Ögraði umboðsmanni norskrar svartmálmssveitar: „Pussy metal.“

Árið 2004 stytti bandaríski grínistinn Dave Hill sér stundir með því að rita meinhæðna tölvupósta til svartmálmssveita (black metal bands) víðs vegar um heiminn.

Nánar um svartmálm: https://is.wikipedia.org/wiki/…

Bréfin ritaði hann undir dulnefninu Lance: sjálftitlaður konungur svartmálms í Gary, Indiana (heimabæ sínum). Upphaf bréfaskrifanna á rætur að rekja til bókarinnar Lords of Chaos: The Bloody Rise of the Satanic Metal Underground sem kom út árið 2003 og sem hefur haft mikil áhrif á Hill allar götur síðan.

Nánar um Lords of Chaos: https://www.publishersweekly.c…

Enginn tilgangur var með bréfaskrifunum annað en meinlaust grín (grunntónn tilverunnar, að sögn Þórbergs Þórðarssonar); Dave Hill ætlaði einvörðungu að hafa ofan af fyrir sér með því að hæðast að alvarleika fólksins sem var gjarnan viðloðandi svartmálmssenuna.

Eins og gefur að skilja skelltu flestir skollaeyrum við tölvupóstum Lance (Dave Hill), að umboðsmanninum Saiihtam (borið fram Satan) undanskildum. Saiihtam—sem var umboðsmaður norsku svartmálmssveitarinnar Mysticum—svaraði ekki einvörðungu fyrsta bréfi Lance, heldur hélt áfram að svara orðsendingum Lance næstu sex mánuði.

Eins og sjá má hér að neðan var fyrsta bréfið í senn ögrandi á meinhæðið (grínið fór þó augljóslega framhjá Saiihtam, sem á þó hrós skilið fyrir þolinmæði sína í garð Lance):

„Hæ, Mysticum gaurar. Ég rakst á netfangið ykkar á internetinu; það kom mér á óvart að uppgötva svartmálmssveit sem notaði tölvupóst. En gildir einu—maður getur kannski ekki ætlast til þess að þið séuð alltaf í hellum (þeir sem taka svartmálmi alvarlega eru samt alltaf í hellum). Hvað sem því líður þá er ástæðan á bak við þetta bréf einföld: Mig langaði að athuga hvort að það væru kannski tvær hljómsveitir sem kalla sig Mysticum? Ástæðan fyrir því að ég spyr er vegna þess að vinur minn, Todd, sagði mér frá hljómsveit að nafni Mysticum sem átti að spila alvöru svartmálm—og mælti hann heilshugar með tónlistinni ykkar. Í kjölfarið festi ég kaup á plötunni ykkar og kom því á óvart að heyra þennan algera píkumetal. Er önnur hljómsveit sem kallar sig Mysticum?“

– Lance (Dave Hill)

Áhugasamir geta lesið bréfasamskipti Lance og Saiihtam með því að smella á hlekkinn hér að neðan:

The Black Metal Dialogues: https://www.theblackmetaldialo…

Þá segir Dave Hill einnig söguna í hlaðvarpsþættinum Broken Record, sem kanadíski fræðimaðurinn Malcolm Gladwell stýrir í samstarfi við blaðamanninn Bruce Headlam og goðsögnina Rick Rubin.

Í þættinum ræða þeir Malcolm Gladwell og Dave Hill muninn á milli svartmálms og dauðarokks. Þá rekur Dave Hill einnig sögu svartmálms í Noregi, áður en sögunni víkur að að fyrrnefndum bréfaskrifum.

Frábær þáttur hér á ferð.

Auglýsing

læk

Instagram