Óður til Sögusafnsins

[the_ad_group id="3076"]

Gamlir
vinir …

Okkur þykir vænt um gamla vini vegna þess að við
deilum sameiginlegri fortíð: Við þekkjum sögur þeirra; við
vorum vitni að sigrum þeirra og ógæfu; og við vitum að bakvið
andlit þeirra og orð, eru enn önnur andlit og enn
önnur orð. Það er að segja, við vitum hverjir þeir eru –
og frábrugðið þeim sem kynntust þeim aðeins nýverið – hverjir þeir voru.

Við
eigum okkar sögu.

Margir þeirra sem leggja leið sína til Íslands –
og sumir þeirra sem fæddust hér líka – eru ekki ólíkir
þessum nýju vinum. Þeir virða fyrir sér hótelin,
veitingastaðina, íbúana og lundabúðirnar – og telja sig trú
um að þeir hafi tilfinningu fyrir landinu, telja sig
skilja það. Þeir stilla sér upp við fætur styttnanna,
hagræða útlimum sínum í forgrunni náttúrunnar og standa meðal
þeirra fjölmargra kennileita
sem fyrirfinnast í borg eða sveit – og ljóma af sannfærandi
kunningsskap. Svo smella þeir af. En
ljósmyndir þeirra halla réttu máli:

[the_ad_group id="3077"]

Það er ekki hægt að skilja fellibyl með því að
smella af ljósmynd af teiknaðri eftirmynd,
sem rissuð hefur verið á lítið
ómerkilegt blað. Saga sérhvers lands er líka fellibylur og flest okkar dveljum við í fellibylsins friðsæla auga, ómeðvituð um þá
heiftúðugu fortíð sem á undan gekk.

Eins er farið með Ísland.

Áður en hér stóðu hótel, var aðeins geimur,
geimur og óbyggð; áður en hér stóðu veitingarstaðir, var
sultur; áður en hér stóðu gjafabúðir, var aðeins dauðans
gjöf; og áður en hér stóðu nútíma-Íslendingar, vel til
hafðir og brosandi, var aðeins vansælt
og brjóstumkennanlegt fólk, sem ríghélt
í lífið slungið myrkri og kulda – vöðvarnir spenntir gegn háskalegum
hverfulleika náttúrunnar.

Að ganga í gegnum Sögusafnið
er eins og að ganga þvert í gegnum ytri vegg víðáttumikils
fellibyls, líkt og að blaða í gegnum rykfallið ljósmyndaalbúm,
í eigu gamals vins. 

Sögusafnið geymir skyndimyndir af
fortíðinni sem varpa ljósi á nútíðina.

Fyrir tíð Gunnars Nelson var Egill Skallagrímsson.
Fyrir tíð Vigdísar Finnbogadóttur var Melkorka Mýrkjartansdóttir.
Fyrir tíð Guðna Th. Jóhannessonar var Þorgeir Ljósvetningagoði.

Í móttöku Sögusafnsins fá gestir heyrnartól og
er þeir rölta í gegnum sýninguna hlýða þeir á frásögn
sögumanns sem gerir grein fyrir þeim raunverulegu vaxstyttum sem
gestirnir standa augliti til auglitis við. Þetta eru eftirlíkingar
af fyrirrennurum okkar. Ef gesturinn hefur til að bera sem og aðeins
ögn af ímyndunarafli, þá vakna þessar styttur til lífsins: Þær
sækja að líkt og draugar. Sýningin (göngutúrinn) varir ekki
nema í u.þ.b. 30 mínútur og er undirritaður á þeirri skoðun að það
sé öllum hollt, heimamönnum jafnt og ferðamönnum, að staldra
við á Sögusafninu.

Því saga sérhvers lands er fellibylur og flest okkar dveljum við í fellibylsins friðsæla auga. Ber okkur að gaumgæfa ytri vegg bylsins í þágu niðar okkar, skilnings og visku. 

Og þá er ágætt að standa í skjóli Sögusafnsins. 

Words: RTH

Auglýsing

læk

Instagram