tiltekið hljóð er spilað í gegnum rafeindabúnað). Það að skrifa texta getur samt verið erfitt ef hugmyndirnar koma ekki. Verst er þegar maður skrifar eitthvað sem passar ekki við lagið sem maður er að vinna í—en fattar það ekki fyrr en eftir á.

SKE: Systir þín syngur einmitt í laginu. Hvernig kom það til?

TW: Mér fannst lagið ekki nógu fjölbreytt í fyrstu. Það var einhvern veginn bara ég þarna að syngja en svo gerðist ekkert. Systir mín er rosalega góð að syngja og hefur alltaf verið það svo ég kallaði í hana og fékk hana til að spreyta sig.

SKE: Þú hefur býsna sérstæða rödd. Hvenær byrjaðirðu að syngja og hvaða listafólk hefur haft áhrif á raddbeitingu þína?

TW: Ég hef sungið heimafyrir og í bílnum síðan ég man eftir mér en þorði aldrei beint að gera það fyrir framan aðra, nema þá kannski systur mína af og til. Það listafólk sem hefur haft áhrif á mig er allt frá Alt-J og Radiohead yfir í Pearl Jam og Kings of Leon. Ég hef samt fengið það frekar oft að ég beiti röddinni svolítið eins og Khalid—sem er bara töff!

SKE: Lagið Sideways eftir Citizen Cope hefur lengi verið í uppáhaldi hjá SKE. Er nokkur tenging þar á milli?

TW: Það er því miður engin tenging þarna á milli þó hitt lagið sé mjög gott! Enda Sideways lagið mitt bara freestyle á staðnum.

SKE: Það er býsna falleg mynd sem fylgir laginu á Spotify. Hvaðan kemur myndin?

TW: Ég bjó þessa mynd til í 3D eftir vinnu einn daginn! Allt myndefnið sem þið sjáið í plötubæklingnum er 3D render. 

SKE: Í ljósi þess að þú hefur leikstýrt myndbönd fyrir JóaPé x Króli, Chase, o.fl. er kannski ekki úr vegi að spyrja hvort að myndband við Sideways sé væntanlegt?

TW: Já! Myndband við Sideways er á leiðinni. Það verður nú ekki stórt í sniðum eða neitt þannig. Þetta verður blanda af þrívíddar og tvívíddar grafík. Það ætlar að taka frekar langan tíma að klára myndbandið. En þetta er allt að koma!

SKE: Þá er sömuleiðis við hæfi að spyrja hvort að það sé plata væntanleg?

TW: Það er plata á leiðinni! Ég er kominn ágætlega langt á leið. Ég hef verið duglegur í hljóðverinu með Benna, sem smíðar takta fyrir Séra Bjössa, og hef verið að dúndra út alls konar reynsluupptökum (demos). Þetta eru lög sem spanna allan tilfinningaskalann, allt frá frekar þunglyndislegum lögum yfir í gleðilega sumarslagara með mér og JóaPé.

SKE: Við höfum það fyrir vana að spyrja alla viðmælendur okkar um eitt lag sem viðkomandi finnst að allir verða að heyra og biðjum við viðkomandi jafnframt að skýra sitt mál. Hvert er svar þitt við þessari spurningu?

TW: Lagið Taro eftir Alt-J er skylduhlustun, að minnsta kosti einu sinni. Það væri þó auðveldara að spyrja mig út í hvaða kvikmynd mætti ekki fara framhjá neinum þar sem ég hef stundað kvikmyndagerð frá því að ég var 11 ára gamall. Svarið við þeirri spurningu er Vanilla Sky með Tom Cruise og Penelope Cruz eða The Eternal Sunshine of the Spotless Mind með Jim Carrey. 

SKE: Uppáhalds tilvitnun eða textabrot?

Undanfarið hefur textabrot eftir Reyni í Venjulegir gaurar verið í uppáhaldi: 

Sorry, en þú veist að þú ert flókin /
Búin að sjá kápuna en hvernig fannst þér bókin? /
  

SKE: Eitthvað að lokum? 

TW: Að lokum langar mig bara að segja stay tuned! Það er margt á leiðinni, ekki fast við neina tónlistarstefnu svo þetta verður svolítill rússíbani. Hlakka til en kvíði fyrir því að koma fram á sviði—en það fylgir þessu bara. Takk fyrir mig!

(SKE þakkar Tómasi Welding kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á lagið „Sideways.“)

Auglýsing

læk

Instagram