„Lambhúshettan er ekki háð kyni, andliti eða kynþætti“

Breski rithöfundurinn Oscar Wilde sagði að maðurinn væri lengst frá því að vera hann sjálfur þegar hann talaði undir eigin nafni: „Gefðu honum grímu og hann mun segja þér sannleikann.“ 

Eiga þessi orð ágætlega við rapparann Leikeli47, sem á rætur sínar að rekja til Bedstuy hverfisins í Brooklyn, New York, en hún gengur ávallt með lambhúshettu. Í nóvember á síðasta ári sendi hún frá sér myndband við lagið Money sem hefur vakið maklega athygli. Þar sem Leikeli47 er einn áhugaverðasti rappari sem SKE hefur kynnst síðastliðin misseri, ákváðum við að fjalla stuttlega um hana hér í þessari grein:

Leikeli47 heitir réttu nafni Leikeli (ekki er þó vitað hvert eftirnafn hennar er) og er talan 47 tilvísun í plötuna Pet Sounds eftir Beach Boys (tveir Neumann U-47 hljóðnemar voru notaðir til þess að taka upp raddir á plötunni). Einnig er talan tilvísun í hafnarboltakappann Jackie Robinson, sem varð fyrsti þeldökki maðurinn til þess að keppa í MLB atvinnumannadeildinni í Bandaríkjunum árið 1947. 

Eins og áður segir gengur Leikeli47 ávallt með lambhúshettu (hún var næstum því handtekin á Starbucks fyrir þessar sakir). Aðspurð hvers vegna hún gangi alltaf með lambhúshettuna, af útvarpsmanninum Peter Rosenberg í viðtali á Hot 97 frá því um miðjan nóvember 2016, lét hún eftirfarandi ummæli falla:

„Ástæðan er sú að ég vil að fólk einblíni á listina sem ég er að skapa og pæli ekki í því hvernig ég lít út: Gleymdu kyninu mínu. Lambhúshettan táknar frelsi; hún er ekki háð kyni, andliti eða kynþætti. Þetta snýst um gleði og tónlist. Ég vil frekar að fólki hlusti á mig, en að það sjái mig. Svo er ég líka frekar feimin.“ 

– Leikeli47

Í viðtalinu fer Leikeli47 um víðan völl. Ólst hún upp hjá ömmu sinni og afa og ekkert af systkynum hennar veit við hvað hún starfar (sumsé, að hún sé rappari). Tveir bræður Leikeli47 sitja í fangelsi og einn þeirra mun líklegast aldrei geta um frjálst höfuð strokið. Einn bróður hennar er þó á leiðinni út og ætlar hún að kynna honum fyrir tónlist sinni þegar hann losnar. 

Leikeli47 var gestur á laginu Straight Outta Vagina eftir Pussy Riot (sjá myndband hér fyrir neðan), sem Dave Sitek úr hljómsveitinni TV on the Radio pródúseraði. Lagið var hluti af hinum svokallaða smáskífuklúbbi (Singles Club) Adult Swim árið 2016, sem skartaði tónlistarmönnum á borð við Run the Jewels, Against Me! og fleirum.

Til gamans má geta að rapparinn Jay-Z er mikill aðdáandi Leikeli47; þegar hann smíðaði sérstakan lagalista fyrir streymisveituna Tidal sumarið 2015, skírði hann lagalistann í höfuðið á lagi Leikeli47, Fuck the Summer Up. Var lagið jafnframt fyrsta lag listans. 

Hér eru fimm lög (og myndbönd) frá Leikeli47.

1. Money

2. Fuck the Summer Up

3. Bitch Switch

4. Heard Em Say

5. Drums II Clean

Hér er svo fyrrgreint viðtal við Leikeli47 á útvarpsstöðinni Hot 97:

Auglýsing

læk

Instagram