Tvö ný lög frá Bon Iver: „U (Man Like)“ og „Hey, Ma“

Það er ástæða til að gleðjast í hvert skipti sem bandaríska hljómsveitin Bon Iver gefur út nýja tónlist. Sú var raunin í dag (3. júní) er lögin Hey, Ma og U (Man Like) rötuðu á Youtube (sjá neðst).

Sveitin frumflutti lögin í gær á All Points East tónlistarhátíðinni í Lundúnum. Samkvæmt fréttatilkynningu sem fylgdi útgáfunni verða lögin að finna á plötu sem Bon Iver hyggst gefa út á næstunni. Þess má einnig geta að Bruce Hornsby, Jenn Wasner, Elsa Jensen, Psymum, Phil Cook og the Brooklyn Youth Chorus komu við sögu við gerð laganna.

Í fyrrnefndri tilkynningu segir, meðal annars: „Þó svo að verkefnið (Bon Iver) hafi byrjað með einni manneskju þá hefur hljómsveitin þróast og dafnað síðastliðin 11 ár; það er ómögulegt að tala um Bon Iver án þess að ræða allt fólkið sem kemur að verkefninu—án þess að skírskota í sístækkandi ættarmeið sveitarinnar.“

Þá vakti Justin Vernon, söngvari sveitarinnar, einnig athygli á nýrri vefsíðu sveitarinnar (www.icommai.com) á meðan á tónleikum Bon Iver stóð í gær.

Nánar: https://pitchfork.com/news/bon-iver-release-2-new-songs-expand-tour-listen/

Síðast gaf Bon Iver út plötuna 22, A Million árið 2016. Í fyrra gaf Justin Vernon út plötu í samstarfi við Aaron Dessner úr hljómsveitinni The National (sem Big Red Machine).


Auglýsing

læk

Instagram