Auglýsing

Júníus Meyvant, Sísí Ey, Zhrine, Gyða Valtýsdóttir og Antimony hljóta KEX ferðastyrk

​Tónlistarferðasjóður KEX Hostel tilkynnir sína fyrstu úthlutun

Fyrsta úthlutun Tónlistarferðasjóðs KEX Hostel af mörgum var þ. 1. júní. Alls bárust 25 umsóknir sjóðnum í ár og í flestum tilfellum var um að ræða mjög metnaðarfull og verðug verkefni. Úthlutunarnefnd komst að niðurstöðu í síðustu viku og var litið til metnaðar verkefnanna sem og umsóknanna sjálfra og fjárhagsáætlanna.

Verkefnin sem hlutu styrk í ár eru eftirfarandi:

Júníus Meyvant hlaut 500 þúsund fyrir stóra og kostnaðarsama tónleikaferð um Evrópu í haust. Þungarokkhljómsveitin Zhrine hlaut 150 þúsund fyrir mánaðarlanga tónleikaferð um Bandaríkin með hinni virtu þungarokksveit Ulcerate frá Nýja Sjálandi í nóvember. Sísí Ey hlaut 150 þúsund fyrir tónleika hljómsveitarinnar á Glastonbury í sumar. Gyða Valtýsdóttir hlaut 100 þúsund fyrir tónleikaferð um Evrópu þar sem hún spilar m.a. tvenna tónleika með írska tónlistarmanninum Damien Rice. Antimony hlaut 100 þúsund fyrir tónleika sína Citadel í London en sveitin var valin sem upphitunaratriði af Sigur Rós.

Tónlistarferðasjóður KEX Hostel var settur á fót í apríl síðastliðnum og opnaði hann fyrir umsóknir í afmælisviku KEXins fyrir stuttu.

Í tilkynningu sjóðsins sagði eftirfarandi:

„Frá opnun KEX Hostels árið 2011 hefur gistiheimilið og veitingastaðurinn Sæmundur í sparifötunum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í hringiðu hinnar miklu grósku sem einkennir íslenskt tónlistarlíf. Starfsfólk KEX Hostels og Kexlands er afar þakklátt fyrir að fá að fylgjast með á hliðarlínunni og sjá íslenska tónlist dafna hérlendis sem og á erlendri grundu.

Til þess að ítreka þakklæti sitt til íslensks tónlistarfólks hefur KEX Hostel stofnað KEX Ferðasjóð sem mun hafa að leiðarljósi að styrkja tónlistarfólk til útrásar og styðja við bakið á þeim í tónleikaferðum. Skilafrestur til næstu úthlutun er 28. febrúar 2017.

Í úthlutunarnefnd eru þau Arnar Eggert Thoroddssen, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Ragnheiður Eiríksdóttir, Lárus Bl. Sigurðsson og Benedikt Reynisson.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing