„Mér misbýður hrokinn í íslenskum stjórnmálamönnum.“

Fréttir / Viðburðir

Í dag er föstudagur. Og á föstudögum ber manni skylda til þess að hlæja, dansa og njóta lífsins, sumsé, að senda dauðanum kaldar kveðjur með einn hrímaðan sér við hönd. Ef þetta er á dagskránni hjá þér í dag, kæri lesandi, er vel þess virði að fagna lífinu í Gamla Bíó, þar sem Agent Fresco, Axel Flóvent og Soffía Björg munu stíga á svið og gera slíkt hið sama. Í tilefni þess hringdi SKE í hinn viðfelldna Arnór Dan, söngvara Agent Fresco, og spurði hann út í hitt og þetta – aðallega þetta.

(Arnór svarar í símann, svolítið hás . Síðustu daga hefur hann stigið íslenska glímu við flensuna, og trúir því að hann sé við það að fella hana. Hann er að minnsta kosti í vinnunni, aðallega vegna þess að það er svo gaman. Svo er hann mjög peppaður fyrir tónleikunum á morgun.)

Agent Fresco kemur fram í Gamla Bíó næstkomandi föstudag, ásamt Axel Flóvent og Soffíu Björgu. Er eitthvað sérstakt tilefni fyrir þessum tónleikum?

Ástæðan fyrir þessum tónleikum er sú að við áttuðum okkur allt í einu á því að við höfum ekki haldið tónleika í Reykjavík í langan tíma. Síðast spiluðum við á uppseldum útgáfutónleikum í Hörpunni í fyrra. Við fylgdum þeim tónleikum eftir með tónleikaferðlagi um Evrópu. En nú er komið að því að spila í Reykjavík, borginni okkar.

Af hverju varð Gamla Bíó fyrir valinu sem tónleikastaður?

Gamla Bíó hentaði bara þessum tónleikum fullkomlega; staðurinn er hvorki of lítill, né of stór. Þar rúmast um 700 manns. Við höfum spilað þarna að minnsta kosti tvívegis áður, á jólatónleikunum X-Mas (sem X-ið hélt) og á Iceland Airwaves. Þetta verða grand tónleikar og Gamla Bíó er líka svo rosalega fallegur tónleikastaður.

Hvernig hefur miðasalan gengið?

Miðasalan hefur gengið vel, en ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig, þá höfum við lítið augýst; við höfðum það ekki í okkur, andlega, að auglýsa tónleikana í síðustu viku, þar sem það var svo mikið að gerast í samfélaginu. Einhvern veginn hafði maður engan áhuga á því að tala um gigg þegar maður var svona vondur í skapinu.

Og hvað finnst þér um atburði síðustu daga í íslenskri pólitík?

Satt að segja finnst mér hálf hryllilegt að fylgjast með þessu. Ég er ekki að reyna dramatísera þetta, en síðan ég flutti hingað frá Danmörku þá hef ég hægt og rólega áttað mig á því að þegar ég bjó þar þá tók ég öllum þeim fríðindum sem þar buðust sem sjálfsögðum hlut: að fá greitt fyrir það að vera í skóla; að njóta frírrar heilbrigðisþjónustu; og að geta tekið lán á ásættanlegum kjörum. Stundum langar mig til þess að skera tunguna af íslenskum stjórnmálamönnum sem halda því fram að íslenskt samfélag sé alveg eins. Við erum að fara illa með land sem gæti verið svo flott fordæmi um vel rekið samfélagið sem er rekið samkvæmt hugsjón. Við höfum alla burði til þess. Ég horfi á heilbrigðiskerfið og mér finnst það vera ónýtt — gjörsamlega ónýtt. Svo misbýður mér hroki íslenskra stjórnmálamanna. Ég upplifi þetta kannski öðruvísi vegna þess að ég les fréttirnar í dönskum blöðum; sem er sennilega ástæðan fyrir því að ég er ónæmur fyrir þessari meðvirkni gagnvart íslenskum stjórnmálamönnum. Menn þurfa að átta sig á því að stjórnmálaflokkar eru ekki fótboltalið, ekki sértrúarflokkar: stjórnmálamenn eiga að starfa í þágu fólksins. En stundum finnst manni lífið vera of stutt til þess að vera velta sér endalaust upp úr þessu.

Hvað hefur Agent Fresco verið að braska síðustu daga/vikur?

Það hefur verið brjálað að gera, en aðallega á bakvið tjöldin. Við fluttum okkur til nýrrar umboðsskrifstofu, Mid-Atlantic, og erum á fullu að skipuleggja tónleikaferðalag um Evrópu í ágúst og um Bandaríkin í haust. Svo styttist í það að við förum að einbeita okkur að nýju efni. Auðvitað spilum við á helling af tónleikum í sumar.

Ég sá þig í Þjóðleikhúsinu í gær þegar Andri Snær tilkynnti framboð sitt til embættis Forseta Íslands. Af hverju nýtur Andri þinn stuðning?

Fyrsta lagi: rólegur, stalker.

(Við hlæjum. Ég hugsa um tilvitnun sem ég sá um daginn: „Stalking is when two people go for a long romantic walk together but only one of them knows about it.“ Ég er ekki „stalker“, en það er sennilega það sama og allir „stalker-ar“ segja.)

Mig langar smá að fá konu í embættið aftur, þar sem mér fannst Vigdís svo frábær. Þetta skiptir svo miklu máli. En ég var þarna fyrst og fremst til þess að kynna mér hvað hann hefur fram að færa. En það er ekkert leyndarmál að fyrstu viðbrögðin voru góð. Mér finnst þetta góðar fréttir. Andri Snær er frábært kandídat, að mínu mati. Það var einnig ánægjulegt að sjá eitthvað af sama fólkinu sem var á Austurvelli að mótmæla, en tónninn var allt öðruvísi. Andrúmsloftið var mjög jákvætt.

Hvernig var á AK Extreme? Og áttu eitthvað safaríkt slúður handa lesendum?

AK extreme: svaka dæmi. Það er líka ánægjulegt að sjá hversu mikið hátíðin hefur stækkað. Agent Fresco var að spila í fjórða eða fimmta skiptið. Það var uppselt á Sjallanum á laugardagskvöldið. Við erum afar þakklátir fyrir það að hafa fengið að vera með. Varðandi slúðrið: „What happens in AK, stays in AK.“ Það eru engir skandalar í kringum okkur. Ef það er eitthvað sem er fréttnæmt þá er það yfirleitt eitthvað vandræðalegt frekar en eitthvað annað.

Uppáhalds tilvitnun / „one-liner“?

Það eru tvö orð sem sitja alltaf í mér: „Memento mori“ („Mundu að þú munt deyja“). Mér finnst það svo mikilvægt að minna sjálfan mig á það að lífið er stutt. Maður er svo fljótur að sökkva sér í rútínur og áhyggjur og gleyma því hversu fallegt lífið er. Maður er umvafinn svo mikilli ást. Ég og kærastan fórum á Body Worlds sýninguna í New York fyrir nokkrum vikum síðan og það var dásamlegt að sjá hversu ótrúlegur mannslíkaminn er í raun og veru. Lífið er kraftaverk. Þess vegna er maður svo pirraður út í polítik og peninga – fokking peningar! Það eru engin kraftaverk þar.

Ef þú yrðir að lýsa sjálfum þér eins og húsgagni í vönduðum IKEA bæklingi – hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Tilfinningaríkur sturtuhaus!

(SKE þakkar Arnóri Dan kærlega fyrir spjallið og hvetur alla til þess að mæta á tónleikana í kvöld. Miðaverð er 2.900 kr. og húsið opnar klukkan 20:00 (tónleikarnir hefjast 20:30.)

Auglýsing

læk

Instagram