Hverfisbarinn opnar á nýjan leik

SKE: Í dag (1. mars) fæddust margar merkar manneskjur: kanadíski leikarinn Justin Bieber, keníska leikkonan Lupita Nyong’o, pólska tónskáldið Frédéric Chopin og, síðast en ekki síst, baráttumaðurinn og trúnaðarvinur Martin Luther King heitins, Harry Belafonte. Þó svo að þessar manneskjur hafi allar, að einhverju leyti (eflaust) hreyft við hinni íslensku þjóð – þá hefur engin þeirra snert vorra samlanda jafn djúpt og helsta ,afmælisbarn’ dagsins – bjórinn; allar sannar íslenskar ástarsögur byrja á barnum, með bjórnum … í tilefni þess að dagur bjórsins er haldinn hátíðlegur í dag (áfengisbanninu var aflétt 1. mars 1989) opnar Hverfisbarinn dyr sínar á nýjan leik. SKE setti sig í samband við Þórhall Viðarsson, rekstrarstjóra hins nýja Hverfisbars, og spurði nánar út í opnunina.

Þórhallur Viðarsson, rekstarstjóri hins nýja Hverfisbars.

SKE: Sæll, Þórhallur. Hvað geturðu sagt okkur um nýja Hverfisbarinn?

ÞV: Hér ætlum við að leggja mikla áherslu á bjór og gin; við munum bjóða upp á 14 mismunandi bjóra á dælu ásamt 51 tegund af bjór í gleri. Hugmyndin er síðan að vera með ákveðið „rotation“ á dælunum, þannig að það verður ekki alltaf sami bjórinn í boði. 

SKE: Nýverið gægðumst við inn um dyr Hverfisbarsins og má segja að þetta sé allt annar staður en gamli Hverfisbarinn.

ÞV: Já, búið er að taka staðinn í gegn. Þetta tók sinn tíma en við erum afar ánægðir með útkomuna. Leifur Welding sá um hönnunina.

SKE: Hvaða bjór er í uppáhaldi hjá þér þessa dagana?

ÞV: Úff, ég myndi segja Go-To IPA bjórinn frá Stone. 

SKE: Og verður hann fáanlegur á Hverfisbarnum?

ÞV: Já, ekki á dælu – en í dós.

SKE: Hverfisbarinn opnar í kvöld, formlega. Hvernig hljóðar dagskráin?

ÞV: Kvöldið byrjar klukkan átta. Á þeim tíma mun djass/fönk tríó stíga á svið og spila fyrir gesti. Svo ætlar hljómsveitin Ceasetone að taka nokkur lög klukkan tíu. Við verðum með tilboð á barnum frá því að dyrnar opna.

SKE: Verður mikið um tónleikahald á Hverfis?

ÞV: Já, stefnan er að halda tónleika fjórum sinnum í viku, til að byrja með, eða öll miðvikudags- til laugardagskvöld. Svo munum við sjá hvernig þetta þróast. En jú, svo sannarlega: lifandi, lágstemmd tónlist í fallegu umhverfi. 

SKE: Og að lokum: Er eitthvað lag í sérstöku uppáhaldi hjá þér þessa dagana?  

ÞV: Án efa Knock Three Times með Tony Orlando. 

(SKE þakkar Þórhalli kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að fagna degi bjórsins á nýja Hverfisbarnum í kvöld.)


Nánar: https://www.facebook.com/event…

(Hér fyrir neðan eru svo nokkrar myndir frá nýja Hverfis.)

Viðtal: RTH

Auglýsing

læk

Instagram